09.04.1986
Efri deild: 72. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3568 í B-deild Alþingistíðinda. (3246)

348. mál, grunnskóli

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Ekki efast ég um góðan hug að baki þessu frv. sem hefur þann tilgang að því er segir í grg. og vitna ég hér, með leyfi forseta:

„Megintilgangur með lagafrv. þessu er að auka aðild foreldra og nemenda að stjórn og innra starfi skóla.“ Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs hér er sú að ég hef vissar efasemdir um að þessi svonefndu skólaráð breyti nokkru verulegu frá því sem nú er. Það kom fram hjá virðulegum forseta við framsögu málsins að flestir hefðu tekið því vel og talið þessi skólaráð vera til bóta. Ég held að það sé nú því miður oft svo að ef lagt er til að stofna ný ráð eða nefndir þá telji menn það vera til bóta. Ég er ekki viss um að svo sé alltaf og alls ekki viss um að svo sé í þessu tilviki. Ástæða minna efasemda er sú að svo hefur viljað til undanfarin þrjú ár, að ég hef gegnt formennsku í foreldra- og kennarafélagi við grunnskóla hér í borginni og það félag hefur látið sig varða og fjallað um öll þau mál, sem talin eru upp í athugasemdum um 3. gr., og gert er ráð fyrir að skólaráð fái til umfjöllunar - kannske með einni undantekningu. En annars hefur foreldrafélagið rætt um og fjallað um öll þau mál, sem hér eru talin upp, kennslu- og starfsáætlanir skólans, skólareglur, félagslíf nemenda, ferðalög, námsefni, fyrirkomulag námsmats, nýtingu húss og búnaðar, skólalóð, tilrauna- og rannsóknarverkefni, valgreinar, öryggi á vinnustað, brunavarnir, kannske minnst verið um það fjallað, umferðaröryggi í nágrenni skólans og annað sem lýtur að slysavörnum. Við höfum í þessu félagi mjög látið okkur skipta umferðaröryggismál og slysavarnir, en því miður talað þar fyrir daufum eyrum yfirvalda hér í borg, þannig að ég hef vissar efasemdir um að þessi breyting sé nauðsynleg. Ég held að það sé ekki rétt að vera að búa til nýjar stofnanir ef til eru aðilar og félög, eins og foreldrafélögin í þessu tilviki, sem geta ágæta vel gegnt þessu hlutverki og gera það.

En annars á ég sæti í þeirri nefnd sem fær þetta mál til meðferðar og þar gefst tækifæri til að gaumgæfa þetta betur og skal ég í ljósi þess hve framorðið er orðið nú ekki hafa þessi orð fleiri.