09.04.1986
Neðri deild: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3578 í B-deild Alþingistíðinda. (3258)

336. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég vil bara segja það út af þeim umræðum sem hér hafa farið fram að ég held að búgreinasamböndum, ekki síst í nýjum búgreinum, sé það nauðsynlegt að hafa möguleika á því að treysta sín samtök. Í dag verður það ekki gert öðruvísi en með fjármagni.

Hv. þm. Pálmi Jónsson talaði um loðdýraræktina. Það er ekki einungis að loðdýraræktendur séu með einn mann heldur held ég að þeir séu með fjóra menn á sínum snærum. Þeir eru með innflutning á öllu sem þarf til loðdýrabúa. Þeir hafa lagt ríka áherslu á að Alþingi yrði við þessari beiðni.

En vegna þess að hv. þm. Kjartan Jóhannsson dró í efa að beiðni væri komin frá þeim samtökum vil ég lesa upp bréf sem er hér fyrir framan mig:

„Á aðalfundi Sambands ísl. loðdýraræktenda 1985 var samþykkt að vísa framkominni tillögu um heimild til töku á allt að 1% framleiðslugjaldi til athugunar stjórnar. Stjórn SÍL hefur samþykkt að óska eftir því að Alþingi lögfesti heimild til töku allt að 1% gjalds til búgreinasambanda í samræmi við tillögu í álitsgerð Tryggva Gunnarssonar um breytingu á lögum um Búnaðarmálasjóð.

F.h. Sambands ísl. loðdýraræktenda. Jón Ragnar Björnsson.“ Ég ætla ekki tímans vegna að vera að lesa upp fleiri bréf. Ég gæti gert það í þessu sambandi. En það er hlálegt, ég verð að segja það, af því að þetta er tekið af kaupi bænda, ef þeir óska eftir því og telja það ódýrari aðferð að innheimta þetta gjald með þessum hætti en að gera það beint eins og er gert víða annars staðar, að einstakir þm. leggjast mjög gegn slíkri gjaldtöku á þá sjálfa.