09.04.1986
Neðri deild: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3582 í B-deild Alþingistíðinda. (3264)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er til meðferðar gamall draugur, ef svo má að orði komast, sem orðið er nokkuð framorðið fyrir, frv. til l. um breytingu á lögum um fjáröflun til vegagerðar, sem er afleiðing af brbl. sem hæstv. ríkisstj. setti í haust til að hækka skattheimtu á bíleigendur til að afla fjár í ríkiskassann.

Þessi skattheimta er að því leyti sérstök að á sama tíma og þessir skattar eru hækkaðir dragast framkvæmdir til vegamála saman. Það liggur fyrir, m.a. í svari samgrh. við fsp. Þórðar Skúlasonar alþm. um fjárframlög til vegagerðar, að hlutfall skatta á bensíni og annarra skatta á bílaeigendur, sem renna til vegagerðar, hefur nú farið lækkandi ár frá ári í tíð þessarar hæstv. ríkisstj. Af heildarsköttum á bensíni runnu t.d. 82 og 83% til vegamála á árunum 1983 og 1984 en einungis 78% á árinu 1985 og einungis 68% skv. fjárlögum fyrir líðandi ár.

Hér er farið inn á mjög vafasama braut að mínu mati, herra forseti. Það er ekkert sem réttlætir þessa auknu skattheimtu af bifreiðum og bensíni í ljósi þess að vaxandi hlutdeild af þessum sköttum á að renna beint í ríkiskassann og framlög til vegamála dragast saman á sama tíma.

Ég vil sérstaklega gera að umtalsefni þann þátt þessarar skattheimtu sem er þungaskatturinn á stærri bifreiðar. Hæstv. fjmrh. vék að því hér að sá hluti þessa bifreiðaflota sem æki mest á hverju ári kæmi léttar út úr þessari skattheimtu eftir þessar breytingar og það kann rétt að vera. En ég vil jafnframt benda hæstv. fjmrh. á það að það er gjarnan sá hluti bílaflotans sem mest verkefni hefur og þar af leiðandi einnig mestar tekjur til að standa undir skattheimtu.

Ég held því fram, herra forseti, að skattheimtan á venjulegar 10 hjóla vörubifreiðar, sem gjarnan eru af leyfilegri hámarksþyngd, á bilinu 20-25 þús. kg, sé gengin úr öllu hófi og það sé í raun og veru enginn rekstrargrundvöllur orðinn fyrir þessar bifreiðar miðað við þá vinnu sem til fellur að öllu jöfnu.

Þegar greiddar eru frá 7-8 kr. og upp undir 10 kr. á hvern ekinn km hjá bifreið af þessari þyngd þarf orðið nokkuð til að skapa rekstrargrundvöll miðað við slíka skattheimtu. Ég held að þarna sé komið í óefni og það sé óhjákvæmilegt að endurskoða þessa fjáröflun m.a. með það í huga að færa þessa skattheimtu eitthvað til milli einstakra tegunda bifreiða og ég vil fullyrða að hún sé þarna gengin úr hófi.

Ég vil einnig koma þeirri skoðun minni á framfæri, herra forseti, að ég held að skynsamlegt væri að nota það tækifæri, sem nú er að myndast með lækkandi bensínverði, til að ná auknum framlögum til vegagerðar. Ef sú þróun heldur áfram að næstu farmar af bensíni, sem keyptir verða til landsins, fáist á ódýrara og ódýrara verði er það mín skoðun að það svigrúm ætti að nota að hluta til til að auka fjárframlög til vegamála, t.d. til að auka framkvæmdir við bundið slitlag. Ég er sannfærður um að bifreiðaeigendur mundu sætta sig með glöðu geði við slíka skiptingu þess sparnaðar sem kæmi í kjölfarið á lækkandi bensínverði.

Það er einnig nauðsynlegt að láta neytendurna, þ.e. bifreiðaeigendurna, njóta þessa. Það gera þeir nú þegar að nokkru leyti og vonandi enn þá frekar í framtíðinni. En ég teldi skynsamlegt að verja hluta af þessum sparnaði með þessum hætti.

Það er ljóst að langtímaáætlun um vegagerð er í mikilli hættu. Henni hefur þegar verið raskað og haldi svo fram sem horfir er sú framkvæmdaröð og sá framkvæmdahraði sem þar var settur niður, genginn allur úr skorðum. Ég vitna aftur í svar samgrh. við fsp. Þórðar Skúlasonar um fjárframlög til vegagerðar sem birt er á þskj. 512. Þar kemur m.a. fram hversu mikið vantar upp á að fjárveitingar yfirstandandi árs og síðustu ára séu í samræmi við það sem lagt var niður þegar langtímaáætlunin var samþykkt á sínum tíma. T.a.m. vantar á þessu ári um 710 millj. kr. til að sú áætlun standist.

Að síðustu vil ég vekja athygli á því, herra forseti, að það er nokkuð sérkennilegt að hæstv. fjmrh. þjóðarinnar skuli standa í því nú í aprílmánuði að mæla fyrir þessu frv. til staðfestingar á brbl., að vísu í síðari deild. En þar sem þetta frv. felur nú í sér aukna skattheimtu á bifreiðaeigendur, þ.e. þá sem eiga bifreiðar fyrir, þá er það í sérkennilegu samræmi við þær aðgerðir ríkisstj. frá síðustu vikum að lækka í stórum stíl álögur á hina sem ætla að kaupa sér nýjar bifreiðar.

Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því, ef hæstv. fjmrh. vill hlýða á mál mitt, hvort ekki hafi komið til skoðunar í hans ráðuneyti að gera breytingar á þessum lögum í tengslum við aðrar þær ráðstafanir sem gerðar voru í kjölfar kjarasamninganna og vörðuðu skattheimtu á bifreiðaeigendur eða lækkun á gjöldum við kaup á nýjum bifreiðum. Ég hefði talið skynsamlegt að fara að hluta til með þær ráðstafanir inn í þetta frv. og breyta því a.m.k. hvað varðar þann tíma sem eftir stendur af þessu yfirstandandi ári.

Hæstv. fjmrh. verður greinilega ekkert flökurt þó að hann standi hér aftur og aftur og mæli fyrir auknum sköttum. Hann er reyndar að verða einn mesti skattakóngur sögunnar og er það nokkuð skemmtileg söguleg staðreynd að þessi fulltrúi frjálshyggjuaflanna, sem stundum hefur verið nefndur svo, í Sjálfstfl. skuli þurfa að leggja leið sína hingað upp í þennan virðulega ræðustól aftur og aftur og mæla fyrir stórauknum álögum, stórhækkuðum sköttum. Það má ekki á milli sjá hvort hann á fremur skilið sæmdarheitið flugvallaskattakóngur, kökuskattakóngur eða bensínskattakóngur því að á öllum þessum sviðum, og fleira mætti nefna, hefur hann gengið mjög vasklega fram og vasklegar en flestir forverar hans í því að hækka þessa skatta. En það er sérstaklega ámælisvert vegna þeirrar skiptingar á sköttum á bifreiðaeigendur og sköttum á bensín, sem viðgengist hefur á undanförnum árum, að hæstv. fjmrh. skuli á tímum samdráttar í vegaframkvæmdum mæla hér sérstaklega fyrir stóraukinni skattheimtu á bensín og bifreiðaeigendur.