10.04.1986
Sameinað þing: 72. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3609 í B-deild Alþingistíðinda. (3292)

410. mál, kaupleiguíbúðir

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till, til þál. á þskj. 759 um kaupleiguíbúðir. Till. þessi felur í sér að mörkuð verði ný stefna í húsnæðismálum sem tryggi fleiri valkosti en nú eru á húsnæðismarkaðnum um leið og fólki yrði gert mögulegt að eignast húsnæði án óbærilegrar greiðslubyrði.

Þau verkefni, sem fyrst og fremst þarfnast tafarlausra úrlausna í húsnæðismálum, eru í fyrsta lagi að ná pólitískri samstöðu um að rétta hlut þeirra sem byggðu eftir 1980 og eru að kikna undan oki mikillar greiðslubyrði og fjárhagserfiðleika sökum misgengis launa og lánskjara á umliðnum árum.

Hér er um svo mikið vandamál að ræða að undan því verður ekki vikist að jafna húsnæðiskostnað þessa fólks. Um það hafa þingmenn Alþýðuflokksins lagt fram till. á þskj. 787 en sú till. felur í sér að létta skuldabyrði þeirra sem harðast hafa orðið úti vegna íbúðaröflunar á s.l. árum.

Í annan stað þarf að marka nýja stefnu í húsnæðismálum, stefnu sem gerir fólki kleift að koma sér upp þaki yfir höfuðið án vinnuþrældóms og án þess að eiga það á hættu að missa eigur sínar á örskömmum tíma vegna þess að það er knúið nauðugt viljugt út í skuldabasl sem það ræður ekki við af því að húsnæðismarkaðurinn hefur ekki upp á annað að bjóða og lánskjörin eru velflestum launþegum ofviða. M.ö.o. það þarf að gefa fólki meira val í húsnæðismálum eftir efnum og ástæðum og að fólk þurfi ekki að eyða bestu árum ævi sinnar í vinnuþrældóm myrkranna á milli til að eignast húsaskjól. Út á það gengur sú till. sem ég hér mæli fyrir um kaupleiguíbúðir, að tryggja að fólk hafi fleiri kosti um að velja í húsnæðismálum og geti valið sér leigu- eða eignarfyrirkomulag á hóflegum kjörum.

Í till. er gert ráð fyrir að félmrh. hefji undirbúning að löggjöf sem opni fyrir lánveitingar úr byggingarsjóðunum til kaupleiguíbúða. Í annan stað er í till. gert ráð fyrir að félmrh. leiti samráðs við sveitarfélög og/eða félagasamtök um að hrinda í framkvæmd tíu ára framkvæmdaáætlun um byggingu eða kaup 6000 kaupleiguíbúða á næstu tíu árum.

Í tillgr. sjálfri er síðan útfært ítarlega fyrirkomulag kaupleiguíbúða. Gert er ráð fyrir að Byggingarsjóður verkamanna láni 80% af byggingarkostnaði íbúða sem ætlaðar eru láglaunafólki eða öðrum sem af félagslegum ástæðum þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun. Lánin verði til 40 ára og beri 1% vexti. Gert er ráð fyrir að lánveitingar þessar verði til viðbótar lánum sem nú er veitt til félagslegra íbúða úr Byggingarsjóði verkamanna.

Á undanförnum árum hafa þær félagslegu íbúðir, sem í boði eru, hvergi nærri fullnægt þörfinni. Leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga eru mjög fáar. Frá 1980 til 1. apríl 1986 hafa eingöngu verið byggðar 68 leiguíbúðir, þar af ein á s.l. ári. Á árunum 1982-1985 hafa einnig verið veitt tiltölulega fá framkvæmdalán vegna verkamannabústaðaíbúða eða 304 á árinu 1982, 158 á árinu 1983, 175 á árinu 1984 og 176 á árinu 1985. Nauðsynlegt er því að þær íbúðir, sem byggðar eru eða keyptar samkvæmt því kaupleigufyrirkomulagi sem hér er gert ráð fyrir, komi til viðbótar lánveitingum sem þegar renna úr Byggingarsjóði verkamanna.

Í annan stað er gert ráð fyrir í till. að Byggingarsjóður ríkisins láni 80% af byggingarkostnaði kaupleiguíbúða til 40 ára og beri lánin 3,5% vexti. Ekki er gert ráð fyrir að lán úr Byggingarsjóði ríkisins vegna kaupleiguíbúða komi til viðbótar almennum lánveifingum sem þegar renna úr Byggingarsjóði ríkisins, heldur mundi almennum lánveitingum fækka í hlutfalli við byggingu kaupleiguíbúða sem lánað væri til úr Byggingarsjóði ríkisins.

Hér er því fyrst og fremst um að ræða að því er lánveitingar úr Byggingarsjóði ríkisins varðar að um fleiri valkosti verður að velja í húsnæðismálum á almenna húsnæðismarkaðnum, t.a.m. opnaðist þar með möguleiki á leiguíbúðum fyrir fleiri hópa í þjóðfélaginu sem ekki hafa aðgang að þeim lánamöguleikum sem í boði eru úr Byggingarsjóði verkamanna. En eins og fram kemur í grg. með till. er gert ráð fyrir hærra leigugjaldi til þeirra þar sem lán veitt til kaupleiguíbúða úr Byggingarsjóði ríkisins bera 3,5% vexti en úr Byggingarsjóði verkamanna 1% vexti. Mismunurinn á leigugjaldi skýrist því af meiri fjármagnskostnaði vegna byggingar leiguíbúða fyrir fólk á almennum markaði. Að auki opnuðust möguleikar fyrir fólk sem ekki hefur aðgang að lánveitingum úr Byggingarsjóði verkamanna að eignast íbúð með kaupleigufyrirkomulagi, sem þýðir að ekki þarf að reiða fram óviðráðanlega útborgun í byrjun gegnum t.a.m. skammtímalán úr bankakerfinu, heldur er eingöngu um fastar mánaðargreiðslur að ræða.

Hlutur framkvæmdaaðila, sem geta verið sveitarfélög, félagasamtök, launþegasamtök eða lífeyrissjóðir, yrði 20% af byggingarkostnaði kaupleiguíbúða. Þessi 20% hlutdeild framkvæmdaaðila endurgreiðist síðan í formi viðbótargjalds við leigugjald hjá þeim sem kjósa að eignast kaupleiguíbúð. Samningar um kaup leigjenda á íbúð og greiðslu viðbótargjalds verði bindandi nema hvað aðilar geta komið sér saman um að lengja eða stytta greiðslutímann. Heimilt er þó í undantekningartilfellum, ef aðstæður leigjenda breytast í veigamiklum atriðum, að láta kaupin ganga til baka. Leigjandi á þá tilkall til endurgreiðslu þess viðbótargjalds sem hann hefur innt af hendi ásamt verðbótum og vöxtum.

Sá sem kýs að eignast kaupleiguíbúð á þann valkost að eignast íbúðina á allt að 30 árum. Hversu há greiðsla viðbótargjalds verður ræðst af því hvað viðkomandi kýs langan greiðslutíma til að greiða 20% hlut framkvæmdaaðila í byggingarkostnaði en greiðslutíminn getur staðið í allt að 30 ár. Þegar að fullu er uppgert við framkvæmdaaðilann fær viðkomandi afsal fyrir íbúðinni og yfirtekur áhvílandi lán við byggingarsjóðina.

Í till. er gert ráð fyrir að heimilt sé að ráðstafa fjögur fyrstu árin tilteknum fjölda íbúða á hverju ári til þeirra sem byggðu eða keyptu húsnæði eftir 1980 og að mati ráðgjafarþjónustu Húsnæðisstofnunar geta ekki haldið húsnæði sínu vegna mikilla greiðsluerfiðleika.

Í 7. tölul. till. kemur fram að sveitarfélag teljist eigandi íbúðar og ráðstafi henni. Framkvæmdaaðilar með ráðstöfunarrétt á íbúðum geta einnig verið launþegasamtök, lífeyrissjóðir eða félagasamtök eða að framkvæmdin verði á hendi sveitarfélags og slíkra aðila sameiginlega.

Herra forseti. Ég tel mig hafa lýst því hér að kostirnir við kaupleiguíbúðirnar eru mjög miklir. Nýir möguleikar skapast í greiðslukjörum og menn fá jafnframt að velja sér eignar- eða leigufyrirkomulag í húsnæðismálum. Auðvelt á að vera að gera fólki kleift að flytja með sér áunnin réttindi. Með því móti er fólki auðveldað bæði að stækka og minnka við sig íbúðir svo og flytjast milli sveitarfélaga ef það svo kýs.

Í grg. með till. kemur fram að hér er um hagstæð og viðráðanleg kjör að ræða en í töflu á bls. 3 í grg. kemur fram greiðslubyrði leigjenda og kaupenda. Þar er tekið dæmi um íbúðarverð, 2,3 millj., og þá miðað við 100 m2 íbúð í sambýlishúsi. Ætla verður að mánaðarlegar greiðslur vegna íbúða sem fjármagnaðar eru með lánveitingum úr Byggingarsjóði verkamanna og ætlaðar eru láglaunafólki eða öðrum sem af félagslegum ástæðum þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun séu flestum viðráðanlegar.

Ef kosið er leigufyrirkomulag er mánaðarleg húsaleiga 4670 kr. að viðbættum hæfilegum kostnaði vegna sameiginlegs viðhalds. Ef kosin eru kaup á íbúðinni bætist við svokölluð B-leiga eða viðbótargjald sem er frá 2084 kr. á mánuði í 4909 kr., allt eftir því hvað viðkomandi kýs að eignast hlut sveitarfélagsins eða framkvæmdaaðilans á löngum tíma en eins og áður sagði hefur hann valkosti um greiðslutíma í allt að 30 ár.

Kostirnir við kaupleigufyrirkomulagið eru að engin útborgun á sér stað heldur fastar mánaðarlegar greiðslur sem eru vegna kaupa frá 6754 kr. í 9578 kr., allt eftir lengd greiðslutímans sem valinn er til að greiða niður hlut framkvæmdaaðilans í byggingarkostnaði.

Einnig er í grg. tekið dæmi af kaupleiguíbúðum, fjármögnuðum úr Byggingarsjóði ríkisins. Mánaðarlegar greiðslur vegna leiguíbúða á almennum markaði yrðu því 7180 kr. á mánuði auk greiðslu sameiginlegs viðhaldskostnaðar. Viðbótargjald vegna kaupa á íbúð, fjármagnaðri með kjörum úr Byggingarsjóði ríkisins, yrði það sama og viðbótargjald vegna kaupa á íbúð, fjármagnaðri úr Byggingarsjóði verkamanna, sem skýrist af því að endurgreiðsla á hlut framkvæmdaaðilans ber sömu vexti hvort sem um er að ræða kaupleiguíbúð í félagslega kerfinu eða á almenna markaðinum.

En hver yrðu framlög sveitarfélaganna eða framkvæmdaaðila miðað við að byggðar verði eða keyptar 600 íbúðir á hverju ári í tíu ár með kaupleigufyrirkomulagi? Ég tel að sú fjárhæð þurfi ekki að vera ofviða sveitarfélögunum, a.m.k. ekki þeim stærri, sé rétt að málum staðið. Ef sveitarfélögin yrðu eingöngu framkvæmdaaðilar yrði árlegt framlag þeirra 276 millj. kr. Gera verður ráð fyrir að sveitarfélögin leiti samvinnu við t.a.m. launþegafélög á staðnum um byggingu slíkra íbúða. Ef svo verður minnkar hlutur sveitarfélagsins sem hlut samstarfsaðilans nemur.

Að auki verður að gera ráð fyrir að miðað við þau hagstæðu kjör, sem þetta kaupleigufyrirkomulag býður upp á, kysi stór hluti fólks kaup á slíkum íbúðum. Sveitarfélögin mundu því jafnt og þétt fá inn endurgreiðslur í formi viðbótarleigugjalds sem gerði þeim kleift að fjármagna þær kaupleiguíbúðir sem tíu ára framkvæmdaáætlunin gerir ráð fyrir í þessari till.

Að auki er bent á í grg. að nýgerðir kjarasamningar hafi gjörbreytt fjárhagsáætlunum sveitarstjórna sem voru miðaðar við 36% verðbólgu en nýgerðir kjarasamningar miða hins vegar við 7-8% verðbólgu. Þetta þýðir að sveitarfélögin muni fá verulegar tekjur að raungildi umfram gjöld, jafnvel þó útsvarsálagningin lækki úr 10,8% í 10,2%.

Að því er fjármagn til byggingarsjóðanna varðar vegna kaupleiguíbúða verður að ætla að hér sé um raunhæfa áætlun að ræða. Að vísu er erfitt að gera sér grein fyrir hve margar íbúðir verði fjármagnaðar úr Byggingarsjóði verkamanna og hve margar úr Byggingarsjóði ríkisins. En ef við gefum okkur að 600 íbúðir á hverju ári skiptist jafnt á milli sjóðanna yrði heildarframlag vegna byggingar 600 íbúða um 552 millj. á hverju ári þar sem ekki er gert ráð fyrir að íbúðir, fjármagnaðar úr Byggingarsjóði ríkisins, komi til viðbótar almennum lánveitingum sem fyrir eru úr Byggingarsjóði ríkisins.

Herra forseti. Ég treysti því að hv. þm. íhugi þennan valkost í húsnæðismálum, sem ég hef hér mælt fyrir, af fullri alvöru því að ég er sannfærð um að skapist breið pólitísk samstaða um þessa lausn gæti það gjörbreytt því ástandi sem við nú búum við í húsnæðismálum.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði till. vísað til hv. félmn.