09.04.1986
Efri deild: 71. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3563 í B-deild Alþingistíðinda. (3234)

409. mál, Iðnlánasjóður

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég mæli í fjarveru hæstv. iðnrh. fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um Iðnlánasjóð með síðari breytingum. Frv. þetta felur í sér ýmsar breytingar á núgildandi lögum um Iðnlánasjóð.

Í fyrsta lagi er lagt til að 1. gr. laganna verði breytt og að hlutverk Iðnlánasjóðs verði skilgreint víðtækar en nú er. Þannig verði Iðnlánasjóði einnig heimilt að veita lán til annarra atvinnugreina en iðnaðar. Meginhlutverk sjóðsins verður þó sem fyrr að efla framleiðni og framleiðslu í iðnaði.

Í öðru lagi er lagt til að 1. mgr. 6. gr. laganna verði breytt þannig að sjóðnum verði heimilt innan ramma lánsfjárlaga að taka lán án milligöngu annarra aðila, þar með talið að taka lán erlendis.

Í þriðja lagi er lagt til að stofnuð verði og starfrækt við Iðnlánasjóð sérstök tryggingadeild útflutningslána. Meginhlutverk deildarinnar yrði annars vegar að tryggja lán er lánastofnanir veita útflytjendum til að fjármagna lán til erlendra kaupenda og hins vegar að tryggja kröfur á hendur erlendum kaupendum.

Breytingar þessar eru samhljóða 16. gr., 27.-29. gr. og 49. gr. í frv. til l. um sjóði atvinnuveganna á þskj. 622.

Ástæða þess að frv. þetta er nú flutt er sú að sýnt þykir að ekki verði mögulegt að afgreiða sjóðafrv. varðandi atvinnuvegina í heild á yfirstandandi þingi. Brýnt er hins vegar að ná fram þeim afmörkuðu breytingum sem hér eru lagðar til. Frv. varðar brýnt hagsmunamál iðnaðarins og þykir nauðsynlegt að taka afstöðu til þess á yfirstandandi þingi.

Rétt er að minna á að Iðnlánasjóður yfirtók vorið 1984 starfsemi Iðnrekstrarsjóðs með lögum nr. 55 frá 1984, um breytingu á lögum um Iðnlánasjóð. Sjóðurinn er nú öflugur og hefur alla burði til að starfrækja öfluga tryggingadeild útflutningslána.

Félag ísl. iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna hafa á undanförnum árum lag ,áherslu á nauðsyn öflugra útflutningslánatrygginga. Í þeirri umræðu hefur verið bent á þá reynslu sem orðið hefur erlendis þar sem slíkar tryggingar hafa reynst sérstaklega mikilvægar þeim aðilum sem eru að hefja útflutningsstarfsemi. Þegar útflytjendur eru komnir í föst viðskiptasambönd erlendis þurfa þeir síður á útflutningslánatryggingum að halda. Þar sem vöxtur íslensks iðnaðar byggir m.a. á auknum útflutningi er hér um þýðingarmikla breytingu að ræða til eflingar á iðnaðarstarfsemi hér á landi.

Reynslan hjá OECD-ríkjunum bendir til að útflutningsábyrgðir séu að verða mikið atriði í samkeppni á alþjóðamörkuðum. Hér á landi hafa útflutningslánatryggingar aðeins verið veittar á um 1% af útfluttri iðnaðarvöru. Til hliðsjónar má nefna að útflutningstryggingar voru veittar fyrir um 20% af heildarútflutningi Dana 1983, 30% af heildarútflutningi Japana og 34% af heildarútflutningi Frakka sama ár.

Nauðsynlegt er að gæta varúðar við veitingu ábyrgða af þessu tagi og er því gert ráð fyrir að fjmrh. og iðnrh. skipi hvor um sig sérstakan fulltrúa til að starfa með stjórn Iðnlánasjóðs vegna starfsemi þessarar deildar. Tryggingarnar skulu takmarkaðar við 100 millj. sérstakra dráttarréttinda. Reikna má með einhverjum afföllum, en reynslan erlendis bendir til að þeir fjármunir skili sér í formi öflugrar útflutningsstarfsemi.

Frú forseti. Ég hef nú vikið stuttlega að efnisatriðum í frv. til l. um breytingu á lögum um Iðnlánasjóð á þskj. 756. Um frekari rökstuðning fyrir máli þessu vísast til grg. með frv. svo og til grg. með frv. til l. um sjóði atvinnuveganna á þskj. 622. Með því að það frv. hefur verið til meðferðar í hv. fjh.- og viðskn. legg ég til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umræðu og hv. fjh.- og viðskn.