05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

29. mál, fé tannverndarsjóðs

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Á síðasta þingi, þann 4. desember, bar ég fram fsp. til þáverandi hæstv. heilbrmrh. um það hvernig því fé hefði verið varið sem safnast hefði í tannverndarsjóð frá því hann var stofnaður, í apríl 1975. Þá var gerður samningur milli Tannlæknafélags Íslands og Tryggingastofnunar ríkisins, en 8. gr. hans hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Tryggingarnar leggja í sjóð sem svarar 1% af kostnaði þeirra við tannlækningar. Sjóðurinn standi undir kostnaði við fræðslu um tannvernd sem trúnaðarlæknir skipuleggur í samvinnu við heilbrrn.“

Skv. þessari grein mun hafa safnast í sjóðinn hátt á fimmtu milljón króna frá upphafi, en aðeins hluti þess fjár, eða um 900 þús. kr., verið nýttur til tannverndar. Sjóðnum voru ekki settar reglur fyrr en í apríl 1983 og virðist tilvist hans hafa verið fyrst og fremst bókhaldsleg, en fé hans allt bundið í öðrum rekstri Tryggingastofnunar ríkisins. Á meðan er tannheilbrigði okkar íslendinga sínu verri en flestra annarra þjóða og tvisvar sinnum fleiri tennur skemmast í okkur en íbúum annarra Norðurlandaþjóða. Samt verjum við álíka stórum hluta opinberra útgjalda til tannlæknisþjónustu og aðrir og erum fimmta best setta þjóðin í heiminum hvað varðar fjölda tannlækna á íbúa. Munurinn virðist einkum vera sá að við reynum að útrýma tannskemmdum með því að gera við skemmdirnar, en nágrannaþjóðir okkar, eins og t.d. hinar Norðurlandaþjóðirnar, hafa lagt megináherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir og sýnt fram á að hægt er á þann hátt að koma í veg fyrir tannskemmdir. Á s.l. tíu árum hefur hinum Norðurlandaþjóðunum tekist að draga mjög verulega úr tannskemmdum meðan lítil breyting hefur orðið í þessum efnum hérlendis.

Ein af orsökunum fyrir hinni háu tíðni tannskemmda hérlendis er hin mikla sykur- og sælgætisneysla Íslendinga, en nærri lætur að hver maður neyti að meðaltali um 53 kg af sykri á ári. Til þess að bæta úr þessu þarf fyrst og fremst fræðslu þannig að einstaklingurinn verði sjálfur sem virkastur til þess að viðhalda eigin heilbrigði, þar með talinni tannheilbrigði.

Til þess að ganga úr skugga um það hverjar séu áætlanir heilbrigðisyfirvalda um skipulagningu fyrirbyggjandi aðgerða til tannverndar hef ég leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 29 til hæstv. heilbr.- og trmrh. um fé tannverndarsjóðs svohljóðandi: „Hvernig hefur fé tannverndarsjóðs verið varið á s.l. ári og hvernig verður því varið á næsta ári?"