09.04.1986
Neðri deild: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3580 í B-deild Alþingistíðinda. (3263)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um fjáröflun til vegagerðar en sem kunnugt er var með bráðabirgðalögum, sem út voru gefin 20. sept. s.l., ákveðið að hækka þungaskatt og bensíngjald til þess að auka fjármagn til vegagerðar. Frv. var síðan lagt til staðfestingar fyrir hv. Ed. og hefur verið afgreitt frá deildinni með nokkrum breytingum sem bæði eru efnislegar og tæknilegar en lúta að því að gera uppbyggingu laganna heilsteyptari og skýrari. Hinar tæknilegu breytingar, sem gerðar hafa verið á frv., felast í stórum dráttum í því að ákvæði um þungaskattsskyld ökutæki sem nú er að finna í tveimur greinum, þ.e. í 5. og 7. gr., eru sameinuð í sérstaka grein, 5. gr., auk þess sem allur vafi er tekinn af um gjaldskyldu erlendra dísilbifreiða sé þeim ekið hérlendis. Það sama er að segja um gjalddaga skattsins eftir því í hvaða formi hann er greiddur. Ákvæði þar að lútandi er nú að finna í 8. og 10. gr. en eru nú sameinuð í sérstaka grein, 8. gr. Auk þess eru ákvæði um áætlanir skattsins, viðurlög og sektir sett í sérstaka grein en ákvæði þessi er nú að finna á víð og dreif í lögunum. Auk þess er gerð tilraun til þess að kveða skýrar á um framkvæmd einstakra atriða og færa tiltekin ákvæði milli greina þar sem þau verða talin eiga betur heima eðli sínu samkvæmt.

Að því er varðar hinar efnislegu breytingar kemur fram í 5. gr. gildandi laga að greiða skuli sama árgjald þungaskatts af öllum dísilbifreiðum sem eru léttari en 2000 kg að eigin þyngd. Í ár verður árgjaldið 46 016 kr., sbr. ákvæði bráðabirgðalaganna frá í haust þar að lútandi. Sé dísilbifreið þyngri en 2000 kg að eigin þyngd hækkar gjaldið um 2633 kr. fyrir hver byrjuð 200 kg sem þyngdin er meiri en 2000 kg. Hins vegar ber að greiða kílómetragjald af öllum dísilbifreiðum sem eru 4 tonn eða meira að heildarþyngd, sbr. 7. gr. laganna.

Sala fólksbifreiða með dísilvél hefur aukist nokkuð hér á landi sem annars staðar síðustu ár. Ber þar margt til, svo sem ör þróun þessara véla, sparneytni þeirra og síðast en ekki síst verð á gasolíu sem hefur verið lægra en á bensíni. Því er margt sem mælir með aukinni notkun léttra dísilbifreiða. Í ljósi þessa er orðið aðkallandi að leiðrétta þann mismun sem felst í að heimta hlutfallslega mun hærri skatt af hverju kg bifreiða sem eru innan við 1000 kg að eigin þyngd. Fer þessi mismunur vaxandi eftir því sem bifreiðarnar eru léttari. Hún hefur m.a. leitt til þess að léttar dísilbifreiðar eru ekki samkeppnisfærar við bensínbifreiðar nema því aðeins að þær séu mjög mikið notaðar.

Að öðru leyti felst í breytingunum að tæmandi talning er nú í 5. gr. á þeim ökutækjum sem þungaskattsskyldar eru svo og í hvaða formi skatturinn skuli innheimtur og hve hár hann sé. Loks er lagt til að í B-lið þessarar greinar verði og kveðið á um afsláttarreglur varðandi kílómetragjald en það er nú að finna í 7. gr. þeirra. Í þessu efni er gerð tillaga að breytingum á gildandi reglum. Brtt. felur í sér rýmkun á þeim afsláttarheimildum sem nú eru í gildi varðandi kílómetragjald, varðandi akstur vöruflutningabifreiða, svo sem festi- og tengivagna. Skv. gildandi reglum er veittur 10% afsláttur af kílómetragjaldi sem fellur til af akstri allra gjaldskyldra bíla á bilinu 25 000 km til 45 000 km á ári og 20% afsláttur á akstri umfram 45 000 km. Skv. breytingunum er gert ráð fyrir að heimilt verði að veita 10% afslátt af akstri vörubifreiða, svo og festi- og tengivagna á bilinu 25 000- 35 000 km á ári, 20% afslátt af akstri þessara ökutækja á bilinu 35 000- 45 000 km á ári og allt að 50% afslátt vegna aksturs umfram það. Með þessu er stefnt að því að lækka skattinn verulega af þeim ökutækjum sem ekið er nokkuð mikið umfram það sem bifreiðum er ekið að meðaltali. Má í þessu sambandi einkum nefna vöruflutningabifreiðar á langleiðum, svo og malar- og vikurflutningabifreiðar. Telja verður að tillaga þessi sé réttlætanleg með tilliti til eðlis umræddra flutninga auk þess sem hún getur haft í för með sér hvatningu til betri nýtingar ökutækjanna. Reglum þessum er ekki ætlað að ná til fólksflutningabifreiða enda gilda sérreglur um þær, sbr. 3. mgr. B-liðs 5. gr. laganna.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til þess að fara frekari orðum um efni frv. sem þegar hefur verið afgreitt frá hv. Ed. með breytingum og var upphaflega flutt til staðfestingar á bráðabirgðalögum og legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.