05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (334)

35. mál, kjötinnflutningur varnarliðsins

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Það er undarlegt að nú, í eina skiptið sem ég hef látið reyna á það hvort hin nýju þingsköp leyfa að menn verji sig í þeim málum sem þá snerta og málum sem snerta þjóðina alla mikið, þá skuli ný þingskapalög vera orðin þannig að menn hafi ekki tíma til að gera það.

Ég vil þá segja í stuttu máli að innflutningur sá, sem hér um ræðir til Keflavíkurflugvallar, er að mínu mati ólöglegur og hefur verið, hvað lengi sem hann hefur átt sér stað. Vörur hafa komið til landsins. Þær hafa farið ótollskoðaðar í gegn. Viku seinna hafa pappírar komið frá varnarliðinu á dulmáli, þar sem tollyfirvöldum er tilkynnt hvað hefur komið til landsins.

Menn koma hér og fara án eftirlits. En ef Íslendingar, jafnvel sjómenn sem koma til hafna í Bandaríkjunum, ætla í land, þá er þeim bannað á þeim forsendum að þeir tilheyri ekki réttum pólitískum flokkum. Þetta getur ekki gengið. Hér er engin gagnkvæmni.

Kjötinnflutningur hefur verið leyfður en hann er bannaður skv. lögum. Það er ekkert í varnarsamningnum sem segir að lög frá 1928 um innflutning á hráum mat eða matvælum séu ekki í gildi. Það er alveg þvert á móti. Þau lög eru í gildi og eru íslensk lög og eiga að gilda fyrir Keflavík líka, hvort sem vörur koma með flugvélum eða skipum.

Þar sem ég hef ekki tíma til þess að ræða þetta mál. þá vildi ég bara segja að þetta er skömm fyrir íslenska þjóð og blettur að íslensk lög skuli ekki gilda hér á landi fyrir landið allt heldur skuli Keflavíkurbúar vera undanþegnir.