09.04.1986
Efri deild: 71. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3551 í B-deild Alþingistíðinda. (3214)

232. mál, talnagetraunir

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég á ekki sæti í hv. allshn. og því hefur álit mitt á þessu máli ekki komið fram í nál. frá nefndinni. Ég vil hins vegar ekki láta hjá líða að koma því hér til skila í stuttu máli. Ég er óbundin af hvers konar samkomulagi sem kann að hafa verið gert í fyrravor, hvort sem er í reykfylltum eða reyklausum herbergjum, og ég get í flestu tekið undir það sem kemur fram í nál. minni hl. allshn.

Mér finnst í hæsta máta óeðlilegt að þremur félagasamtökum skuli fengin sú gullhæna í hendur sem talnagetraunir bersýnilega munu verða. Ég tel það ákaflega misráðið af ríkinu að afsala sér þessari tekjulind og tel að það hefði verið mjög heppilegt fyrir ríkið að hafa þarna öruggan tekjustofn til að geta fjármagnað ýmsar góðar framkvæmdir í hinum ýmsu mannúðarmálum. Ég tel því mjög misráðið að afsala sér á þennan hátt þessari gullhænu og þar með öllum möguleika á að hafa einhver áhrif á það í framtíðinni til hvaða hluta gulleggin hennar verða notuð.

Ég get tekið undir það, sem einnig kemur fram í minnihlutaáliti allshn., að þeir aðilar, sem fá nú talnagetraunir til umráða skv. frv., eru misjafnlega vel í stakk búnir til að bjarga sér sjálfir. Þar eiga Ungmennafélag Íslands og Íþróttasambandið tvímælalaust meiri möguleika en Öryrkjabandalagið. Ég hefði viljað sjá þessu fé að miklu meiri hluta varið til mannúðarmála og kannske að minni hluta til íþrótta og ungmennafélagsstarfa og hvað íþróttirnar varðar, þá einkum og sér í lagi til almenningsíþrótta frekar en keppnisíþrótta. Ég mun því greiða atkvæði með þeirri till. minni hl. allshn. að þessu máli verði vísað til ríkisstj. til nánari athugunar og gefa þeim sem nú halda um stjórnartaumana á ríkiskassanum færi á að halda í gullhænuna áður en hún flýgur alveg burt.