09.04.1986
Efri deild: 71. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3542 í B-deild Alþingistíðinda. (3209)

399. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Frú forseti. Hér er flutt frv. sem felur í sér breytingu á almannatryggingalögum með því að bæta einu orði inn í staflið c í 39. gr. laganna. Þetta orð er „hjúkrun“.

Þannig er mál með vexti að núna er heimilað í lögum að sjúkratryggingar taki þátt í greiðslum fyrir æfingameðferð og þjálfun utan sjúkrahúsa, en engin heimild er til þess að sjúkratryggingar taki þátt í heimahjúkrun. Það er kunnara en frá þurfi að segja að mikil þörf er fyrir þess konar þjónustu og það er eitt þeirra úrræða sem orðið getur til þess að fresta því eða afstýra að fólk þurfi á stofnanavist að halda. Hins vegar er heimilum ofviða í mörgum tilfellum að veita þá hjúkrunarþjónustu og aðhlynningu sem á þarf að halda, sérstaklega þegar í hlut eiga gamalmenni. Þar er þörfin mest og þar er fjöldinn mestur sem á slíkri þjónustu þarf að halda. Vitanlega getur þetta nýst fyrir þá sjúklinga sem yngri eru, en það er skoðun ríkisstj. að mikil þörf sé á því að greiða fyrir því að unnt sé að veita hjúkrun í heimahúsum. Á þann veg sé hægt að fylgjast betur með heilsu sjúklings, fylgjast með á faglegan hátt og hafa samband við lækni eftir því sem þurfa þykir.

Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi ekki margháttaðar útskýringar með þessu frv. Ég veit ekki betur en hér sé um samkomulagsmál að ræða. Stjórnarflokkarnir eru sammála um þetta og þeir fulltrúar úr öllum flokkum stjórnarandstöðunnar sem ég hef rætt við eru líka sammála um að nauðsynlegt sé að gera þessa breytingu.

Ég geri mér vonir um að þetta geti orðið til þess að það fáist til hjúkrunarstarfa eitthvað af þeim hjúkrunarfræðingum sem ekki hafa fengist til starfa hjá stofnunum. Svo getur staðið á að hjúkrunarfræðingar vilji taka að sér störf að takmörkuðu leyti en ekki sem fullt starf eða fast starf við stofnun. Þetta mundi einmitt greiða fyrir slíkri tilhögun.

Þetta leiðir hugann að því að við verðum að gefa vaxandi gaum þeim vanda sem við stöndum í til þess að veita öldruðum viðunandi aðhlynningu og aðbúnað í ellinni. Í þessu sambandi hef ég reynt að kynna dálítið hugmynd sem kann að tengjast þessu máli þegar til kastanna kemur, en það er hugmynd um dagvistun aldraðra í heimahúsum, og hugsa ég mér þá að það geti orðið með nokkrum hætti á svipaðan veg og dagmömmukerfið svokallaða fyrir börn. Í þessu tilviki gæti orðið um að ræða að lítilI hópur aldraðra kæmi saman á heimili þar sem þeir hlytu að einhverju leyti hjálp. Stundum gæti verið um að ræða heimsókn hjúkrunarfræðings, stundum sjúkraþjálfa, stundum iðjuþjálfa. Það sem meginmáli skiptir í sambandi við slíka dagvist er að með því væri rofin einangrun þeirra öldruðu borgara sem slíkt mundu nota sér. Að sjálfsögðu er margt aldrað fólk afar einmana þegar heimilin eru svo sett að mikill meiri hluti húsráðenda vinnur annars staðar en inni á heimilunum, en e.t.v. er gamalmenni eitt heima, auk þess sem mörg gamalmenni búa ein sér. Slík tilhögun gæti vissulega orðið til þess að hjálpa mönnum að halda lengur heilsu og una lífinu án þess að þurfa að leita til stofnana.

Annars er sú hugmynd ekki aðalatriði þessa máls, en það skiptir máli að þjónusta eins og hér er gert ráð fyrir í lögunum um almannatryggingar gæti verið á boðstólum til þess að auðvelda lausn eins og þá sem ég hef hér rætt um og yrði vitanlega, ef hún yrði framkvæmd, fyrst og fremst skipulögð af sveitarfélögunum.

Mig langar til að geta þess, virðulegi forseti, að í gær varð samkomulag í ríkisstj. um annan þátt í almannatryggingalöggjöfinni sem krefst lagabreytingar og ég vil biðja hv. nefnd að taka það atriði einnig til athugunar ásamt málinu og liggi fyrir álit um það fyrir 2. umr., en það er till., sem ég mun útbýta hér á eftir og afhenda nefndarformanni, í þá veru að heimilt verði að greiða mæðralaun til 17 ára aldurs í stað til 16 ára aldurs nú. Breytingin í það horf að greiða mæðralaunin til 17 ára aldurs kæmi til framkvæmda nú frá 1. júní, en frá 18 ára aldri um n.k. áramót. Þetta er að mínu viti mikið réttlætismál og á sínum tíma, þegar barnalífeyrisaldur var færður upp í 17 ár, flutti ég till. um að sá aldur sem miðað yrði við þegar mæður fengju mæðralaun fylgdi einnig þessu aldursmarki. Það var ekki samþykkt þá og síðan hefur barnalífeyrisaldurinn enn verið hækkaður upp í 18 ár. Ég er þeirrar skoðunar að það sé sjálfsagt að láta mæðralaunin fylgja þessum aldri ella gæti skapast sú aðstaða að erfiðara væri um vik fyrir börn einstæðra foreldra t.d. að stunda nám í framhaldsskólum svo sjálfsagt sem okkur þykir það annars. Slíkt ætti ekki að þurfa að eiga sér stað. Því er það að ríkisstj. hefur orðið sammála um að leggja til breytingu á almannatryggingalögunum um aldursmarkið.

Það má vel vera að það veki til umhugsunar um að upphæðirnar þurfi líka að endurskoða. Það er hins vegar ekki löggjafaratriði og unnt að gera það strax og svigrúm er til fjárhagslega. En með því að þetta er á miðju fjárlagaári sem við erum að fjalla um málið náðist samkomulag um að gera þessa breytingu í tveimur skrefum, að mæðralaunarétturinn yrði rýmkaður á þann veg að mæðralaun yrðu greidd þar til börn yrðu 17 ára frá 1. júní n.k. og frá áramótum n.k. að 18 ára aldri.

Ég veit ekki betur en það sé samkomulag um þetta atriði líka milli þm. úr stjórnarandstöðu og stjórnarflokkum, enda er hér um að ræða áhugamál margra og að ég tel að áliti flestra, a.m.k. að okkar áliti, sjálfsagt réttlætismál.

Frú forseti. Það er rétt að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.