09.04.1986
Efri deild: 71. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3551 í B-deild Alþingistíðinda. (3215)

232. mál, talnagetraunir

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Eins og áður er fram komið er ég aðili að nál. minni hl. allshn. sem leggur til að þessu máli verði vísað til ríkisstj. Í þessu máli er pólitík afar tilviljanakennd því að það hefur aldrei verið pólitískur ágreiningur um það hér á löggjafarþingi Íslendinga né annars staðar, að því er ég best veit, að ríkið útdeili einkarétti á peningahappdrætti. Það hefur verið farið það sparlega með útdeilingu þessa réttar að hingað til hefur í raun ekki verið nema eitt peningahappdrætti hér í gangi, Happdrætti Háskóla Íslands.

Nú er það þannig að menn skiptast hér pólitískt mjög í fylkingar um það hvernig ríkið skuli standa að tekjuöflun almennt og til hvers og í hve miklum mæli skuli afla tekna. En í þessu máli, að ríkið hafi rétt til að útdeila einkaréttindum sem þessum, happdrættisréttindum, hefur ekki verið pólitískur ágreiningur.

Núna er komin upp sú skringilega staða að stjórnarflokkarnir og hugsanlega einhverjir úr stjórnarandstöðu í bland hafa látið þrýsta sér í það að flytja frv. af þessu tagi. Það er komið í þann búning sem það er í núna fyrir tilverknað ýmissa hagsmunaaðila og þrýstingsaðila. Við upplifðum það hvernig þessu máli reiddi af á seinasta þingi, því var lýst hér áðan, og stöndum núna með frv. í höndunum sem flutningsaðilar, stjórnarliðið, segja að hafi orðið samkomulag um milli hagsmunaaðila og þar af leiðandi sé eðlilegt að flytja það eins og það er núna.

Þá er til þess að taka að þeir hagsmunir sem þarna um ræðir eru alls góðs maklegir. En allir gera sér grein fyrir því að fjöldi félaga verður út undan og að markaðurinn, sem hér er verið að fara út á, hefur takmarkað þol, þ.e. að þegar farið er að útdeila happdrættisréttindum með peningavinningum sem þeim sem hér um ræðir fer að þrengjast á garðanum. Í gangi eru eina peningahappdrættið, Happdrætti Háskóla Íslands, stóru vöruhappdrættin, SÍBS og DAS, Getraunirnar og svo einstök happdrætti sem upp koma vegna stakra verkefna, reksturs eða starfsemi en miðast bara við einhvern ákveðinn tíma, frá því að byrjað er að selja miða og þangað til dregið er. Ríkið hefur reyndar sjálft staðið í happdrættisrekstri beint með útgáfu happdrættisskuldabréfa.

Hérna er á ferðinni, eins og hv. 11. þm. Reykv. benti á, gullhæna. Það er á ferðinni möguleiki til gífurlegrar tekjuöflunar. Hér er líka um að ræða leið til tekjuöflunar sem er ólíkt meira aðlaðandi en skattlagning. Við höfum öll okkar hugmyndir og afstöðu til skattlagningar og þá sérstaklega kannske með tilliti til þess í hvað skattlagningin er notuð. En hér er á ferðinni möguleiki til skattlagningar sem gefur í senn ákveðna niðurstöðu, ákveðnar tekjur, en hefur um leið með þeirri vinningsvon sem boðið er upp á ákveðið aðdráttarafl fyrir þá sem þátt taka.

Þegar ríkið aflar tekna t.d. með skattlagningu eða með því að reka happdrætti, eins og gert var með happdrættisskuldabréfunum á sínum tíma, gæti maður spurt sig í hvað hvað peningarnir skyldu fara. Auðvitað væri það miklu eðlilegra að hin fasta tekjuöflun, skattlagningin, nýttist þeim sem mest þurfa, sjúkum, öldruðum, öryrkjum og öðrum slíkum, en fjáröflun sem fram færi með happdrættisaðferðinni væri frekar notuð til annars konar fjárfestinga. En það er nú ekki til umræðu hér heldur spurningin um það að afhenda fáeinum félögum réttindi til mjög langs tíma til að reka happdrætti með gífurlega mikilli gróðavon. Auðvitað kemur það þessum viðkomandi félögum til góða, en um leið draga þau úr möguleikum annarra. Þess vegna teldi ég miklu heppilegra að ríkið stæði að þessum happdrættisrekstri sjálft og eyrnamerkti þessa peninga til þess sem við getum kallað undir einum hatti líknarmál.

Eins og ég sagði áðan hefur þessi tegund happdrættis gífurlega mikið aðdráttarafl. Það eru peningaverðlaunin sem í húfi eru, það er mjög stuttur „tímafaktor“ í happdrættinu, þ.e. það líður yfirleitt ekki lengra en vika frá því að ég legg mína áhættu í pottinn þangað til ég fæ niðurstöðu, svar við því hvort ég hef unnið eða ekki. Háir vinningar eru mögulegir m.a. af þeirri ástæðu að það getur safnast upp í potti, eins og sagt er, í þessu happdrætti. Það segi ég reyndar með hliðsjón af reynslu minni af slíkum happdrættum annars staðar frá, því að það verður að viðurkenna að ekki hafa komið fram neinar upplýsingar um það hvernig á að fara með vinninga eða hvert vinningshlutfallið er.

Ég held að ég sé ekki að brjóta þingsköp þó að ég geti hér plaggs sem var verið að leggja á borð okkar og hefur reyndar ekki, held ég, verið tilkynnt enn þá um framlagningu þess á þessum fundi. Það er frv. til laga um breytingu á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands nr. 13 frá 13. apríl 1973. Þetta frv. var að fljúga hér inn á borð okkar og er greinilega eingöngu til komið vegna talnagetraunanna. Hér er greinilega um að ræða ákveðna vörn forráðamanna Háskólahappdrættisins til þess annars vegar að leggja áherslu á einkarétt sinn á peningahappdrættinu en líka til að opna möguleika sinn á því að auka fjölbreytni happdrættisins og þá fyrst og fremst með tilliti til þeirrar samkeppni sem þeir eiga von á og sjá fram á að kemur til með að draga úr, að einhverju leyti a.m.k., þénustuvon þeirra. Eins og fram kemur í grg., með leyfi frú forseta, hefur stjórn Happdrættis Háskóla Íslands hug á að brjóta upp á nýmælum í rekstrinum. „Reynsla er fyrir því erlendis að happdrætti, sem eru þannig gerð að kaupendur miða sjá strax hvort þeir hafa hlotið vinning, njóta vinsælda margra og þykir rétt að reyna hvort svo verði ekki einnig hérlendis. Enn fremur happdrætti sem ekki eru flokkahappdrætti en dregið um vinninga í lok sölutímabils. Enn fremur eru til happdrætti sem sameina þetta tvennt.“

Það er greinilegt að Háskólinn ætlar sér að auka fjölbreytnina með tilliti til þessarar auknu samkeppni og það er engin launung á því að það kom fram hjá fulltrúum Háskólahappdrættisins sem mættu á fund nefndarinnar að þeir óttast þessa samkeppni.

Af öllum þessum orsökum, og þá kannske ekki hvað síst vegna þeirrar einu stóru ástæðu sem hefur verið nefnd hvað eftir annað hérna, að hér er verið að afsala miklum tekjumöguleika í hendur fárra félaga þótt þau séu alls góðs makleg, teljum við heppilegra að afgreiða þetta frv. ekki núna heldur taka það til nánari skoðunar, ekki til þess að koma í veg fyrir að viðkomandi félög geti notið góðs af tekjum sem af slíku happdrætti gætu leitt, heldur fyrst og fremst til að tryggja það að fleiri geti notið þeirrar gróðavonar sem þarna er um að ræða.