08.04.1986
Sameinað þing: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3537 í B-deild Alþingistíðinda. (3194)

398. mál, innflutningur búfjár

Flm. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um endurskoðun laga um innflutning búfjár sem ég er 1. flm. að, en flyt ásamt hv. 5. þm. Vesturl. Davíð Aðalsteinssyni.

Till. er á þá leið að Alþingi ályktar að fela landbrh. að skipa nú þegar nefnd sem hafi það hlutverk að endurskoða lög um innflutning búfjár sem eru frá árinu 1962. Endurskoðun laganna taki mið af þeim breytingum sem orðið hafa á tækni við flutning erfðaefnis búfjár og athuguð verði sérstaklega sú grein laganna sem varðar tegundir nautgripa sem innflutningur er heimill á. Nefndin ljúki störfum fyrir 1. okt. n.k.

Eins og segir í grg. till. felur hún í sér tvö meginatriði sem endurskoðun laganna á að stefna að. Það er í fyrsta lagi að nútímatækni sé notuð til að ná skjótum árangri í ræktun nautgripa án þess að slakað sé á kröfum um sóttvarnir, en í öðru lagi að leyfilegt verði að flytja inn fleiri kyn af nautgripum en Galloway-nautgripi, en nú er aðeins heimilt að flytja þá tegund inn eða rækta hana upp hérlendis.

Það má spyrja að því hvers vegna og af hvaða hvötum þessi till. sé flutt. Ég vildi, þegar ég mæli fyrir henni, hafa örfá orð um hvers vegna álitlegt er að beita aðferðinni að nota frjóvguð egg í stað sæðisinnflutnings. Hagkvæmnin er fólgin í tafarlausum árangri. Hreinn gripur fæst strax við fyrsta burð og því kemur hreinræktaður gripur til notkunar hjá bændum ári síðar. Gæti kjöt af þessum grip verið komið á borð neytandans um 27 mánuðum þar á eftir.

Þess má geta að ræktun hreinna gripa með sæðisflutningum tekur um tíu ár. Það er vert að benda á að lögin sem heimila innflutning eru frá 1962 og enn eru hreinræktuð naut ekki orðin að veruleika í sóttvarnastöðinni í Hrísey. Þessi leið er mjög kostnaðarsöm vegna hins langa tíma og hins mikla fjölda gripa sem ræktunin krefst.

Þá kem ég að því atriði að það er aðeins leyfilegt að rækta hér upp eitt kyn af nautgripum sem er Galloway-kyn. Skýrslur sýna að Galloway-kynið er með seinvöxnustu kynjum sem notuð eru. Galloway-hálfblendingar út af íslenskum kúm ná ekki nægilegum sláturþunga fullvaxnir. Þetta gerir það að verkum að hvert kjötkíló er óþarflega dýrt í framleiðslu. Það má geta þess að önnur kyn, eins og Hereford-kyn, ná meiri kjötþunga eftir sama tíma og gefa af sér stærri vöðva, en það eru einmitt þessir stóru vöðvar sem markaðurinn biður um.

Till. þessi er í sjálfu sér mjög einföld. Hún hljóðar upp á það að ráðherra skipi nefnd til að endurskoða lögin og rýmka þau ákvæði sem fjalla um þau tvö atriði sem ég hef rakið. Þetta verk ætti að vera hægt að vinna í sumar þannig að það væri hægt að taka tillögur nefndarinnar fyrir á næsta þingi í formi lagafrv. Þessi till. er flutt í þeim tilgangi að stuðla að því að rýmka löggjöf á þann hátt að fyllstu hagkvæmni verði hægt að koma við í nautgriparæktinni án þess þó að slakað sé nokkuð á öryggiskröfum. Allt bendir til þess að með þessum hætti sé hægt að framleiða fjölbreyttari vöru, fjölbreyttara nautakjöt með minni tilkostnaði og það er einmitt það sem markaðurinn þarfnast.

Herra forseti. Ég hef ekki fleiri orð um þessa till., en óska eftir að að lokinni þessari umræðu verði henni vísað til 2. umr. og atvmn.

Umr. (atkvgr.) frestað.