10.04.1986
Neðri deild: 75. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3653 í B-deild Alþingistíðinda. (3336)

419. mál, Atvinnuleysistryggingasjóður

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Eitt af því sem rætt var um í sambandi við kjarasamningana 26. febr. s.l. var atvinnuöryggi fiskvinnslufólks. Hluti þessara samninga var samkomulag milli Verkamannasambands Íslands, Vinnuveitendasambandsins og Vinnumálasambands samvinnufélaganna um málefni sérhæfðs fiskvinnslufólks. Í samræmi við ákvæði samkomulags frá því í júní s.l. hafði verið unnið að tillögum um aukið atvinnuöryggi fastráðins fiskvinnslufólks og gert ráð fyrir í þeim tillögum að þar væri einnig lagður grundvöllur að sérstakri starfsfræðslu fyrir það fólk og skilgreint starfsheitið „sérhæfður fiskvinnslumaður“.

Í yfirlýsingu forsrh. í júní s.l. var því heitið að ríkisstj. mundi greiða götu samkomulags um þetta málefni og þess vegna er þetta frv. fram borið nú sem niðurstaða af þessum samkomulagsumleitunum og því samkomulagi sem gert var.

Ástæðan til þessa er flestum mönnum vel ljós því að í landi okkar hefur auðvitað verið töluvert öryggisleysi einmitt um atvinnu fiskvinnslufólks og uppsagnir í þessum hópum verið tíðar þegar hráefnisskortur hefur gert vart við sig í fyrirtækjum. Þetta veldur að sjálfsögðu miklu öryggisleysi og truflun á atvinnulífi, ekki síst á þeim stöðum sem fyrst og fremst byggja á þessum greinum. Öryggisleysið hefur bitnað bæði á launþegum og vinnuveitendum að sjálfsögðu, enda hagsmunirnir sameiginlegir þegar um þetta er að ræða. Starfsmennirnir hafa í þessum tilvikum ekki átt annars kost en að sækja um atvinnuleysisbætur. Menn eru sammála um að nokkur fólksflótti hafi verið úr þessum greinum einmitt vegna þessa öryggisleysis.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir að rýmka heimildir Atvinnuleysistryggingasjóðs til að greiða atvinnuleysisbætur þegar um vinnslustöðvun er að ræða til þess að ekki þurfi að koma til uppsagna. Og það er annað atriði, sem verulegu máli skiptir líka, í frv., en þar er gert ráð fyrir að atvinnuleysisbætur séu greiddar á meðan á námskeiðum í starfsfræðslu þessa fólks stendur. Þá er gert ráð fyrir að námskeiðin séu, eftir því sem unnt er, haldin á sama tíma og vinnslustöðvun kynni að vera af öðrum orsökum. Ég vonast til þess að það geti tekist svo til að unnt verði að halda námskeið jafnvel á fleiri en einum stað í einu, en ég hygg að einmitt þetta atriði geti stuðlað bæði að því að hagur fiskvinnslufólksins verði betri, ánægja þess í starfi yrði meiri og einnig stuðlar þetta auðvitað að vöruvöndun í framleiðslu fyrirtækjanna. Mér virðist því að það hljóti að vera allra hagur að heimila Atvinnuleysistryggingasjóði að hlaupa undir bagga þegar svona stendur á.

Sú nefnd sem skipuð var í framhaldi af samkomulaginu í júní í sumar skilaði ítarlegum tillögum til ríkisstj. í marsmánuði og f framhaldi af því skipaði ríkisstj. nefnd til að vinna úr þessum tillögum og taka sérstaklega fyrir það sem væri löggjafaratriði og koma þeim atriðum í frumvarpsbúning. Í nefndinni sátu þeir Eyjólfur Jónsson í Atvinnuleysistryggingasjóði, Þórður Friðjónsson í forsrn. og Óskar Hallgrímsson í vinnumálaskrifstofu félmrn. Niðurstaða þess verks liggur hér fyrir í frumvarpsformi og að baki liggur samstarf og samráð við bæði hagsmunaaðila, þá sem málið snertir beint, svo og ríkisstj. Það er samkomulag milli þessara aðila um það mál sem hér liggur fyrir í öllum atriðum.

Þar sem hér er um að ræða breytingu á núverandi tilhögun atvinnuleysisbóta í fiskvinnslu, sem eru afar flókið viðfangsefni, er mikilvægt að þessi skipan mála verði endurskoðuð að tilteknum tíma liðnum. Þess vegna er gert ráð fyrir að þessi lög verði tímabundin og gildi fram á mitt ár 1988. Að þeim tíma liðnum yrðu þau annaðhvort framlengd ellegar gerðar þær endurbætur á þeim sem reynslan hefði leitt í ljós að mönnum þyki þurfa að gera.

Ég vil geta þess að lokum að ég hef rætt það við Eyjólf Jónsson í Atvinnuleysistryggingasjóði hvort hann telji að þetta hafi miklar breytingar í för með sér fyrir greiðslubyrði Atvinnuleysistryggingasjóðs. Svar hans var að um það væri mjög erfitt að spá, það væri mjög erfitt að gera sér grein fyrir því á þessu stigi, en það gæti alveg eins verið að það hefði ekki í för með sér neina umtalsverða aukningu á greiðslubyrði þar eð sama fólk og hér er um að ræða mundi þá ekki leita til Atvinnuleysistryggingasjóðs af öðrum ástæðum í eins ríkum mæli og áður var.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að þessu máli verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn.