10.04.1986
Efri deild: 73. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3626 í B-deild Alþingistíðinda. (3309)

414. mál, Viðey í Kollafirði

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég rifja upp í upphafi máls míns að hið háa Alþingi ályktaði á vordögum á síðasta þingi að í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar skyldi Alþingi færast það í fang að gera upp til fullnustu Viðeyjarstofu og framkvæma lendingarbætur í eynni og átti það að heita afmælisgjöf til Reykjavíkurborgar vegna þessa stórmerka afmælis. Síðar við afgreiðslu fjárlaga kom í ljós að menn voru ekki tilbúnir og reiðubúnir til að standa við þessa fyrri yfirlýsingu og var þess vegna ekki ætlað til þess fjármagn í fjárlögum að gjöfin yrði með þeim hætti sem samþykkt hafði verið. Fyrir því er það að menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að besta úrlausn málsins og sjálfsögð og virðuleg til handa Reykjavík á 200 ára afmæli hennar væri að færa henni eignarhlut ríkisins í Viðey með þeim hætti sem nú skal greina. Tilefni þessa frv., eins og ég tók fram, er 200 ára afmælishátíð Reykjavíkurborgar á þessu ári, en hinn 18. ágúst n.k. verða liðnar tvær aldir frá því að Reykjavíkurborg fékk kaupstaðarréttindi.

Segja má að Viðey sé föðurleifð Reykjavíkurborgar, en þar dvaldi Skúli Magnússon landfógeti lengst af. Skúli valdi „Innréttingum“ sínum stað í „Hólminum“, eins og Reykjavík kallaðist þá, um miðbik 18. aldar, en með þeim varð fyrsti vísir að kauptúnsmyndun í Reykjavík og greinir sagnaritara ekki á um það. Þykir vel við hæfi á svo merkum tímamótum að ríkið afhendi Reykjavíkurborg eignarhluta sinn í Viðey að gjöf, enda eru uppi hugmyndir um það í borgarstjórn að gera eyna að fólkvangi og útivistarsvæði borgarbúa. Á eynni eru merkar minjar, m.a. Viðeyjarstofa og Viðeyjarkirkja sem eru á fornleifaskrá. Gert er ráð fyrir að verndun sú sem stofnast með skráningu í fornleifaskrá samkvæmt þjóðminjalögum haldi gildi sínu svo sem segir í fyrri málsgr. og hinni síðari einnegin.

Klaustur var stofnað í Viðey árið 1126 og var klausturhald þar allt fram til siðaskipta. Viðeyjarklaustur var ríkasta klaustur í landinu, átti 116 jarðir, auk ítaka, reka og hlunninda á fjölmörgum stöðum.

Á tímum klausturhalds í Viðey var eyjan eign og undir vernd kaþólsku kirkjunnar. Við siðaskiptin voru eignir Viðeyjarklausturs teknar undir Danakonung.

Næstu 200 árin var hljótt um Viðey. Bessastaðamenn taka þar við búi og Viðey verður nokkurs konar illa hirt hjáleiga frá Bessastöðum. Á þessum tíma komu Bessastaðamenn þó upp fátækraspítala í eynni sem rúmaði 12 manns. Nutu þeir þar vistar á kostnað ríkisins. Spítali þessi var síðar fluttur í Gufunes.

Nýtt frægðartímabil hefst í sögu Viðeyjar er Skúli Magnússon landfógeti settist þar að árið 1751. Skúli bjó í Viðey allt til æviloka 1794 og er grafinn undir altari Viðeyjarkirkju. Hann lét reisa Viðeyjarstofu, sem á sínum tíma var eitt dýrasta hús á landinu, og einnig lét hann reisa Viðeyjarkirkju þá er nú stendur sem mun hafa verið fullgerð árið 1774. Skúli stóð fyrir merkum jarðabótum og landbúnaðartilraunum í Viðey og hlaut fyrir þær viðurkenningu frá danska landbúnaðarfélaginu.

Eftir fráfall Skúla tekur Ólafur Stephensen stiftamtmaður við búi í Viðey og eftir andlát hans tekur Magnús Stephensen konferensráð og dómstjóri við búinu og setur þar upp einu prentsmiðju landsins sem starfaði þar árin 1819-1844.

Magnús Stephensen keypti Viðey árið 1817 og galt fyrir hana 14 000 ríkisdali. Þar með flyst Viðey úr ríkiseign í einkaeign. Eftir andlát Magnúsar var eyjan í eign afkomenda hans um langan tíma, en árið 1903 kaupir faðir Eggerts Briem eyna handa syni sínum.

Eggert seldi Viðey svonefndu Milljónafélagi árið 1907. Það félag átti Viðey í nokkur ár eða þar til félagið varð gjaldþrota, en þá eignaðist Eggert Briem aftur drjúgan hluta eyjarinnar, þar á meðal bæði Viðeyjarstofu og Viðeyjarkirkju. Eignarhluti Eggerts er síðan seldur árið 1936 Engilberti Hafberg sem síðan selur eignarhlutann að mestu Stefáni Stephensen árið 1939.

Stefán Stephensen afhendir árið 1961 ríkinu Viðeyjarkirkju ásamt lóð þeirri er kirkjan stendur á með þeim skilyrðum að kirkjan verði færð á þjóðminjaskrá sem nú kallast fornleifaskrá. Sex árum síðar selur Stefán Stephensen ríkinu 11,8 hektara af landi Viðeyjar, en inni í þeirri sölu er Viðeyjarstofa.

Reykjavíkurborg á nú þegar bróðurpart Viðeyjar. Fyrst eignast borgin hluta af eynni er hún eignast þann hluta sem undanskilinn var sölunni til Eggerts Briem eftir gjaldþrot Milljónafélagsins og þá með makaskiptum við Útvegsbanka Íslands. Síðar kaupir borgin svo mikinn hluta Viðeyjar af Ólafi Stephensen árið 1983.

Það sem verið er að gefa er eignarhluti ríkissjóðs sem miðast við afhendingu árið 1961 og kaup á hluta Viðeyjar árið 1967. Hvað þessi eignarhluti er stór í hekturum talið er mér ekki kunnugt um, en kaupin 1967 miðuðust við 11,8 hektara. Viðeigandi lýsing á þessum eignarhluta væri sjálfsagt, eins og segir í fornum bókum „dágóð landspilda“, að hún mundi verða talin. Inni í þessum eignarhluta ríkisins eru bæði Viðeyjarkirkja og Viðeyjarstofa.

Varðandi Viðeyjarkirkju sérstaklega, þá var hún afhent árið 1961 með svohljóðandi afsalsgerningi: „Við undirrituð, Stefán Stephensen og Ingibjörg Stephensen, gjörum kunnugt að við með gjafabréfi þessu afhendum biskupi Íslands Viðeyjarstofu til eignarumráða og ábyrgðar ásamt lóð þeirri er kirkjan stendur á. Það er áskilið af gefendum að kirkjan verði færð á þjóðminjaskrá Þjóðminjasafns Íslands.“

Ríkissjóður eignast sem sagt kirkjuna með ákveðnum kvöðum. Hvað þýðir að afhenda biskupi Íslands eitthvað? mætti kannske spyrja. Löggjafinn hefur æðsta vald í veraldlegum málum kirkjunnar. Ef eign er afhent þjóðkirkjunni er um leið verið að afhenda hana ríkinu með ákveðinni kvöð, þ.e. að eignin skuli notuð í þágu kirkjunnar. Líta verður svo á að þessi kvöð haldist þó að það sé ekki tekið fram í lagafrv. og legg ég áherslu á þann þátt.

Önnur kvöð lagðist á með afhendingu Viðeyjarkirkju. Það er skráning á fornleifaskrá. Komst kirkjan þannig í raun undir umsjá þjóðminjavarðar, enda hefur biskup Íslands ekki haft nein afskipti af kirkjunni. Viðeyjarstofa er einnig á fornleifaskrá.

Enn mundu menn vilja spyrja: Hvaða þýðingu hefur skráning á fornleifaskrá? Mun ég nú reifa stuttlega lagaákvæði þar að lútandi.

Skv. 11. gr. þjóðminjalaga eru allar fornleifar er á fornleifaskrá standa friðhelgar. Síðar í greininni er skilgreint hvað felist í friðhelgi. Friðuðum fornleifum má enginn spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær, laga né aflaga né staðfæra nema leyfi þjóðminjavarðar komi til. Ef friðuð fornleif liggur undir skemmdum ákveður fornminjavörður hvaða ráðstafanir skuli gera til verndar fornleifinni. - Ég vil taka það fram að ég hef hvergi rekist áður á þetta orð, „fornleif“, í eintölu, en lögin nota þetta orð eins og sjá má í 12. gr. þeirra og er merkilegt.

Skv. 10. gr. skulu fornleifar þær, er þjóðminjavörður telur ástæðu til að friða, skráðar á fornleifaskrá. Tilkynna á landeiganda skráninguna og tilgreina staðinn nákvæmlega. Skráningu fornleifar á fornleifaskrá skal þinglýsa sem kvöð á landareign þá er í hlut á.

Mér er ekki kunnugt um að slík þinglýsing hafi farið fram vegna Viðeyjarkirkju eða Viðeyjarstofu, en þjóðminjavörður tjáir mér að þessar byggingar séu á þjóðleifaskrá.

16. gr. þjóðminjalaga boðar að skylt sé að viðhalda á kostnað ríkissjóðs fornleifum þeim er á fornleifaskrá standa og fari um það eftir ákvörðun þjóðminjavarðar hverju sinni.

Þetta eru helstu lagaákvæði varðandi friðaðar fornleifar eins og Viðeyjarkirkja og Viðeyjarstofa eru. Gjöfin til Reykjavíkurborgar er bundin þessum ákveðnu kröfum, eins og raunar kemur fram í frv. sjálfu, enda hygg ég að ekki sé ætlunin að minnka eða þrengja þá verndun sem þessar fornleifar njóta, enda ekki leyfilegt.

Þessi lög, sem hér er flutt frv. um, eru fyrst og fremst heimildarlög sem heimila afhendingu þessara tilteknu eigna ríkisins. Lögin ná til allra eignarhluta ríkisins í Viðey. Síðar, ef og eftir að lög þessi hafa verið samþykkt, verður gjöfin útfærð nánar í afsalsbréfi til Reykjavíkurborgar.

Ég vil svo bæta því við að mér er kunnugt um að Reykjavíkurborg, ef þessi lög ná fram að ganga, hefur þegar búið sig undir að taka myndarlega til höndum um viðreisn Viðeyjarstofu, lendingarbætur og annað sem má gera þessa eign að frambærilegu og aðgengilegu landi og byggingum fyrir allan almenning og er mál til komið að þessi staður og þessar merku byggingar verði sýnilegar og þannig úr garði gerðar að þær séu bjóðandi öllum almenningi til sýnis. Því er það að ég legg mjög mikla áherslu á að mál þetta nái fram að ganga, virðulegi forseti, og legg til að þegar þessari umræðu lýkur verði máli þessu vísað til 2. umr, og menntmn.