09.04.1986
Neðri deild: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3594 í B-deild Alþingistíðinda. (3271)

338. mál, stjórnarskipunarlög

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð í tilefni af ræðu hv. 3. þm. Norðurl. e, en hann vék í sínu máli sérstaklega að fylkjaskipan og þeim tillögum sem fram koma í fyrirliggjandi frv. til nýrra stjórnskipunarlaga um skiptingu landsins upp í fimm fylki. Það er grundvallarhugsun og nýmæli í því frv., sú fylkjaskipan sem hér hefur verið til umræðu í deildinni í dag. Eins og hv. þm. Stefán Valgeirsson nefndi telja margir, án þess þó að hann hafi viljað um það fullyrða og það vil ég ekki heldur, að með fylkjaskipan verði unnt að snúa við þeirri óheillaþróun sem við höfum horft upp á síðustu árin, þ.e. fólksflóttann úr dreifbýinu til höfuðborgarsvæðisins hér við Faxaflóa. Fylkjaskipan mundi efla efnahagslegt og stjórnarfarslegt sjálfstæði landshlutanna og vera þess vegna mjög af hinu góða. Ef svo er held ég að allir sem hér eru inni mundu geta skrifað undir að þá væri slíkt stjórnskipulag landsins æskilegt og af hinu góða.

Ég vil þó ekki láta hjá líða að nefna að menn eru engu að síður mjög í vafa um þetta atriði og er ég þó síst að mæla því í mót að hér kunni að reynast lykillinn að úrbótum á þessu sviði. En við höfum nýlega rætt hér í deildinni um frv. til nýrra sveitarstjórnarlaga. Það mál á sér langa sögu og er reyndar allmikið deilumál. Á síðustu árum hafa samtök sveitarstjórnarmanna um land allt fjallað um efnisatriði þessa frv. Það er athyglisvert að samtök sveitarstjórnarmanna hafa ekki lagt til að upp yrði tekin fylkjaskipan, að upp yrði tekið þriðja stjórnsýslustigið í mynd fylkjaskipunar. Nú er þarna þó um að ræða oddvita sveitarstjórna um land allt. Sumir þeirra einstaklinga eru ugglaust miklir fylgismenn fylkjaskipunarinnar, en samkundur þeirra og þing hafa ekki ályktað um að það beri að fara þessa leið.

Ég er algerlega andvígur því að Alþingi eigi hlut að því að reyna að þröngva upp á íbúa landsins, og þó allra helst upp á íbúa dreifbýlisins, einhverri þeirri stjórnskipan eða stjórnsýslufyrirkomulagi sem fólkið í landinu, og í þessu tilviki hinum dreifðu byggðum, telur ekki æskilegt eða af hinu góða. Það er af þessum sökum sem ég set spurningarmerki við fylkisákvæðin í þessu frv. til nýrra stjórnskipunarlaga. Ég hef sjálfur talið að hér gæti verið um mjög merka og gagnlega leið að ræða og ég er enn þeirrar skoðunar að fylkjaskipan mundi efla bæði efnahagslegt og stjórnarfarslegt sjálfstæði landshlutanna. En til þess að svo verði er það grundvallarforsendan að óskir um það komi frá íbúum landsins, þ.e. íbúum hinna dreifðu byggða í þessu tilviki. Meðan sú forsenda liggur ekki fyrir held ég að Alþingi verði að fara sér mjög hægt í þeim efnum.

Umr. (atkvgr.) frestað.