09.04.1986
Efri deild: 72. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3569 í B-deild Alþingistíðinda. (3248)

348. mál, grunnskóli

Flm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 5. landsk. þm. og hv. 2. þm. Austurl. fyrir að sýna áhuga á þessu máli. Mér er vel kunnugt um áhuga þeirra beggja reyndar og ekki síst hv. 5. landsk. þm. þar sem við höfum setið á fundum í foreldrafélagi þar sem hann er forystumaður og þar hafa þessi mál verið rædd.

Í sjálfu sér hef ég ekki neinar athugasemdir við það þó að menn dragi kannske í efa gildi þess eða gagnsemi að stofna skólaráð. Ég vænti þess að menn fjalli um þetta í menntmn. og það takist að komast að jákvæðri niðurstöðu um gagnsemi þessa. En mig langar aðeins að ítreka það að þessi vinnuhópur hefur fjallað ítarlega um þetta mál á mörgum fundum og í tengslum við það verkefni sem honum var falið. Á fundi nefndarinnar eða vinnuhópsins komu fjölmargir aðilar, bæði forustumenn foreldra og skóla, og þessi mál voru ítarlega rædd. Eins og ég gat um hefur það verið skoðun flestra að þetta væri til bóta, að efla tengsl heimila og skóla með því að gera foreldra virkari í daglegu starfi skólans. En eins og segir í frv. er það einmitt tilgangurinn með þessu því að við vitum að auðvitað eiga foreldrar aðgang að skólanum, aðgang að skólastjórum og kennurum og eins eiga kennarar aðgang að foreldrum, en við vitum að það er mjög misjafnt hvernig þetta er í framkvæmd. En þarna er verið að gera tilraun til þess að gera foreldrana eða fulltrúa þeirra ábyrgari fyrir hinum daglega rekstri í skólanum. Að þeir hafi aðstöðu til að fylgjast með og hafa áhrif á t.d. námsefni, vinnutilhögun í skólanum, námsbækur, svo að eitthvað sé nefnt, og einnig þá að benda á ýmislegt sem betur mætti fara og e.t.v. vantar stundum tengsl á milli skóla og foreldra á réttri stundu til þess að koma slíku á framfæri.

Ég ætla ekki að tefja fundinn með því að orðlengja þetta frekar, en eins og ég gat um hef ég ekki orðið vör við neikvæðar raddir til þessa atriðis, þvert á móti. Þetta var einróma niðurstaða vinnuhópsins sem fyrst og fremst byggist á þeirri vinnu sem lögð var í þessi mál og viðtöl og svör við spurningum sem vinnuhópurinn lagði fyrir þá aðila sem fengu spurningar sendar.

Varðandi það sem hv. 2. þm. Austurl. spurði um, og kom mér í sjálfu sér ekki á óvart, hvers vegna ég flytji þetta frv. en ekki hæstv. menntmrh. eða að þetta sé ekki flutt sem stjfrv. er mjög einfalt svar við því. Svarið er eingöngu það að hæstv. menntmrh. fannst það svo sjálfsagt að formaður þessa vinnuhóps, þar sem hann á sæti á Alþingi, flytti málið sem kannske nokkurs konar talsmaður þeirra verka sem við höfum unnið. Það var ekki frá mér komið í sjálfu sér annað en að þetta mál yrði flutt inn á Alþingi, því að þetta er í raun og veru eina atriðið sem kallar á lagabreytingu til þess að betrumbæta þetta samstarf.

Það er alger samstaða innan ríkisstjórnarinnar og mér þykir það leitt að vegna þess að ég frestaði umræðu um þetta mál hér á fyrri fundi, þá fékk hæstv. menntmrh. ekki tækifæri til þess að tala í þessu máli. Hann kom til mín áðan og ætlaði að taka til máls fyrst og fremst til þess að hvetja til þess að þetta frv. yrði samþykkt, lýsa stuðningi við það og leggja til að báðar nefndirnar ynnu saman í þessu máli svo að hægt væri að koma því í gegnum þingið núna.

Ég veit ekki hvort hægt er að fara fram á slíkt þar sem það er greinilega ekki eindregin samstaða í málinu eins og ég var nú svo bjartsýn að halda, þannig að ég vil aðeins athuga það án þess að standa hér í ræðustóli til að leita eftir svörum við slíku. En það hefði að sjálfsögðu verið möguleiki. E.t.v. er málið þá stærra og leikur meiri vafi á gildi þess en ég hafði gert ráð fyrir, og þar af leiðandi þurfi þá að leifa umsagna ýmissa aðila til þess að fá staðfestingu á hvað hér sé á ferðinni og hvort það sé til bóta fyrir samstarf heimila og skóla fyrir nauðsyn þess að gera foreldra ábyrgari fyrir hinu daglega skólastarfi.