04.11.1985
Neðri deild: 12. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

28. mál, skattafrádráttur fyrir fiskvinnslufólk

Kristín S. Kvaran:

Virðulegi forseti. Ég hef ekki hugsað mér að setja á langa tölu hér. Ég átti þess ekki kost að vera viðstödd fyrri hluta þessarar umræðu og er þess vegna ekki viss um nema atriðið sem mig langar til að draga fram hafi þegar komið fram í umræðunni, en sjaldan er góð vísa of oft kveðin.

Mér finnst alveg forkastanlegt að lesa þær röksemdir sem fylgja hér í grg. með frv. og vil fá að vitna í það, með leyfi forseta:

„Að undanförnu hefur bilið milli tekjuhópa farið breikkandi á Íslandi. Talsvert stórir hópar fólks í landinu geta a.m.k. að verulegu leyti ráðið tekjum sínum sjálfir og er þar í mörgum tilvikum um að ræða sömu aðila og komist geta hjá því að greiða sinn skerf til sameiginlegra þarfa. Þrátt fyrir margumtalaða efnahagserfiðleika þjóðarinnar virðast þessir hópar landsmanna hafa fullar hendur fjár og rúm fjárráð þeirra koma m.a. fram í gífurlegum innflutningi og þenslu.“

Að það eigi að vera röksemd fyrir skattafrádrætti stéttar að einhver komist upp með að svíkja undan skatti finnst mér alveg furðuleg röksemd svo ekki sé meira sagt. Ég veit eiginlega ekki hvernig það á að geta átt sér stað að fara að draga þar eina stétt fram fyrir aðra og segja: Þessi stétt getur ekki svikið undan skatti og þess vegna verðum við að veita henni skattafrádrátt. Hvað ætli séu margar stéttir í landinu sem að sjálfsögðu hafa ekki nokkra möguleika til að fela einn einasta eyri fyrir utan það að þeir hafa ekki löngun til þess né nokkra tilburði uppi um neitt slíkt? Mér finnst þetta nálgast það að verið sé að hvetja til skattsvika. Ég verð að segja það alveg hreint eins og er. Og varðandi það að í grg. er einnig vísað til þess að þetta sé aðgerð sem svipar til fordæmis sem fyrir sé liggjandi í gildandi lögum í sambandi við fiskimannafrádrátt verður að athuga hvers vegna þeim frádrætti var komið á upphaflega. Honum var komið á upphaflega vegna langtíma fjarveru sjómanna og farmanna frá heimilum sínum. Vitaskuld er það alveg rétt að þetta fólk sem vinnur við fiskvinnsluna er langtímum fjarri heimilum sínum. En að það sé svo sólarhringum skipti án þess að koma heim er ekki sambærilegt við hin störfin.

Einnig er þess getið í grg. að þetta geti orðið til þess að gera störf við fiskvinnslu meira aðlaðandi. Því þá ekki að gera önnur störf meira aðlaðandi? Það er ekki hægt að draga eina stétt svona út úr. Hér var á máli hv. 2. flm. að heyra að verslunarfólk væri allt í einu orðið mjög hálaunað. Ég tel að það sé af og frá að vera að draga þá stétt fram hér sem hálaunafólk, fólk sem vinnur frá því eldsnemma á morgnana og fram á kvöld og hefur varla fyrir brýnustu nauðsynjum.

Við þessi störf sem er verið að ræða um að gera meira aðlaðandi - og vissulega er þörf á því -vinna aðallega konur og athuga verður að til þess að þessar konur geti staðið í því að vinna við þessa undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar eru yfirleitt aðrar konur sem annast um börnin þeirra og ekki hafa þær hærri laun. Svo mætti lengi telja. Það er verslunin og það eru þessi þjónustustörf í kringum fiskvinnsluna o.fl. Af mörgum stéttum er að taka þar sem mætti koma til skattafrádráttur.

Ég vil enn og aftur ítreka þá athugasemd sem ég gerði hér í upphafi að mér finnst með ólíkindum að það að vísa til þess að ein stétt eða önnur stétt hafi tækifæri til skattsvika geti verið röksemd fyrir því að koma á skattafrádrætti fyrir fiskvinnslufólk.