10.04.1986
Sameinað þing: 72. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3601 í B-deild Alþingistíðinda. (3280)

395. mál, þúsund ára afmæli kristnitökunnar

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Samkvæmt till. þeirri til þál. sem hér er til umræðu er lagt til að forsetum Alþingis sé falið að vinna að athugun á því með hvaða hætti verði af hálfu Alþingis minnst þúsund ára afmælis kristnitökunnar.

Þessi till. er flutt af sérstæðu tilefni og málatilbúnaður með sérstökum hætti. Till. er flutt af forsetum Alþingis og formönnum allra þingflokka. Með þessu er lögð áhersla á að efni tillögunnar eigi að vera samkomulagsmál og hafið yfir allan ágreining milli þingflokka. Ekki orkar tvímælis að tilefnið er sérstætt. Ber þar hvort tveggja til gildi kristinnar trúar og hvernig kristnitökuna bar að.

Við sjáum fyrir okkur atburðarásina á Alþingi á kristnitökuárinu. Heiðnir og kristnir menn sögðu sig úr lögum hvorir við aðra. Menn vígbjuggust og við lá að fylkingum lysti saman. Minni hlutinn bauð meiri hlutanum birginn. Kristnir menn kusu sér lögsögumann. Þá skeður það sem er með ólíkindum. Lögsögumaður þeirra, friðsemdarmaðurinn Síðu-Hallur, fær hlutverk sitt í hendur lögsögumanni þingsins, Þorgeiri Ljósvetningagoða. Leiðtoga heiðinna manna er ætlað að segja upp lög kristinna manna. Og enn gerast meiri undur. Leiðtogi heiðinna manna segir upp þau lög að allir skuli einn sið hafa, allir skuli kristnir vera og allir játtu því.

Alþingi tekur stjórnmálaákvarðanir. Svo var þegar kristnin var lögtekin. Þorgeiri Ljósvetningagoða er eining ríkisins ofar öllu: „Það mun verða satt, er vér slítum sundur lögin, at vér munum slíta ok friðinn.“

Hlutverk Alþingis er að standa vörð um einingu þjóðar. Sameinaðir sigrum við, sundraðir föllum við. Þorgeir Ljósvetningagoði sá til þess að Alþingi brygðist ekki skyldu sinni á örlagastund. Forusta hans og fordæmi verður Alþingi leiðarljós um framtíð alla.

Gildi kristinnar trúar er hið sama hvernig sem boðskap hennar ber að. Í því efni breyta atburðirnir á Alþingi árið 1000 engu um. Íslendingar hefðu undir öllum kringumstæðum tekið kristna trú og látið af hinum forna sið svo sem aðrar þjóðir í okkar heimshluta gerðu. Hins vegar verður aldrei ofmetin þýðing þess hvernig kristnitöku Íslendinga bar að. Aðrar þjóðir þurftu að þola blóðsúthellingar, bræðravíg og ófrið áður en hinn forni siður þokaði fyrir fagnaðarboðskap kristinnar trúar. Íslendingar leystu málið með þjóðarsátt.

Margt er óljóst um atburði kristnitökunnar og sífellt rannsóknarefni fræðimanna. Margar spurningar vakna. Hve mikil voru kristin áhrif orðin? Hve mikil brögð voru að því að innviðir hins forna átrúnaðar væru að gefa sig? Gerðu hinar andstæðu fylkingar beint samkomulag um lausn málsins? Og ekki síst hafa fræðimönnum verið hugleiknar vangaveltur um þýðingu þess að leggjast undir feldinn. Tók Þorgeir Ljósvetningagoði ákvörðun sína undir feldinum eða var hann að semja ræðu sína um ákvörðun sem áður hafði verið tekin? En hvað sem slíkum og þvílíkum spurningum líður eru aðalatriði kristnitökunnar ljós. Svo er fyrir að þakka Ara hinum fróða.

Atburðarásin á Alþingi við Öxará er vörðuð undrum og stórmerkjum. Svo er forsjóninni fyrir að þakka. Svo var stjórnvisku fyrir að fara að ekki má einungis nú vera til fyrirmyndar okkur Íslendingum heldur öllum þjóðum til friðsamlegrar lausnar á vandamálum mannlegra samskipta. Slíkir eru þeir atburðir sem minnast verður að maklegheitum.

Kirkja landsins hlýtur að minnast kristnitökunnar. Þjóðkirkjan hefur þegar látið málið til sín taka. Samkvæmt ákvörðun kirkjuþings 1984 tilnefndi kirkjuráð snemma árs 1985 nefnd þriggja manna, svonefnda kristnitökunefnd. Nefnd þessa skipa herra Pétur Sigurgeirsson biskup Íslands, og er hann formaður nefndarinnar, séra Heimir Steinsson, sóknarprestur og þjóðgarðsvörður, og séra Jónas Gíslason dósent. Nefnd þessi skal gera tillögur um það hversu haga beri athöfnum þeim og framkvæmdum sem efnt verður til af kirkjunnar hálfu vegna þúsund ára afmælis kristnitökunnar á Þingvöllum við Öxará.

Kristnitökunefnd þjóðkirkjunnar hefur þegar unnið gott starf. Þar hafa komið fram margháttaðar hugmyndir um athafnir og framkvæmdir af hálfu kirkjunnar í tilefni af þúsund ára afmæli kristnitökunnar. Miða þessar hugmyndir mjög að trúarlegri vakningu í landinu. Þessar hugmyndir voru ræddar á kirkjuþingi s.l. haust og skulu ekki gerðar að umræðuefni hér.

Við þinglausnir í júní s.l. vék forseti Sþ. að kristnitökuafmælinu. Var þess þá getið að forsetar þingsins myndu taka til athugunar með hverjum hætti mætti af hálfu Alþingis minnast þúsund ára afmælis kristnitökunnar. Var þá gert ráð fyrir að forsetar hefðu samráð við ríkisstjórn og Þingvallanefnd um málið og samvinnu við þjóðkirkjuna.

Síðan hafa forsetar Alþingis hugað að því með hvaða hætti Alþingi megi fyrir sitt leyti minnast kristnitökunnar. Hafa þeir m.a. tekið upp sameiginlega viðræðufundi með kristnitökunefnd þjóðkirkjunnar um kristnitökuafmælið.

Eins og þjóðkirkjan mun minnast kristnitökunnar með sínum hætti, svo hlýtur Alþingi að minnast þessa atburðar á sinn hátt. Kirkjan mun nota þetta tilefni til trúarvakningar og eflingar kristni í landinu. Hver verður þá hlutur Alþingis? Hvernig ætlar Alþingi að nota tilefni þessa merkisafmælis? Hafa ber í huga að ekki er aðalatriðið að halda hátíð í tilefni afmælisins, heldur nota afmælið sem tilefni til varanlegra framkvæmda. Því er spurt.

Einkum hefur komið til tals að Alþingi noti tilefni þúsund ára afmælis kristnitökunnar til ráðstafana og framkvæmda sem efla mættu tengsl þess við hinn forna þingstað. Slíkt mætti í senn treysta Alþingi í þjóðarvitund og auka á reisn þess.

Þá hefur m.a. komið fram sú hugmynd að reist verði á Þingvöllum hús Alþingis. Þar væri þingsalur þar sem halda mætti hátíðafundi í Alþingi þegar sérstök tilefni væru til. Mætti hugsa sér að þingsetning og þinglausnir færu þar að jafnaði fram. Í byggingu þessari væru húsakynni til guðsþjónustuhalds. Þannig yrðu á ný Alþingi og kirkjan samofin á Þingvöllum svo sem áður var í 800 ár. Þar væri hús sem hæfði Alþingi, sögu og náttúru Þingvalla við Öxará, arfleifð Íslendinga og þjóðmenningu. Margs þarf að gæta áður en Alþingi ákveður, hvort slíkt hús skuli reisa, hvar það skuli standa, hverrar gerðar það skuli vera og hverju hlutverki það skuli gegna.

Tími ákvarðana er ekki enn kominn. Till. þessi til þál. felur ekki í sér ákvarðanir um aðgerðir eða framkvæmdir vegna þúsund ára afmælis kristnitökunnar. Till. er efnislega um það að Alþingi sé samþykkt að forsetar þess haldi áfram athugunum sínum og viðræðum um kristnitökuafmæli. Er þá gert ráð fyrir að forsetar hafi samráð við ríkisstjórn, þingflokka og Þingvallanefnd um það er málið varðar.

Jafnframt er þessi þáltill. flutt til að leggja áherslu á að Alþingi hafi mikilvægu hlutverki að gegna og megi ekki láta sinn hlut eftir liggja þegar minnst verður merkustu löggjafar þess. Til framkvæmda kemur hins vegar ekki fyrr en málið er af athugunarstigi og Alþingi hefur ákveðið hvað gera skuli af þess hálfu í tilefni þúsund ára afmælis kristnitökunnar.

Þó að Alþingi og þjóðkirkjan noti tilefni þúsund ára afmælis kristnitökunnar sitt með hvorum hætti hljóta þessir aðilar að standa saman að margs konar undirbúningi að sameiginlegum hátíðahöldum á kristnitökuafmælinu. Við gerum ráð fyrir að þjóðhátíð verði árið 2000.

Flutningsmenn þessarar þáltill., forsetar og formenn þingflokka, leggja sérstaka áherslu á mikilvægi þess að full samstaða megi vera á Alþingi um það er varðar þúsund ára afmæli kristnitökunnar. Tillaga þessi til þál. er til komin og undirbúin með það í huga. Með tilliti til þess er ekki lagt til að tillagan gangi til nefndar að umræðu þessari lokinni.