09.04.1986
Efri deild: 71. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3544 í B-deild Alþingistíðinda. (3211)

232. mál, talnagetraunir

Frsm. meiri hl. (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hl. allshn. Ed. um frv. til l. um talnagetraunir. Nefndin hefur rætt frv. ítarlega og fengið til viðtals fulltrúa frá Öryrkjabandalagi Íslands, Íþróttasambandi Íslands, Þroskahjálp og forsvarsmenn Happdrættis Háskóla Íslands sem rekur eina peningahappdrættið í landinu.

Þetta frv. er, eins og kom fram við 1. umr. þess, byggt á samkomulagi sem varð í þinghléinu milli Íþróttasambands Íslands og Öryrkjabandalags Íslands, en þessir aðilar munu bindast samtökum um að starfrækja talnagetraunir til ágóða fyrir þessi samtök.

Nefndin klofnaði í málinu og mun minni hl. nefndarinnar skila séráliti og álit hans liggur hér fyrir. Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt og vísar til þess að hér er um ákveðið samkomulag að ræða. Íþróttasamtökin hafa eins og kunnugt er þennan rétt nú, en hafa ekki nýtt hann og það hefur orðið að samkomulagi milli þessara aðila að skipta á milli sín ágóðanum af þessari starfsemi.

Við teljum ekki annað verjandi, þar sem svo brýnt er fyrir bæði Öryrkjabandalagið og íþróttasamtökin í landinu að fá tekjur af talnagetraunum, einkum þó Öryrkjabandalagið þar sem ástandið í húsnæðismálum fatlaðra er mjög erfitt svo að ekki sé meira sagt, en afgreiða þetta frv. svo að þessi starfsemi geti hafist til ágóða fyrir þau góðu málefni sem hér er um að ræða.

Við viljum leggja áherslu á að allir aðilar, sem vinna að málum fatlaðra og þroskaheftra, vinni saman að þessum málum og samstaða þeirra sé góð um nýtingu þess fjármagns sem hér er um að ræða því að hér verður áreiðanlega, ef vel tekst til, um allmiklar fjárhæðir að ræða sem koma í hlut þessara samtaka.