09.04.1986
Efri deild: 71. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3541 í B-deild Alþingistíðinda. (3204)

265. mál, verslun ríkisins með áfengi

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur á nál. hv. fjh.- og viðskn. var ég fjarstödd afgreiðslu þessa máls í nefndinni, en ég vil ekki láta hjá líða að fjalla stuttlega um afstöðu mína til málsins.

Eins og hv. frsm. fjh.- og viðskn. gat í máli sínu áðan er þetta mál gamalI kunningi í hv. Ed. og var samþykkt hér í fyrra en dagaði uppi í Nd. Í umfjöllun um málið í hv. fjh.- og viðskn. í fyrra kom fram að samþykkt frv. hefði í för með sér þá rúmlega 10 millj. kr. skerðingu á tekjum ríkisins. Að vísu voru þá í nefndinni ýmsar hugmyndir um að jafna þetta tekjutap með einhverjum öðrum hætti, með tollaálögum eða öðru, en slíkar hugmyndir urðu ekki að veruleika.

Að sönnu er hér ekki stórmál á ferðinni og skiptir ekki sköpum fyrir fjárhag ríkisins hvorum megin hryggjar eldspýtur og vindlingapappír liggja, en á meðan engar tillögur koma fram til að mæta því tekjutapi sem ríkissjóður verður fyrir mun ég sitja hjá við afgreiðslu málsins.