09.04.1986
Efri deild: 71. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3548 í B-deild Alþingistíðinda. (3213)

232. mál, talnagetraunir

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég skrifaði undir nál. meiri hl. með fyrirvara. Ég mun hins vegar styðja frv. eins og það nú liggur fyrir þrátt fyrir það að ég hefði viljað sjá það nokkuð öðruvísi og kannske alveg sér í lagi viljað sjá það verða til með öllu geðfelldari hætti.

Ég tek það hins vegar fram út af orðum hv. frsm. minni hl. nefndarinnar að ég er ekki bundinn af neinu samkomulagi hvorki í reykfylltu bakherbergi og ekki einu sinni í þingflokksherbergi Alþýðubandalagsins enda mun þar ekki hafa verið um þingflokk Alþýðubandalagsins að ræða, svo það komi skýrt í ljós, heldur um allt aðra aðila sem þar véluðu um þó einhverjir Alþýðubandalagsmenn muni kannske hafa slæðst inn í það herbergi þegar þetta samkomulag var gert.

Ég held að í raun og veru hefði verið hollast og best, enda ekki ágreiningur um það í Nd. Alþingis í fyrra, að frv. eins og það var þá hefði farið í gegn en einn þm. ekki látinn ráða allri ferð þess og síðari framgangi sem er vissulega miður og ber að átelja og harma að slíkt skuli geta gerst.

Minn fyrirvari tengist því annars vegar, eins og reyndar kom fram að nokkru í máli hv. 5. landsk. þm., frsm. minni hl. nefndarinnar, að til eru tvenn landssamtök öryrkja í landinu, Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp. Sum aðildarfélög eru raunar innan hvorra tveggja heildarsamtakanna. Ég neita því ekki sem einn af forsvarsmönnum og stofnendum Þroskahjálpar á sínum tíma, sem einmitt var gerð til þess að auka tengsl hinna ýmsu félaga úti á landi og veita þeim meiri og betri aðild að þessum málum í heild sinni, að ég hefði viljað sjá vissa aðild Þroskahjálpar að þessum væntanlegu lögum. Það hefði bæði verið sanngjarnt og eðlilegt en einhvern veginn hefur það orðið svo að Þroskahjálp er ekki þarna inni í.

Ég ítreka það að milli þessara tveggja heildarsamtaka þarf að ríkja samstarf og einhugur sem allra mestur. Það hefur nokkuð skort á það, það skal viðurkennt. Ég veit hins vegar að aðstandendur Þroskahjálpar munu í gegnum sum sín aðildarfélög, þ.e. aðildarfélögin hér á Reykjavíkursvæðinu, sem munu vera Styrktarfélag vangefinna í Reykjavík, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra og Blindrafélagið, sem einnig eru aðildarfélög að Öryrkjabandalaginu, eiga þarna athvarf fyrir sína umbjóðendur og reyndar aðrir aðstandendur þeirra líka.

Ég veit einnig að þroskaheftir hafa fengið ákveðna úrlausn í því húsnæði sem Öryrkjabandalagið hefur yfir að ráða. Þar munu, að mig minnir, 11 þroskaheftir vera með sínar íbúðir í því knappa húsnæði sem þar er til staðar. Ég neita því ekki að sameiginleg aðild og samvinna um þessi mál hefði verið æskilegri en ég held að á lokastigi þýði lítt um það að fást heldur aðeins að harma að um þetta skyldi ekki nást full samstaða milli þessara tveggja heildarsamtaka.

Ég vil mega treysta því, ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem um þetta mál allt hefur orðið og með tilliti til þess að þessi tvenn samtök þurfa að vinna saman, að full tillitssemi ríki af hálfu Öryrkjabandalagsins gagnvart húsnæðismöguleikum þroskaheftra einnig í framtíðinni. Ég þykist enda viss af viðræðum mínum við forystumenn Öryrkjabandalagsins að það mál muni í raun auðsótt.

Inn í allt þetta mál blandast að sjálfsögðu staðreyndin um meðferðina á Framkvæmdasjóði fatlaðra, þ.e. stórskert framlög til hans og síminnkandi möguleikar þess sjóðs til að sinna brýnustu verkefnum. Þegar þessi sjóður upphaflega kom til lá ljóst fyrir að framkvæmdir í málefnum þroskaheftra lágu mjög eftir og sannarlega var því lögð aðaláhersla á framkvæmdir í þeirra þágu við úthlutun úr sjóðnum fyrstu árin. Ég tel skylt að þetta komi fram. Þar áttum við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, sem bæði vorum í stjórnarnefnd um málefni öryrkja og þroskaheftra á þessum tíma, hlut að að rétta þannig nokkuð hlut þroskaheftra sem hafði orðið mjög eftir í gegnum árin.

Ég hygg að sú stefna hafi verið rétt og í raun og veru má segja, ef við eigum að líta á hlut aðildarfélaga Þroskahjálpar annars vegar og Öryrkjabandalagsins hins vegar úr Framkvæmdasjóði fatlaðra, að hlutur Þroskahjálpar sé enn mun meiri en Öryrkjabandalagsins í þessum efnum og er það vel svo mjög sem þær framkvæmdir lágu eftir.

Það er undramargt sem bíður og skerðing sjóðsins hefur verið svo gífurleg, eins og menn þekkja úr umræðum öllum á Alþingi, að allt hefur, sama í hvaða málaflokki hefur verið, dregist um of á langinn. Ég nefni bara sem dæmi að Öryrkjabandalagið sótti nú um, til þess að fá upp í þær framkvæmdir sem þegar var lokið í húsnæðismálum þeirra, 7 millj. kr. úr Framkvæmdasjóði fatlaðra. Það fékk úthlutað í framkvæmdir sem þegar hafði verið lokið 2,8 millj. kr. Það vantar sem sagt 4,2 millj. upp á að Öryrkjabandalagið fái í sinn hlut það sem það hefði þurft að fá til þess að standa við þegar gerðar skuldbindingar, þegar unnar framkvæmdir.

Ég bendi á þetta vegna þess að það er brýnt skylduverkefni Alþingis að bæta úr framlögunum til Framkvæmdasjóðs fatlaðra og standa þar við lög sem allra mest, ótvíræð lög um framlög til sjóðsins, og ég efast um að við hefðum staðið uppi með þetta mál á þennan veg ef Framkvæmdasjóður fatlaðra hefði fengið lögboðin eðlileg framlög frá upphafi í sín mörgu verkefni.

Ég bendi hins vegar á það og þarf ekkert að ítreka það umfram það sem hér hefur verið gert að vandi í húsnæðismálum öryrkja er gífurlegur og snertir í raun og veru flesta aldurshópa þar. Ég bendi á, vegna þess að þar er komið inn á sama stóra sviðið og hv. 5. landsk. þm. benti réttilega á, þ.e. vandræði aldraðra, að ekki síst kemur þessi vandi aldraðra öryrkja inn í þetta og vænti ég þess að sá húsnæðisvandi sem þar er á ferðinni verði með einhverjum hætti í framtíðinni leystur á þennan veg og létti þá um leið á hinum almenna biðlista aldraðra sem hv. þm. greindi frá áðan.

Ég hef einnig séð þann biðlista yfir fólk hjá Öryrkjabandalaginu sem er hræðilega statt, langflest af því, og ég get ekki, eftir að vera búinn að kynnast þeim málum um nokkurra ára skeið, gert neitt til þess að draga úr því að til þess stóra verkefnis fáist verulegt fjármagn. Það hefur ekki fengist í gegnum Framkvæmdasjóð fatlaðra. Það er verið að gera það með þessum hætti og hefði mátt gera jafnvel enn frekar. Ég held því að hvað sem líður um margt óeðlilegum vinnubrögðum, sem eru talin úti í bæ að baki þessa frv., og hlutdeild einstakra aðila að þessu formi, geti ég ekki, vitandi um neyðarástand hinna fjölmörgu öryrkja, annað en stutt frv. sem komið er svo langt áleiðis þó marga galla megi þar finna og ég taki undir um margt réttmæti þeirra aðfinnslna sem hv. 5. landsk. þm. hafði uppi áðan og eflaust eru réttmætar.

Þar er einnig komið að hinu meginatriði míns fyrirvara, hversu þetta frv. ber hér að öðru sinni, hversu tilurð þess nú er um margt óeðlileg þegar aðilar koma sér saman um ákveðið fyrirkomulag, ná um það víðtæku samkomulagi, eins og margítrekað var inni í nefndinni, koma sér saman um ákveðna lausn sem þeir geta fallist á og Alþingi á svo að samþykkja. Nú eru þetta hinir ágætustu aðilar og alls góðs maklegir en undarlegt málþóf einstaks þm. er þó grunnástæða þess samkomulags sem liggur fyrir í stað þess að ég hygg að frv. hefði annars náð fram að ganga í því formi sem það var lagt fyrir Alþingi í Nd. þegar á s.l. vori.

Vissulega þarf íþróttahreyfingin á fjármagni að halda og ekki hef ég á móti því. Ég hef áður flutt um það tillögur á Alþingi að íþróttahreyfingunni væri séð fyrir skipulegum stuðningi, ekki aðeins til afreksíþrótta heldur alveg sérstaklega til almenningsíþrótta sem mér þykir íþróttahreyfingin hafa um of látið liggja eftir og beitt sér að afreksíþróttunum umfram allt annað.

Hins vegar er það svo nú, þegar alls staðar er þrengt að og skorið niður í þörfum framkvæmdum, að nokkurt hik hlýtur að koma á þm. þegar svo miklir tekjumöguleikar, eins og ég er viss um að er mikið til í hjá hv. 5. landsk. þm., sem í þessu felast eru opnaðir fyrir þessum aðilum og örugglega erfitt út úr því að komast. Við skulum gá að því að íþróttahreyfingin er hér orðin meirihlutaaðili, 60%-aðili, á móti því að Öryrkjabandalagið var með þetta að fullu í fyrra og hefði þá verið tiltölulega auðveldara að koma t.d. Þroskahjálp inn í það frv. með eðlilegri og skaplegri hætti.

Ég vil hins vegar ekki eiga að því hlut að stefna þessu máli í algera tvísýnu vegna Öryrkjabandalagsins og þess þörfu framkvæmda fyrst um þetta fyrirkomulag hefur þó náðst þetta samkomulag þó ég viðurkenni að umdeilanlegt hljóti það að vera.