10.04.1986
Sameinað þing: 72. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3622 í B-deild Alþingistíðinda. (3304)

410. mál, kaupleiguíbúðir

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau orð sem hv. 2. landsk. þm. mælti áðan. Ætlar hæstv. félmrh. ekki að verða við þeim tilmælum að skýra þingheimi frá því hver sé skoðun hans á þessari till., hver sé skoðun hans á því fyrirkomulagi sem hér er gert ráð fyrir? Hér hefur verið flutt vandlega undirbúin og mjög ítarleg till. um nýjar leiðir í húsnæðismálum, till. sem kannske miðar einkum og sér í lagi að því að sinna þörfum þeirra sem vilja eignast íbúðir en ekki geta notið þeirra í gegnum verkamannabústaðakerfið eða hið almenna lánakerfi. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt og brýnt að hæstv. félmrh. segi sína skoðun á þessu máli, hvað honum finnst um þetta fyrirkomulag og hverja afstöðu hann hefur til þessarar till. Ég held satt að segja að það sé mjög undarlegt ef hann fæst ekki til að koma í ræðustól og lýsa skoðunum sínum í þessari till. sem er mjög skýr og hefur, eins og sagt var hér áðan, legið á borðum þm. í tvo daga.