10.04.1986
Sameinað þing: 72. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3622 í B-deild Alþingistíðinda. (3305)

410. mál, kaupleiguíbúðir

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Mér þykir harla einkennilegt ef ætlast er til að menn taki afstöðu til þess máls sem hér er flutt í þingsályktunartillöguformi. Ég tel að það hafi verið rætt það mikið um þessi mál og ég vil upplýsa hv. 5. landsk. þm. um að hugmyndir liggja fyrir milliþinganefndinni, skipaðri fulltrúum allra flokka hér á Alþingi, sem ganga í svipaða átt og hér er talað um. Það eru ýmsir valkostir þar til meðferðar og ég tel að það sé ákaflega mikilvægt að samstaða náðist um að vinna að framtíðarskipan þessara mála á þann hátt sem þar er gert. Ég tel enga ástæðu til að ætla á þessari stundu að þeir aðilar, sem hafa fjallað um þau mál, taki ekki á valkostum sem eru athygli verðir í sambandi við að tryggja láglaunafólki húsnæðisaðstöðu.

Það er margt í þessari till. sem er vissulega athygli vert og ég gæti sjálfsagt skrifað undir, en ég hef ekki búið mig undir að taka til máls um þáltill. sem slíka. En ég vísa til þess að mál þessu skylt er til meðferðar í milliþinganefnd.