05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

34. mál, hlutabréf ríkisins í Flugleiðum

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ríkið auglýsti hlutabréfaeign ríkisins í Flugleiðum til sölu, lét þau boð út ganga að verðið væri u.þ.b. nífalt nafnverð. Eftir nokkra hríð barst tilboð frá einum aðila, Birki Baldvinssyni. Skömmu síðar barst annað tilboð frá Flugleiðum sem síðar upplýstist að var nánast eins og skildi þar aðeins fáeinar krónur á milli. Það var gengið frá sölunni í snatri. Bréfin voru seld á u.þ.b. fjórföldu eða ekki yfir fjórföldu nafnverði þrátt fyrir að það hefði verið auglýst, opinberlega gert kunnugt að þau ættu að seljast á níföldu nafnverði.

Engir aðrir fengu að vita um þetta verðfall sem hefði átt sér stað á hlutabréfaeign ríkisins eða að þau væru í boði á meira en helmingi lægra verði en upplýst hafði verið og auglýst í upphafi.

Tilboð Flugleiða var svo grunsamlega líkt tilboði Birkis Baldvinssonar að grunur kom strax upp um að stjórn Flugleiða hefði borist vitneskja um tilboð hans. Þrátt fyrir þessar grunsemdir, en þær fóru ekki lágt, var gengið frá samningum.

Það gerðist enn að hæstv. samgrh. lét þess getið að hann teldi að sá aðili sem fyrr hefði boðið talaði ekki nógu vel um fyrirtækið Flugleiðir og þess vegna vildi hann ekki að honum yrði selt. Ég tel að það eigi ekki að skipta máli í samskiptum við ríkið hvaða skoðanir menn hafa og megi ekki skipta máli vegna þess að þá séu menn að nálgast skoðanakúgun.

Allt er þetta mál að mínum dómi með endemum. Framkoman er siðlaus og minnir á bananalýðveldi. Svo mikill virðist klíkuskapurinn vera.

Ég ritaði forsrh. bréf af þessu tilefni og óskaði eftir því að hann léti fara fram athugun og rannsókn á þessu máli og ýmsum þáttum þess. Á opinberum vettvangi í einu dagblaðanna má nánast segja að forsrh. hafi yppt öxlum yfir þessu. Það barst ekkert svar um það, og hefur ekki borist heldur til mín, hvort forsrh. hyggist framkvæma rannsókn. Það sem helst mátti ráða af svörum ráðherranna var að vitaskuld hefði þetta ekki lekið úr ríkisstj., ekki frá Fjárfestingarfélaginu, ekki frá neinum sem hefði af opinberri hálfu haft vitneskju um það. Þá var einungis einn aðili eftir sem hefði getað lekið því út skv. því og það var sá aðili sem fyrra tilboðinu skilaði. Sem sagt var helst að skilja að Birkir Baldvinsson hefði sagt Flugleiðum frá tilboði sínu. Ekki þykir mér þetta trúlegt eða sennilegt.

En vegna þessa máls alls hef ég borið fram fjórar til forsrh. um nokkur meginatriði þessa máls á þskj. 34.