09.04.1986
Neðri deild: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3575 í B-deild Alþingistíðinda. (3255)

336. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni fyrir skilmerkilega ræðu og stuðning við mörg þeirra sjónarmiða sem ég færði hér fram.

Ég held að hann hafi lýst eftir, alla vega lýsti hv. þm. Stefán Valgeirsson eftir því, að heyra viðhorf mitt til þess kerfis sem væri í sjávarútvegi að því er það varðar sem hér um ræðir. Jú, það er kerfi í sjávarútveginum, en það er heldur betur munur á. Hér er verið að tala um skattlagningu af veltu sem er 1,25%. Í sjávarútvegi eru það 0,033%. Hér er um að ræða fertugfalda gjaldtöku miðað við það sem er í sjávárútvegi, fertugfalda miðað við þær tillögur sem hér liggja fyrir um að fara með gjaldtökuna upp í 1,25%. Þetta geta menn séð af gögnum sem verið er að dreifa á borðin þar sem kemur í ljós að það eru 0,6% af 5,5% sem gerir 0,033%. Fertugfalt er það sem menn eru að leggja til í landbúnaðinum um gjaldtökuna.

Það er nefnilega engin smáræðis velta sem hér um ræðir. Það skulu menn hafa í huga. Ætli landbúnaðarframleiðslan, þessi sem við erum með núna, þessi venjulega, sé ekki u.þ.b. 7000 milljónir á ári þannig að ef við tökum s.l. ár og notum það sem viðmiðun, hún hafi verið það á s.l. ári, sé 1 % hvorki meira né minna en 70 milljónir. Hér eru engir smápeningar á ferðinni. Síðan eru menn að tala um vöxt í nýjum búgreinum eins og t.d. fiskeldi og loðdýrarækt. Það er þá ótalið hvað þetta getur vaxið mikið þess vegna.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði að það gæti verið að ef menn stofnuðu svona landssambönd bættust við störf. Hvað er hv. þm. Stefán Valgeirsson að segja? Að það bættust við störf, að það mundi ekki fækka á hinum fyrri staðnum sem því næmi að menn færu að vinna í hinum nýju sérsamböndum. Það var rökstuðningurinn fyrir því að hér þyrfti nýjar tekjur til hinna nýju sambanda. Jú, hvað er hann að segja? Skriffinskan mun aukast. Yfirstjórnin mun aukast. Báknið, sem sumir hafa nefnt svo, mun stækka. Það eru vissulega takmörk fyrir því hvað menn eiga að láta til leiðast að ganga langt í þeim efnum.

Ég dreg ekkert í efa að landssambönd kúabænda, sauðfjárbænda og hrossabænda, sem hv. þm. upplýsti að hann væri með bréf í höndunum frá, sem hefur ekki komið fram fyrr, ekki það sem ég hef séð til, séu að ýmsu leyti ágæt samtök, en við skulum hafa verkaskiptingu, við skulum hafa aðhald, við skulum ekki beita löggjafanum til þess að margfalda skattlagningu á bændur, sem mér skilst að séu ekki allir allt of vel haldnir, heldur verður að ætla þessum samtökum að skipta með sér verkum með skynsamlegum hætti og þá innan þeirra tekjustofna sem fyrir hendi eru, og eru þeir þó mjög háir eins og þeir eru að mínum dómi, einkum og sér í lagi ef maður tekur til samanburðar t.d. sjávarútveginn sem ég var að gera grein fyrir áðan.

Auðvitað er það hárrétt, sem kom fram hjá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, að samkvæmt orðanna hljóðan yrði þetta ekki á lagt nema viðkomandi sérgreinasambönd samþykktu það eða óskuðu eftir því. En hvaða staða hefur verið uppi t.d. hjá alifuglabændum? Sú staða hefur verið uppi að hluti af greininni vill ganga inn í núverandi kerfi, hluti af greininni vill það ekki. Er hér verið að lokka til þess að annar hvor armurinn verði ofan á? Og hvor skyldi það þá vera? Að því geta menn getum leitt. Hvar liggur fyrir óskin frá svínabændum um þessa auknu skattheimtu sér til handa? Hvar liggur fyrir óskin frá þeim sem eru í loðdýrarækt? Og ég veit að það er uggur í þeim sem eru í fiskirækt ef heimild af þessu tagi verður sett inn í lögin.

Þess vegna, herra forseti, er ég sannfærður um að það á ekki að fara út í samþykkt þess frv. til laga um breytingar á lögum um Búnaðarmálasjóð sem hér hefur verið mælt fyrir. Þvert á móti á að fella frv.