10.04.1986
Sameinað þing: 72. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3603 í B-deild Alþingistíðinda. (3282)

77. mál, framleiðni íslenskra atvinnuvega

Frsm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Atvmn. Sþ. hefur fjallað um þessa tillögu og fengið umsagnir ýmissa aðila um hana. Eins og fram kemur í nál. eru það Fjárlaga- og hagsýslustofnun, fjmrn., Þjóðhagsstofnun, Rannsóknaráð ríkisins, Iðntæknistofnun Íslands og Alþýðusamband Íslands. Þá hefur nefndin sérstaklega leitað eftir upplýsingum frá iðnrn. um hvernig standi svokallað framleiðniátak 1985-1986 sem það ráðuneyti beitti sér fyrir. Ég tel rétt að greina frá því hverjar upplýsingar ráðuneytisins eru um þetta en þær koma fram í sérstöku minnisblaði til nefndarinnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Haustið 1985 fór af stað svokallað framleiðniátak sem á að standa í tvö ár. Er þetta samstarfsverkefni iðnrn., Iðntæknistofnunar Íslands, Félags ísl. iðnrekenda, Alþýðusambands Íslands, Landssambands iðnverkafólks og Landssambands iðnaðarmanna. Mynduð var óformlega yfirstjórn þessa verkefnis með fulltrúum frá áðurnefndum aðilum. Iðntæknistofnun Íslands sér um framkvæmd verkefnisins. Tilgangur aukinnar framleiðni er að auka kaupmátt launa og bæta lífskjör á Íslandi með samstarfi starfsmanna, stjórnenda og almennra neytenda. Auka markað íslenskra afurða og skapa ný störf. Auka verðmæti íslenskrar framleiðslu, nýta á sem bestan hátt auðlindir þjóðarinnar, þ.e. þekkingu, mannafla, vélar og fjárfestingu til þess að lækka framleiðslukostnað.

Markmiðið með þessu átaki er að ná til almennings og iðnfyrirtækja þannig að þessir aðilar verði betur meðvitaðir hvað framleiðni er og hvaða tilgangi aukin framleiðni hefur til hagsældar og betri lífskjara í þessu landi. Aðalþættir í þessu átaki eru:

Námskeið sem tekur um 18 mánuði og nær aðallega til smárra og meðalstórra fyrirtækja. Námskeiðið verður haldið með fyrirmynd erlendis frá en það hefur verið haldið í nokkrum löndum.

Alþjóðlegur samanburður á framleiðni. Borin verður saman framleiðni vinnuafls í hinum ýmsu atvinnugreinum í löndum í Evrópu, Ameríku og Asíu fyrir tímabilið 1973-1985 eða eins og gögn gefa tilefni til. Stuðst verður við sambærilegar framleiðnimælingar erlendis frá. Niðurstöður þessara mælinga verða gefnar út.

Skólaverkefni. Framkvæmd þessa verkefnis er þannig að grunnskólanemendum í 9. bekk verður gerð grein fyrir gildi framleiðni í nútíma þjóðfélagi. Skýrð verður þróun atvinnumála á Íslandi og fleira.

Alþjóðleg ráðstefna um framleiðni í fyrirtækjum var haldin 27. sept. að Hótel Sögu. Fluttu þar erindi átta sérfræðingar frá sjö löndum, þar á meðal Japan og Bandaríkjunum.

Námsstefnur í tengslum við einstakar atvinnugreinar og annað sem tilkynnt verður um síðar.

Fjárveiting sú sem framleiðniátakið hefur fengið er eftirfarandi samkvæmt fjárlögum: 1985 5 millj. kr., 1986 5 millj. kr.“

Þetta var tilvitnun í minnisblað iðnrn. Nefndin er sammála því meginefni till. að æskilegt sé að auka framleiðni íslenskra atvinnuvega í samvinnu ríkisvaldsins og heildarsamtaka vinnumarkaðarins. En af þeim upplýsingum sem hér hefur verið getið um má Ijóst vera að verkefni því sem till. fjallar um hefur verið markaður ákveðinn farvegur í stjórnkerfinu og í trausti þess að ríkisstj. vinni áfram að þessu mikilvæga verkefni, að auka framleiðni íslenskra atvinnuvega í samvinnu við heildarsamtök vinnumarkaðarins, leggur nefndin til að till. verði vísað til ríkisstj.