05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

35. mál, kjötinnflutningur varnarliðsins

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. uppgötvaði á liðnu sumri að kjötinnflutningur til varnarliðsins bryti í bága við lög. Utanrrh. hefur hins vegar haldið þeirri stefnu að kjötinnflutningur til varnarliðsins skuli heimilaður. Þetta var deiluefni í ríkisstj. Ríkisstj. ákvað að skora á Stéttarsamband bænda að höfða mál á hendur sér, vildi fela dómstólunum að úrskurða um stjórnarstefnuna varðandi þetta atriði, hvort kjötinnflutningur skyldi vera til varnarliðsins eða ekki.

Ég minnist þess að við þetta tækifæri tók hæstv. núv. fjmrh., Þorsteinn Pálsson, svo til orða að það væri hallærislegt hjá ríkisstj. að hafa ekki stefnu en ætla að fá úrskurð dómstólanna. Samt var nú um þennan úrskurð beðið. Og skv. því sem hæstv. núv. fjmrh. hefur upplýst, þá er það svo að eftir að dómstólar höfðu komist að þeirri niðurstöðu - eða löglærðir menn - að svona málshöfðun gæti ekki gengið, þá er nú nýtt samkomulag í ríkisstj. - ekki um það hver stefnan skuli vera, heldur aftur „hallærislegt“, skv. skilgreiningu núv. hæstv. fjmrh., vegna þess að það á að leita úrskurðar löglærðra manna um það hver þeir telji að lögin séu í landinu en stefna ríkisstj. á eftir sem áður að liggja á milli hluta.

Síðan þetta gerðist höfum við búið við það kerfi að kjötinnflutningur er heimilaður með flugvélum en bannaður með skipum. Þetta eru lögin í landinu eins og stendur. Þetta er stefna ríkisstj. og á að standa óbreytt.

Ég vil inna hæstv. forsrh. eftir því hver sé stefna ríkisstj. í þessum málum, ekki bara það að ævinlega eigi að leita úrskurðar þessa eða hins. Fsp. um þetta efni og hvers sé að vænta á næstu misserum er að finna á þskj. 35.