10.04.1986
Sameinað þing: 72. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3615 í B-deild Alþingistíðinda. (3295)

410. mál, kaupleiguíbúðir

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég vil svara þeim spurningum sem hv. 3. þm. Reykv. hefur hér til mín beint. Mér finnst gæta nokkurs misskilnings í orðum hans að því er varðar efni þessarar till. Mér fannst koma fram í hans máli að að því er varðar almennar lánveitingar úr Byggingarsjóði ríkisins gerði þessi till. ráð fyrir niðurskurði á fjölda lánveitinga veittum úr Byggingarsjóði ríkisins. Þetta er alrangt. Það sem lagt er til með þessari till. er að opnað verði fyrir kaupleigufyrirkomulagið jafnt gegnum félagslegar íbúðarbyggingar, fjármagnaðar úr Byggingarsjóði verkamanna, og gegnum fjármögnun úr Byggingarsjóði ríkisins að því er Byggingarsjóð ríkisins varðar þá er gert ráð fyrir að lánveitingum, sem þegar er veitt til, fækki ekki í heildina. Ef við gerum ráð fyrir að um sé að ræða 1600 lánveitingar úr Byggingarsjóði ríkisins á hverju ári en með þessu nýja fyrirkomulagi yrðu byggðar 200 íbúðir með kaupleigufyrirkomulagi, fjármagnaðar úr Byggingarsjóði ríkisins, þá mundu þær dragast frá heildinni en heildarfjöldinn mundi ekki minnka.

Það sem hér er verið að gera er að opna fyrir fleiri valkosti í almenna kerfinu en nú er, þannig að fólk, sem fær lán úr Byggingarsjóði ríkisins, geti valið um þá lánakosti sem eru til staðar í dag eða gengið inn í kaupleigufyrirkomulagið. Hér er því alls ekki verið að fækka lánveitingum í almenna kerfinu, hér er verið fyrst og fremst að auka valkosti.

Auk þess sem verið er að auka valkosti í félagslegum íbúðarbyggingum er lagt til að staðið verði við þau fyrirheit sem eru í húsnæðislöggjöfinni en ekki hefur verið staðið við á undanförnum árum. Hér hef ég sýnt fram á það í grg. að 1982-1985 hefur ekki verið staðið við að byggja 1/3 af íbúðaþörf gegnum félagslega kerfið. Hér er einmitt verið að leggja til leið til þess að við það verði staðið og að þessar kaupleiguíbúðir komi til viðbótar lánum sem nú eru veitt úr Byggingarsjóði verkamanna.

Ég held því að með því fyrirkomulagi sem hér er lagt til sé ekki verið að breyta í neinu þeim markmiðum sem menn hafa sett sér í húsnæðislöggjöfinni, þ.e. að 1/3 sé byggður á félagslegum grundvelli og 2/3 í einkaeign. Menn hafa þarna valkosti, þeir geta gegnum almenna kerfið kosið sér leiguíbúðir eða íbúðir með kaupleigufyrirkomulagi. Kaupleiguíbúðir hafa þann kost fram yfir verkamannabústaðakerfið að fólk þarf ekki að reiða fram 20% framlag sjálft eins og það hefur þurft að gera hingað til, sem eru 460 þús. kr. miðað við íbúð sem kostar 2,3 millj., og ef nýtt er heimildargreinin fyrir þá sem verst eru staddir, 10%, þá er um að ræða 230 þús. Það eru ekki allir sem hafa aðgang að svo miklu fjármagni og þetta vandamál er leyst með þessu kaupleigufyrirkomulagi, þar sem um enga útborgun er að ræða.

Að því er varðar spurningu hv. 3. þm. Reykv. um það hvort þm. Alþfl. muni flytja brtt. við það trv. sem væntanlegt er frá ríkisstj. um húsnæðismál, brtt. sem lýtur að því að heimila lánveitingar til kaupleiguíbúða, þá hefur það ekki verið rætt í þingflokki Alþfl., en við hljótum að leggja höfuðáherslu á að það fjármagn, sem kemur til viðbótar gegnum aukna skuldabréfasölu til lífeyrissjóðanna, fari að verulegu leyti til þess að fjölga félagslegum íbúðarbyggingum og opna fyrir fleiri valkosti í húsnæðismálum.

Þessi till. gerir ráð fyrir því í fyrsta lagi að opnað verði fyrir lagaheimild til þess að hægt sé að veita lán til kaupleiguíbúða og í annan stað framkvæmdaáætlun til 10 ára. Fyrsta skrefið er að opna fyrir það að hægt sé að veita lán til slíkra kaupleiguíbúða, þannig að ég vil íhuga það hvort hægt sé að ná samstöðu um það nú fyrir þinglok við meðferð frv. frá ríkisstj. um húsnæðismál, hvort hægt sé að ná um það pólitískri samstöðu að opna fyrir slíka lagaheimild í húsnæðislöggjöfinni vegna þess að því fyrr er hægt að hefjast handa um samráð við sveitarfélögin um slíka framkvæmdaáætlun, sem þessi till. gerir ráð fyrir.