09.04.1986
Neðri deild: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3573 í B-deild Alþingistíðinda. (3253)

336. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Hv. þm. Kjartan Jóhannsson, sem var að ljúka máli sínu, hefur ekki kynnt sér þessi mál nógu vel, a.m.k. eftir hans málflutningi að dæma. Það hefur t.d. aldrei staðið til að þessi skattur yrði lagður á fiskirækt nema að samtök þeirra sem þar eru óski eftir því. Þetta er nákvæmlega það sama og t.d. hefur verið gert í sjávarútvegi. Þetta er alveg sama og gert hefur verið á fleiri sviðum. Þetta er ósk þeirra manna sem hafa stofnað þessi búgreinasambönd. Ég er hér t. d. með bréf frá hagsmunafélagi hrossaræktenda, frá Sambandi ísl. loðdýraræktenda o.s.frv. og auðvitað verður þetta gjald ekki lagt á nema þessi samtök óski eftir því og það sé samþykkt á aðalfundi þeirra.

Hér liggur fyrir líka beiðni frá Stéttarsambandi bænda að leyfa þessa gjaldtöku og í því bréfi er talað um að heimildin hljóði upp á 1% til allra, líka til sauðfjár og kúabænda. En í bréfi frá stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda er beðið um 0,20% og eftir því var farið með bæði kúabændur og sauðfjárbændur.

Hér er um hámarksgjald að ræða og það er á valdi landbrh. hvort hann leyfir slíka gjaldtöku og hvað háa, en þetta eru hámarkstölur. Ég sé ekki í fljótu bragði hvort ástæða er til þess, ef þessi samtök óska eftir gjaldtökunni, að Alþingi fari að hafna þeirri beiðni. Hv. þm. var einu sinni sjútvrh. og hann ætti að vita hvernig málum er háttað í sambandi við samtök þar.

Það var óskað eftir því, þegar við ræddum um frv. um framleiðsluráðið á síðasta þingi, að Stéttarsambandi bænda yrði veitt verulega hærri heimild vegna þess að það telur að það fjármagn sem það hefur fengið nægi ekki til að halda uppi þeirri starfsemi sem er á þess vegum. Það leit þannig á að þar væri ekkert til skiptanna. Það kann að vera að sumt af því sem sérgreinasamböndin taka við létti eitthvað á Stéttarsambandinu, en ætli það sé ekki þannig að þegar er um svona landssamtök að ræða, sem eru þátttakendur í stjórn Stéttarsambandsins, mörg þeirra, að starfsemin fari heldur vaxandi? Að minnsta kosti er lögð mikil áhersla á það af þessum mönnum að þetta frv. fari fram í þeirri mynd sem liggur nú fyrir Alþingi.

Allir aðrir en hv. þm. Kjartan Jóhannsson, sem eiga sæti í landbn., flytja þetta frv. Ég vil að það komi greinilega fram.