10.04.1986
Efri deild: 73. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3623 í B-deild Alþingistíðinda. (3307)

413. mál, þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Á þskj. 762 flyt ég frv. til laga um þjóðarátak til byggingar Þjóðarbókhlöðu.

Ég vil fyrst geta þess að aðkoma mín að því máli var með þeim hætti að mjög óveruleg fjárveiting var til byggingar bókhlöðunnar. Til hennar er talið að varið hafi verið á núvirði 200 millj. kr., en fjármagn sem þarfnast til lúkningar byggingunni og til þeirra gagna sem hún þarf við til að þjóna hlutverki sínu er talið á núvirði 360 millj. kr.

Þrátt fyrir góðan vilja og heitstrengingar um byggingu Þjóðarbókhlöðu hafa mál staðið þannig að ekki hefur verið séð hvenær byggingu hennar lyki. Nú síðast við undirbúning fjárlaga fyrir árið 1986 var fjárveiting til bókhlöðunnar skert verulega svo að ekki þótti ástæða til annars en að fella hana alveg niður og leita nýrra leiða til lúkningar byggingunni á sem skemmstum tíma.

Frv. það sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir að byggingu Þjóðarbókhlöðunnar ljúki á þremur árum með tekjum af sérstökum eignarskatti sem rennur óskiptur til byggingarsjóðs Þjóðarbókhlöðu. Eignarskattsauki þessi er aðeins lítið brot af eignarskattsstofni, eins og segir í 2. gr., eða 0,25% af nettóeign 1600 þús. kr.

Allt frá því á vordögum 1968 hefur bygging Þjóðarbókhlöðu verið á dagskrá, en í bréfi dagsettu í mars 1969 til dr. Bjarna Benediktssonar forsrh. frá þjóðhátíðarnefnd 1974 segir að á fundum með þingflokkum vorið 1968 hafi nefndarmenn orðið varir við mikinn stuðning þm. við byggingu þjóðbókasafns. Ítrekaði nefndin síðar að Þjóðarbókhlaða væri væntanlega helsta gjöfin sem þjóðin færði sjálfri sér á 1100 ára afmæli byggðarinnar. Hinn 30. apríl 1970 samþykkti Alþingi síðan þáltill. um byggingu Þjóðarbókhlöðu svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar 1974 skuli reist Þjóðarbókhlaða er rúmi Landsbókasafn Íslands og Háskólabókasafn.“

Laugardaginn 28. jan. 1978 var fyrsta skóflustungan tekin að Þjóðarbókhlöðunni. Vilhjálmur Hjálmarsson menntmrh. tók skóflustunguna að viðstöddum Geir Hallgrímssyni forsrh.,.byggingarnefnd bókhlöðunnar og fleiri gestum. Við þetta tækifæri og oftar var nefnd dagsetning þegar byggingu hússins átti að ljúka. Nefnt var ártalið 1982. Þess má geta að af skilvísum mönnum og reikningsglöggum var það reiknað út fyrir mig í upphafi starfsferils míns sem menntmrh. að með sama áframhaldi mundi byggingu Þjóðarbókhlöðu ljúka árið 2032.

Árið 1978 voru um 340 000 bindi í Landsbókasafni og á annað hundrað þúsund í Háskólabókasafni. Í hinni nýju bókhlöðu uppkominni er hægt að geyma 1 milljón bóka.

Frá upphafi þessa máls hefur verið litið svo á að Þjóðarbókhlaða væri helsta gjöfin sem þjóðin gæti fært sjálfri sér á 1100 ára afmæli mannlífs og menningar í landinu. Þjóðarbókhlaðan er enn þjóðargjöf þótt komið sé fram yfir afmælið. Af þeim ástæðum er leitað til þjóðarinnar um lausn bókhlöðumálsins svo að það dragist ekki um ófyrirsjáanlegan tíma að þjóðin geti nýtt sér þessa gjöf.

Ástæða þykir til að viðurkenna það sérstaka framlag sem frv. gerir ráð fyrir með því að láta fylgja hverju framlagi sérstaka viðurkenningu. Þar verður fram tekið um greitt fé hvers einstaklings til Þjóðarbókhlöðunnar með það fyrir augum að hið góða handtak hvers og eins megi geymast innan fjölskyldna og ætta um ókomnar tíðir.

Ég vil gefa þess að formaður þingflokks Framsfl. hefur tekið það fram við mig að þessi hugmynd hafi notið nokkurrar andspyrnu í þeim þingflokki. Ég bendi hins vegar á að þetta er ekki skattlagning með venjulegum hætti, sem við nú erum að flytja frv. til laga um, heldur þjóðargjöf þar sem mönnum, öðrum en þeim sem samkvæmt frv. hljóðan er gert skylt að greiða í þennan sjóð, er einnegin gert kleift að eiga þátt í þjóðargjöfinni. Það yrði þá gert með því að aldraðir, sem ekki eru skattskyldir, og aðrir gætu keypt skjal sem væri kvittun fyrir þeirra framlag til þessarar þjóðargjafar. Fyrir því er það að þetta er hugsað sérstaklega að enginn verði afskiptur eða skilinn út undan þegar þetta fer fram.

Að öðru leyti hef ég ekki fleira um þetta að segja, en á þessu vek ég sérstaka athygli svo að hv. fjh.- og viðskn., sem ég legg til að fái þetta frv. til meðferðar, geti kynnt sér það sérstaklega og þau rök sem til þess hníga af hálfu samstarfsflokks Sjálfstfl. að hluti þingflokksins a.m.k., eftir því sem mér eru gefnar upplýsingar um, leggst gegn þessari tilhögun.

Frv. til að ljúka Þjóðarbókhlöðu með sæmd og samhentu átaki landsmanna er í samræmi við hugmyndir ágætra manna á Alþingi sem hrundu þessu máli af stað fyrir margt löngu og munu ekki hafa talið að tvo áratugi þyrfti til að Íslendingar gætu eignast sína þjóðargjöf.

Þjóðarbókhlaðan er engin tildurbygging. Okkur er mikil nauðsyn á að sameina Landsbókasafn og Háskólabókasafn og koma að auki fyrir sérsöfnum vegna fræða okkar, menntunar og vísinda. Húsnæðismál tveggja fyrrgreindra bókasafna standa okkur fyrir þrifum, enda er takmarkað hvað hægt er að auka bókakost þessara safna við núverandi aðstæður. Það er því komið að þeirri stund að ekki verður lengur unað því sinnuleysi sem ríkt hefur um byggingu Þjóðarbókhlöðu.

Með þjóðargjöf landsmanna tekst að ljúka á næstu þremur árum þessari byggingu sem svo mjög er miðuð við brýnar þarfir okkar og er að auki verðugt og sjálfsagt húsrými fyrir stóran hluta af þeirri menningu sem bundin er við bækur.

Fjáröflun sú sem frv. gerir ráð fyrir felst í álagningu sérstaks eignarskatts í þrjú ár. Heildarfjárhæðin, sem tekur við af kostnaðaráætlunum um þær framkvæmdir sem eftir eru við byggingu Þjóðarbókhlöðu, er áætluð 360 millj. kr. á núgildandi verðlagi, þ.e. 120 millj. kr. á ári gjaldárin 1987, 1988 og 1989. Gera má ráð fyrir að þessi fjárhæð haldi raungildi sínu þar sem skatturinn verður lagður á gjaldstofn viðkomandi gjaldára. Sá sérstaki eignarskattur sem þetta frv. gerir ráð fyrir er með sama sniði og ætti að gefa af sér sömu tekjur og eignarskattsauki skv. 2. gr. laga nr. 48/1985 sem lagður var á eignarskattsstofn gjaldárin 1985 og 1986.

Samkvæmt álagningarskrám gjaldárið 1985 nam álagður eignarskattsauki á menn, einstaklinga, 39,3 millj. kr. og lögaðila 64,3 millj. kr. eða í heild 103,6 millj. kr. Með hliðsjón af áætlaðri hækkun eignarskattsstofns um 28% milli gjaldáranna 1985 og 1986 svo og með tilliti til hækkunar skattvísitölu milli sömu gjaldára má áætla að eignarskattsauki manna, einstaklinga, hækki um 14,5% milli ára og muni nema við álagningu hans gjaldárið 1986 45 millj. kr. og að eignarskattsauki lögaðila hækki um 28% milli ára og muni nema við álagningu hans gjaldárið 1986 um 82 2 millj. kr. eða að heildarálagning eignarskattsauka á gjaldárinu 1986 muni nema um 127 millj. kr. Að loknum kærubreytingum má áætla að lokaniðurstaða eignarskattsauka gjaldársins 1986 til innheimtu muni nema 120-122 millj. kr.

Ég hef þessi orð ekki fleiri, virðulegi forseti. Ég minni aðeins á að uppi er mjög gagnsöm og einörð umræða um samstarf Háskóla og atvinnulífsins.

Ég vek athygli á því, sem hv. alþm. allir gera sér grein fyrir, að heili háskólastofnunar er bókasafn þess. Menn voru í tilhlaupi að gera áætlanir um að leggja hátíðarsal Háskólans undir bókasafnið til þess að leysa hin brýnustu vandamál sem þar væru uppi vegna húsakosts sem er gjörsamlega ónógur á skólabókasafninu. Þetta eitt með öðru sýnir hina brýnu nauðsyn þess að við tökum snarplega til höndum og legg ég til að þegar þessari umræðu lýkur, virðulegi forseti, verði máli þessu vísað til fjh.- og viðskn. þar sem það á heima þar sem hér er um skattheimtu að ræða þótt hún sé með þessu sérstaka formi að við viljum nefna það þjóðargjöf.