09.04.1986
Efri deild: 71. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3554 í B-deild Alþingistíðinda. (3218)

232. mál, talnagetraunir

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Ég hirti ekki um að ræða um þennan einkarétt íþróttahreyfingarinnar í fyrra máli mínu vegna þess að hv. 5. landsk. þm. gerði honum það góð skil í sinni framsögu fyrir nál., en mig langaði bara til viðbótar við það sem hann nefndi hér að benda á tvennt: Annars vegar höfum við náttúrlega enn þá stjórnvöld í þessu landi og framkvæmd laganna frá 1972 yrði trúlega aldrei að veruleika öðruvísi en að til kæmi einhvers konar reglugerðarsmíð af hálfu ráðuneytisins. Ef ráðuneytið hefði á annað borð áhuga á því að endurskoða afstöðu sína til þessara laga væri því alveg í sjálfsvald sett að gera það og koma í veg fyrir um leið að af framkvæmd núgildandi laga yrði.

Ég er alveg sammála hv. 5. landsk. þm. að íþróttahreyfingin hefur fyrirgert rétti sínum til þessarar tekjuöflunarleiðar. Það má bara benda á það að á þessum 14 árum eru það ekki neitt litlar upphæðir sem íþróttahreyfingin hefur þegið úr hendi fjárveitingavaldsins á meðan hún hafði í höndunum þennan tekjumöguleika með þeirri miklu tekjuvon sem í felst. Ég held því að það sé siðferðilega hægt að verja það að taka þennan rétt af henni og nýta hann með öðrum hætti.