09.04.1986
Neðri deild: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3574 í B-deild Alþingistíðinda. (3254)

336. mál, búnaðarmálasjóður

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það mál sem hér er rætt er vissulega þess eðlis að í mjög mörgum tilfellum hefur löggjafinn tekið þá ákvörðun að sjá um innheimtu á félagsgjöldum fyrir ákveðin félög. Ástæðan fyrir þessari innheimtu er sú að félögin hafa ekki treyst sér til að ná fjármagni inn með öðru móti. Og þá erum við komin að grundvallaratriðinu í þessu máli og mörgum öðrum því þetta mál snertir ekki aðeins landbúnaðinn, þetta snertir sjávarútveg, stéttarfélög og fleiri aðila: Er félagafrelsi á Íslandi eða er ekki félagafrelsi á Íslandi? Og ef við förum að skoða þetta áttum við okkur á því að þetta fer algerlega eftir því hvernig við túlkum orðið „félagafrelsi“. Ef við túlkum orðið „félagafrelsi“ á þann veg að enginn sé skyldugur að taka þátt í greiðslum til félags nema hann sé þátttakandi í félaginu er niðurstaðan sú að það er ekki félagafrelsi á Íslandi. Það er skylduaðild eins og um trúmál væri að ræða á greiðslu gjalda til félaga. Ég verð að segja það eins og er að í prinsippinu er ég algerlega andvígur því að svo skuli vera. Mér finnst að sérhver Íslendingur, og þar á ég líka við öll stéttarfélög á Íslandi, eigi að vera frjáls að því hvort hann er í félagi eða hvort hann er ekki í félagi og greiðir gjöld til viðkomandi félags. Þannig er það t.d. í Noregi. Menn hafa frelsi og val í þessum efnum. Það sérstæða við þetta mál varðandi landbúnaðinn er það eitt að þar hefur skapast nánast tvöfalt stéttarfélagakerfi í uppsiglingu. Það er annars vegar að menn eru þátttakendur í Stéttarsambandi bænda og hins vegar að þeir mynda hagsmunahópa og vilja að þeir fái skatta af hinum ýmsu búgreinum. Vafalaust eru þetta áhugamenn um þessa hluti og vafalaust vilja þessir menn fá peninga fyrir sína starfsemi. Þeir treysta sér aftur á móti ekki til að rukka þá með félagsgjöldum eins og gamla reglan var að hver gjaldkeri í félagi þurfti að gera, að rukka sína félagsmenn.

Þá komum við kannske að kjarna þessa máls. Liggur það fyrir að hinn almenni bóndi í þessu landi hafi beðið um skattlagninguna? Það er hægt að komast að slíku með skoðanakönnunum. Það er hægt að komast að slíku með því að senda út bréf og láta menn skrifa undir yfirlýsingu um hvort þeir séu hlynntir því að vera aðilar að samtökum sauðfjárbænda og skrifa undir yfirlýsingu í eitt skipti fyrir öll um að þeir samþykki að af afurðum þeirra fari ákveðinn hlutur til þessarar starfsemi. Það mundu mér finnast heiðarleg vinnubrögð. Það væri í anda félagafrelsis.

Ég vil aftur á móti minna á það, sem hér kemur fram hjá hv. 3. þm. Reykn., að hann verður að vera sjálfum sér samkvæmur í þessum efnum. Hann verður að ætla sömu leikreglurnar hvort það eru bændur, verkamenn, sjómenn eða atvinnurekendur sem eiga hlut að máli. Ég segi fyrir mig að ég er svo sannfærður um að hinn almenni bóndi og hinn almenni maður í þessu landi vill ekki þessi afskipti löggjafarvaldsins af innheimtu félagsgjalda. Hann vill félagafrelsi. Og það er spurning hvort þingið er í reynd að halda uppi með þessu móti auglýstum fjöldasamtökum sem í reynd eru e.t.v. aðeins starfsvettvangur örfárra manna þar sem þeir hafa hreiðrað um sig, e.t.v. skapað sjálfum sér atvinnu og oft og tíðum mjög takmarkað lýðræði í reynd innan þessara hagsmunahópa.

Mér er aftur á móti ljóst að þetta mál, sem hér er til umræðu út frá þessum prinsippsjónarmiðum, verður ekki afgreitt í sambandi við þessa tillögu að lagasetningu sem liggur fyrir. Þar hlýtur þingið í sjálfu sér að verða að taka eina allsherjarákvörðun: Er það verksvið alþingismanna að setja lög til að tryggja að gjaldkerar í félögum þurfi ekki að sjá um að innheimta félagsgjöld, ríkið sjái um slíka skattheimtu og rétti þeim svo pyngjuna í einu lagi? Ég tel að það sé ekki hlutverk þingsins að standa að slíku.

Ég gerði það í mínum þingflokki að ég lýsti miklum efasemdum einnig með þær upphæðir sem hér var verið að tala um. Menn verða að vara sig á því að þegar verið er að tala um brúttó af veltu er verið að tala um allt annað en þegar verið er að tala um beinan skatt í prósentu sem launþegi greiðir af sínum launum. Og þó er þetta mjög misjafnt eftir greinum. Sumar greinar gefa kannske 50% í laun. Aðrar gefa kannske ekki nema 10 eða 15% í laun. Hitt er aðeins rekstrarkostnaður. Þannig mun t.d. háttað með sumt af því sem er innan þess sem hér hefur verið rætt um.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, en ég mun sitja hjá við atkvæðagreiðslu um þetta mál á þeirri forsendu að ég tel ekki rétt að greiða atkvæði gegn því einu sér heldur að það þurfi að taka afstöðu í heild til þeirra prinsippa sem ég hef gert grein fyrir í máli mínu.