09.04.1986
Neðri deild: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3592 í B-deild Alþingistíðinda. (3270)

338. mál, stjórnarskipunarlög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það frv. sem er hér til umræðu er fyrir margra hluta sakir mjög athyglisvert. Það kemur fram í grg. við frv. að þeir sem hafa samið það segja að þetta séu drög að stjórnarskipunarlögum. Það verður auðvitað að skoða þetta frv. í því ljósi.

Það er staðreynd að þeir sem búa úti á landsbyggðinni telja sig hafa aðra lífsmöguleika en þá sem búa á þessu svæði. Það sýnir sig í því að það eru stöðugir fólksflutningar utan af landsbyggðinni hingað til Suðvesturlandsins. Spurningin er sú: Hvaða ráð eru til þess að koma í veg fyrir þessa flutninga? Eitt af ráðunum sem þeir hafa sem hafa samið þetta frv. er að stofna fylki og koma málefnum landsbyggðarmanna meira í eigin hendur.

Spurningin er líka sú þar sem menn vita að það eru yfir 60% af gjaldeyri sem landsbyggðin aflar: Hvernig á að koma því svo fyrir að landsbyggðin njóti þess í ríkari mæli en nú er?

Ég ætla ekki að fullyrða neitt um hvaða leiðir kunna að vera til að rétta það misvægi sem almennt er talið að sé þarna og ég held að fari ekki á milli mála. Þess vegna finnst mér það vera lofsvert að þeir sem hafa samið þetta frv. og sá sem flutti það, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, skyldu flytja þetta fyrst og fremst til þess að þessi mál séu rædd í þjóðfélaginu og ekki síst hér á hv. Alþingi. Ég fyrir mitt leyti mundi vilja leita allra úrræða til að kanna með hvaða hætti væri hægt að rétta það sem nú er. Í frv. til stjórnarskipunarlaga, sem var flutt á 105. löggjafarþingi og formenn stjórnmálaflokkanna stóðu að, stendur þetta m.a. í grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Þingflokkar Alþb., Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl., sem að frv. þessu standa, hafa auk þess orðið ásáttir um eftirfarandi:

1. að leggja fram með frv. þessu sem sérprentað fskj. skýrslu stjórnarskrárnefndar um endurskoðun stjórnarskrárinnar sem er dags. í Reykjavík 1983. Þetta er gert í því skyni að almennar umræður fari fram um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Ætti almenningi því að gefast kostur á að tjá sig um þá endurskoðun þannig að afgreiðsla nýrrar stjórnarskrár geti orðið með vönduðum hætti að lokinni rækilegri umfjöllun.

2. Að beita sér fyrir aukinni valddreifingu og virkara lýðræði samhliða afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár. M.a. fái sveitarfélög meira sjálfsforræði og þannig verði völd og áhrif landsmanna allra í eigin málum aukin, óháð búsetu þeirra.

Jafnframt munu þingflokkarnir beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til þess að jafna félagslega og efnalega aðstöðu manna þar sem mismunar vegna búsetu gætir helst.“

Hefur þetta verið gert? Bólar eitthvað á því að þetta hafi verið gert? Er ekki sú umræða sem fer nú fram úti á landsbyggðinni einmitt andsvar vegna þess að það bólar ekkert á þessu og er það ekki líka gleggst merki um þann fólksstraum sem hingað leitar?

Ég held að hv. alþm. verði að velta því fyrir sér hvernig á að bregðast við þessu. Sé eina leiðin, sem menn koma auga á, sú tilhögun sem er í þessu frv. er sjálfsagt að verða við því. Ég segi þetta ekki síst vegna þess að hv. 5. þm. Austurl. og hv. 5. þm. Reykv. þráspurðu um hver afstaða þm. Framsfl. væri í þessu máli. Ég fyrir mitt leyti er tilbúinn að ræða við aðra flokka og aðra menn hvar í flokki sem þeir standa um úrræði til að snúa þessari þróun við. Ég endurtek að ég fullyrði alls ekki að þetta sé eina úrræðið, en reynist það vera eina úrræðið verður að nota það.

Það er margt sem væri hægt að segja um þessi mál og ég verð að segja að ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar frv. sem ég var að vitna í var til umræðu. Þá fluttum við hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson brtt. sem var þannig:

„Á eftir 3. gr. komi ný grein svohljóðandi: 77. gr. orðist svo:

Skattamálum skal skipað með lögum. Við ákvörðun skatta á tekjur og eignir skal gætt jafnræðis þegnanna þannig að til lækkunar komi sérstakur kostnaður vegna búsetu eftir því sem nánar verður ákveðið í lögum.“

Þessi tillaga hlaut ekki náð fyrir augum hv. alþm. Hana hlaut bara yfirlýsingin í grg. sem hefur reynst hjóm, markleysa. Það sýnir þróunin að hún hefur reynst markleysa. Og ég verð, þó að það séu hér fáir þm. inni, að aðvara þingheim. Ef ekki verður staðið við þá yfirlýsingu sem gerð var af formönnum stjórnmálaflokkanna á 105. löggjafarsamkomunni riðlast fylkingar. Þá grípa menn til þess að reyna að ná rétti sínum eftir öðrum leiðum. Það er ljóst og það hefur verið ljóst í fleiri ár.

Sumir tala eins og það sé eitthvað nýtt að menn eru að tala um fylki og fylkjaskipan og meiri sjálfsstjórn héraðanna. Þetta er ekki nýtt. Þetta hefur gerst hvað eftir annað. Það voru einmitt þm. Framsfl. í núverandi kjördæmi Norðurlands eystra sem voru merkisberar fyrir þeim hugmyndum á þeirri tíð. En það náðist ekki nein samstaða um slíkt. (Gripið fram í: Var það Jónas?) Það var Karl Kristjánsson og það var Gísli Guðmundsson svo að ég nefni þar nöfn.

Ég ætla ekki fara að halda langa ræðu hér. Það er búið að fara nokkuð ofan í þetta frv. og skýra það af fleiri en flm. En ég endurtek að menn verða að velta því fyrir sér í alvöru hvort menn vilja og ætla sér að láta þessa þróun halda áfram. Menn verða að vera með opin augu fyrir því að yfir 60% af gjaldeyri þjóðarinnar verða til utan við þetta þéttbýlissvæði. Það kemur líka niður á þeim sem hér búa ef það verður mikil byggðaröskun. Menn verða að gera það upp við sig hvort þeir vilja taka á þessum málum með einhverjum hætti eða afleiðingarnar hljóta að verða uppstokkun í öllum stjórnmálaflokkum ef þetta næst ekki fram.

Ég treysti því að þau orð sem voru látin falla hér af hv. 5. þm. Austurl. og hv. 5. þm. Reykv. séu annað en skrum og ég fagna því að hv. þm. Gunnar Schram ræddi þessi mál af skilningi þó að hann væri kannske með einhverjar efasemdir, eins og ég er í sjálfu sér, um hvort þetta er eina leiðin til að ná því fram sem verður að nást fram ef ekki á illa að fara.

Ég vil endurtaka að mér finnst að þeir sem hafa áhyggjur af þeirri þróun sem hefur orðið verði að ræða saman um úrræði. Og það gefst tími til þess ef menn vilja.