09.04.1986
Efri deild: 71. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3553 í B-deild Alþingistíðinda. (3216)

232. mál, talnagetraunir

Landbrh. (Jón Helgason):

Virðulegi forseti. Það má taka undir það að álitamál sé hverjum á að veita aðstöðu til tekjuöflunar og hverjum ekki. Vissulega tel ég að alþm. séu út af fyrir sig ekki bundnir af því sem gerist einhvers staðar utan Alþingis, en ég hef ekki áður heyrt talað um þennan fund á s.l. ári, sem hér var verið að lýsa, enda var ég þá fjarstaddur, en það sem ég vildi sérstaklega vekja athygli á er að mér finnst vanta samhengi, rökstuðning milli þess málflutnings sem hér hefur komið fram af hálfu minni hl. nefndarinnar og þeirrar tillögu sem þeir gera um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar.

Ég skal ekki leggja dóm á það hversu góð gullhæna þessi réttur er. En í núgildandi lögum hefur íþróttahreyfingin ein þennan rétt og er búin að hafa síðan 1972. Á s.l. vori var hafinn einhver undirbúningur hjá þeim að fara að nýta sér þennan rétt sem var bundinn við tölustafi en hugmyndin til Öryrkjabandalagsins var bundin við bókstafi. Það sem er verið að gera með þessu frv. er að veita Öryrkjabandalaginu hlutdeild í þeim rétti sem íþróttahreyfingin hefur samkvæmt núgildandi lögum. Ef þessu frv. væri nú vísað til ríkisstjórnarinnar væri það íþróttahreyfingin ein, eftir till. minni hl. nefndarinnar, sem hefði þennan rétt áfram og Öryrkjabandalagið sæti þá eftir réttlaust. Þetta held ég að menn þurfi að hafa í huga. Hér er verið að þrengja þann rétt sem íþróttahreyfingin hefur samkvæmt gildandi lögum í dag.