10.04.1986
Efri deild: 73. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3648 í B-deild Alþingistíðinda. (3322)

423. mál, áfengislög

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á áfengislögum nr. 82/1969 á þskj. 777. Frv. felur í sér að heimild til útgáfu áfengisveitingaleyfis fyrir veitingastað verði falin lögreglustjóra að fengnum meðmælum sveitarstjórnar, en nú er það ráðherra sem skal veita þessi leyfi.

Umræða um þetta mál komst á dagskrá fyrir nærri ári þegar það viðhorf kom frá ráðstefnu Sambands ísl. sveitarfélaga að dómsmrn. hefði veitt allt of mörg slík leyfi á undanförnum árum.

Eins og ég sagði er gert ráð fyrir í þessu frv. að ákvörðunarvaldið færist til lögreglustjóra, en jafnframt verði ábyrgð sveitarstjórna aukin þannig að nú verði slík leyfi því aðeins veitt að sveitarstjórn veiti samþykki sitt.

Hins vegar varðar það einnig lögreglustjórnina miklu hvernig með þessi mál er farið þar sem afskipti af málum sem tengjast vínveitingastöðum eru stór hluti af starfi lögreglunnar og því nauðsynlegt að lögreglustjóri hafi þar nokkur áhrif á.

Lögreglustjóri veitir nú einnig áfengisleyfi til skamms tíma og að því leyti er líka eðlilegt að þessi leyfisgjöf sé á einum stað.

Það má einnig geta þess að vegna þess hvað þessum leyfum hefur fjölgað hafa umsvif þessara mála vaxið mjög og orðið allumfangsmikil í ráðuneytinu. Af þeim sökum er einnig æskilegt að færa þetta heim í hvert sveitarfélag þar sem betri þekking á að vera fyrir hendi um allar aðstæður.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv. Það er í grg. vikið að nokkrum öðrum atriðum, eins og því að eftirlit skuli nokkuð hert af hálfu lögreglunnar. Á það hefur verið lögð áhersla, sérstaklega hér í Reykjavík að undanförnu, að lögreglan fylgdist þarna betur með og ég held að þar hafi orðið jákvæður árangur af.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.