10.04.1986
Efri deild: 73. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3649 í B-deild Alþingistíðinda. (3324)

430. mál, Happdrætti Háskóla Íslands

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Frv. það sem hér er til 1. umr. á þskj. 790 varðar breytingu á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands og er flutt að beiðni stjórnar Háskólans.

Háskólahappdrættið hefur frá upphafi staðið að mestu leyti undir byggingarframkvæmdum og tækjakaupum Háskólans og þannig verið honum ómetanleg lyftistöng, en jafnframt létt útgjöldum af ríkissjóði.

Happdrættið hefur haft einkarétt til peningahappdrættis, sem jafnan hefur verið tímabundinn, 10-15 ár hverju sinni. Rennur núverandi heimild út í árslok 1988. Vegna áætlana um rekstur og framkvæmdir á vegum Háskólans er talið tímabært að leita eftir framlengingu happdrættisleyfanna og er það annað meginefni frv. þessa að lagt er til að einkaleyfið verði framlengt til ársloka 2003.

Hinn þáttur frv. er að leitað er eftir heimild fyrir Háskólann til að færa út happdrættisreksturinn þannig að happdrættinu verði heimilt að taka upp nýja tegund peningahappdrættis sem ekki yrði flokkahappdrætti eins og nú er. Mundi slíkt happdrætti geta verið hvort heldur er happdrætti þar sem kaupandi sér strax hvort hann hefur hlotið vinning eða happdrætti þar sem dregið yrði um vinninga í lok sölutímabils.

Heimild til að taka upp slíkt nýmæli mundi gera happdrættinu kleift að fullnægja óskum viðskiptavina sinna um fjölbreytni í happdrættisrekstri, en einnig tryggja að happdrætti geti áframhaldandi verið fjárhagslegur bakhjarl Háskóla Íslands.

Forráðamenn Háskólans og happdrættisins munu veita þingnefnd ítarlegar upplýsingar um áform happdrættisins á þessu sviði eftir því sem um er beðið.

Ég legg til að frv. þessu verði að þessari umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.