05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

34. mál, hlutabréf ríkisins í Flugleiðum

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. 1. liður í fsp. hv. þm. hljóðar svo:

„Telur forsrh. að það samrýmist eðlilegum viðskiptaháttum af hálfu ríkisins að láta þau boð út ganga að hlutabréfaeign ríkisins í Flugleiðum sé til sölu á u.þ.b. níföldu nafnverði en ganga síðan frá sölu bréfanna á mun lægra verði án þess að gera opinbert að fallið hafi verið frá fyrri verðhugmyndum?"

Út af fyrir sig liggur ekkert fyrir um að fyrrverandi fjmrh. hafi fallið frá sínum fyrri verðhugmyndum. Bréf að nafnverði 4 436 640 kr. voru seld á 48 360 000 kr., sem er reyndar töluvert meira en nífalt nafnverð. Útborgun var 22,5%, en 77,5% voru lánuð til átta ára verðbóta- og vaxtalaust.

Í spurningunni felst einmitt gagnrýni á að selt er verðbótalaust. Ég vil taka það fram að ég hefði af ýmsum ástæðum talið eðlilegra eins og viðskipti eru nú að selt hefði verið með verðbótum og þá frekar að vextirnir hefðu legið á milli hluta, en þó verður að taka fram að það er algerlega undir þróun verðlags á næstu árum komið hvort verðhugmynd fyrrverandi fjmrh. um nífalt verð stenst eða stenst ekki. Má kannske vekja athygli á því að fáir eru í betri stöðu til að hafa áhrif á þetta en einmitt fjmrh. Þannig verður ekki fullyrt nú að þessi bréf séu ekki á u.þ.b. níföldu nafnverði.

Í öðru lagi er spurt: „Telur forsrh. að það fái staðist eða samrýmist eðlilegum viðskiptaháttum af hálfu ríkisins að ganga frá sölu hlutabréfaeignar ríkisins til Flugleiða eins og gert var þegar réttmætur grunur var uppi um að Flugleiðum hefði borist vitneskja frá aðilum innan stjórnkerfis ríkisins um fyrirliggjandi tilboð annars aðila?"

Engar upplýsingar liggja fyrir um það hvaðan Flugleiðum hf. hafa borist fregnir um tilboð annarra aðila. Það hefur, og ég hef athugað það mál allítarlega, ekkert komið fram sem sannfærir mig um að þessi vitneskja hafi borist úr fjmrn. eða frá ríkisstj. T.d. veit ég að Flugleiðir höfðu einhverja vitneskju um þetta tilboð áður en það var kynnt á fundi ríkisstj. svo að ég efast mjög um að eitthvað hafi kvisast út frá þeim fundi. En ég get ekki neitað því að einhvers staðar frá virðast hafa borist upplýsingar um þetta tilboð. Ég vil taka það fram að þegar um slík tilboð er að ræða er vitanlega eðlilegast að þau séu opnuð á einum og sama stað og á sömu stundu. Hins vegar er þess að gæta að áður hafði verið leitað tilboða í bréfin og þá barst aðeins eitt tilboð, frá starfsmönnunum, í kaup á bréfunum á nafnverði.

Í þriðja lagi er spurt: „Hversu stór fjárhæð nettó mun renna til ríkisins af sölu nefndra hlutabréfa að teknu tilliti til skattalækkunar hjá nýjum eigendum bréfanna skv. hugmyndum Flugleiða um endursölu þeirra?"

Það er alveg ljóst að bréfin seld til einstaklinga leiða til skattafrádráttar skv. gildandi lögum. Það hefði farið svo ef einstaklingar hefðu keypt bréfin beint af Fjárfestingarfélaginu eins og boðið var. Að sjálfsögðu hefði það einnig leitt til skattalækkunar. Munurinn er því enginn að þessu leyti hvort sem þau fara um hendur Flugleiðamanna fyrst og síðan til einstaklinga. Í því verði sem sett var á bréfin þegar þau voru til sölu hjá Fjárfestingarfélaginu fyrir einstaklinga var að sjálfsögðu gert ráð fyrir að ríkissjóður yrði af þeim tekjum sem skattafrádráttur hefði í för með sér.

Hins vegar er útilokað á þessari stundu að svara þessari spurningu nákvæmlega því að ekki er vitað t.d. hvað þessir einstaklingar hafa keypt af öðrum hlutabréfum. Eins og hv. þm. að sjálfsögðu veit er heildarupphæð sem naut skattaívilnunar hjá einstaklingum á síðasta ári 25 000 kr. Þarna verður alveg tvímælalaust einhver frádráttur sem kemur frá ríkinu, en á þessari stundu er ekki unnt að reikna út hve hann verður mikill.

Í fjórða lagi: „Hvenær hyggst forsrh. taka afstöðu til rannsóknar á vinnubrögðum við sölu ofangreindra hlutabréfa ríkisins í Flugleiðum, sbr. erindi fyrirspyrjanda í bréfi til ráðherra dags. 28. ágúst s.l.?"

Þetta bréf var að sjálfsögðu sent fyrrverandi fjmrh. til umsagnar. Hann hefur svarað því og hefur ekkert við það að athuga að slík rannsókn fari fram. Í framhaldi af því bréfi kynnti ég mér þessi mál eins og ég frekast gat með viðræðum við menn og hef þegar greint frá því í mínu svari að ég hef ekki ástæðu til að ætla að upplýsingar hafi borist út af ríkisstjórnarfundi um þetta tilboð. Ég hef hins vegar ástæðu til að ætla að það hafi ýmsir fleiri vitað um þetta tilboð en ráðherrar í ríkisstjórninni. Ég ákvað að svara þessu bréfi í fsp. eins og ég geri núna. Ég sé af þessum ástæðum ekki ástæðu til að ég láti fara fram opinbera rannsókn á þessu máli.