10.04.1986
Neðri deild: 75. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3655 í B-deild Alþingistíðinda. (3342)

392. mál, verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 56/ 1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, með síðari breytingum. Frv. er á þá leið að við VI. kafla bætist ný grein sem komi á undan 45. gr. gildandi laga og verði svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Seljendum hvers kyns vöru eða þjónustu er óheimilt að hækka vöruverð eða gjaldtöku fyrir þjónustu nema það sé sérstaklega tilkynnt. Heimilt er að auglýsa samtímis verðbreytingar til hækkunar og lækkunar.

Sé vöruverð hækkað er seljanda vöru skylt að auglýsa hækkunina á áberandi hátt á sölustað, nýtt verð ásamt hinu eldra, svo og hvenær hækkunin tekur gildi. Slíkar tilkynningar um verðbreytingar vöruflokka og vörutegunda skulu vera uppi eigi skemur en 14 daga frá gildistöku verðbreytinga.

Hvers kyns hækkanir þjónustuaðila á gjaldskrám skulu tilkynntar með eðlilegum fyrirvara þannig að notendur þjónustunnar megi auðveldlega gera sér grein fyrir verðbreytingunum, hvenær og hve miklar þær verða.

Verðlagsstofnun skal setja sérstakar reglur um skyldu seljenda skv. þessari grein.“

Hér er á ferðinni frv. sem m.a. er komið fram vegna þeirrar umræðu sem orðið hefur í þjóðfélaginu á síðustu dögum og vikum um vöruverð og verðhækkanir á vöru og þjónustu og nauðsyn þess að beita sem mestu aðhaldi að slíkum hækkunum og halda þeim í lágmarki.

Hér er einnig á ferð neytendamál hvað það varðar að flutningsmaður telur það eðlilega þjónustu við neytendur á hverjum tíma að þeir hafi greiðan aðgang að sem mestum upplýsingum um vöruverð og allar breytingar þar á. Það er enda forsenda þess að eðlilegt ástand geti ríkt á markaði þar sem ríkir „frelsi“ um álagningu og vöruverð. Forsenda þess að eðlileg samkeppni og eðlilegt verðlag geti haldist við slíkar aðstæður er að almenningur eigi greiðan aðgang að upplýsingum um verð og verðbreytingar.

Ég tel að unnt sé að tryggja mun betur en nú er gert að almenningur eigi greiðan aðgang að þeim upplýsingum. Það er enginn vafi á að nútíma tækni leyfir það að færa upp með tiltölulega auðveldum hætti allar breytingar til eða frá, enda munu fjölmargir seljendur þjónustu eða vöru þegar hafa tölvuvætt sína verðlagningu og sínar verðskrár og geta með tiltölulega einföldum hætti nýtt sér það í því skyni sem hér er rætt um.

Það er enda alkunna, herra forseti, og hefur ekki staðið í mönnum hingað til að koma því á framfæri við neytendur ef um vöruverðslækkanir er að ræða. Allir sem gengið hafa í verslanir, ekki síst á útmánuðum, þekkja það að þá er á áberandi stöðum með áberandi útstillingum því dyggilega komið á framfæri við neytendur að vöruverð hafi lækkað, að veittur sé afsláttur frá áður ákveðnu verði eða að um sérstakar útsölur af einhverjum tilefnum sé að ræða. Það virðist þar af leiðandi ekki vera mikið því til fyrirstöðu að þeir sem versla með vörur t.a.m. sinni þessari skyldu gagnkvæmt á báða bóga þannig að þeir sjái viðskiptavinum sínum fyrir jafngreiðum upplýsingum um það ef vöruverð hækkar eða breytist til þeirrar áttar.

Ég held einnig að það sé rétt að settar verði skýrari reglur en verið hafa hingað til um það með hvaða hætti skuli tilkynna breytingar á gjaldtöku fyrir þjónustu, hvort sem um er að ræða opinbera aðila og þjónustu sem allur almenningur notar eða minni þjónustuaðila sem selja þjónustu sína tilteknum hópum. Það ætti að vera einfalt mál að setja reglur sem skýra það með hvaða hætti slíkum tilkynningum skuli komið á framfæri, með hvaða fyrirvara og hvernig.

Ég tel reyndar rétt, herra forseti, að minna á það einnig í þessari umræðu að það er ástæða til þess að verðlagsyfirvöld athugi ýmislegt fleira í sambandi við verðlagningu, vöruverðmerkingar og þess háttar en hér er sérstaklega flutt till. um í þessu frv. Ég vil t. d. nefna í því sambandi þá venju, sem er altíð í vöruverslunum erlendis, að verðmerkja vöru með svonefndu samanburðarverði. Þar er um það að ræða, herra forseti, að þegar seld er vara í einhverjum tilteknum einingum, við getum sagt í nokkur hundruð gramma pakkningum, mismunandi stórum, þá sé sömuleiðis til viðbótar við viðkomandi einingarverð merkt inn á verðmiðann hvað kg eða lítri, eða hvaða mælieiningu sem um er að ræða, kostar af þessari sömu vörutegund. Þannig fá menn það sem kalla má samanburðarverð sem getur mjög auðveldað mönnum að bera saman mismunandi stórar pakkningar mismunandi vörumerkja sömu vörutegundar. Það er iðulega svo að hinir ýmsu framleiðendur senda ekki frá sér staðlaðar einingar, staðlaðar stærri pakkningar, heldur er um að ræða mjög mismunandi magn í tilteknum umbúðum. Þar af leiðandi getur þurft verulegrar athygli við ef menn ætla að fá hið eiginlega samanburðarverð ef um hliðstæða vöru er að ræða. Við þessu er séð víða þar sem verslað er með vörur t.d. í nágrannalöndum okkar með því að þar eru reglur um að á verðmiðum vörunnar skuli vera þetta samanburðarverð.

Ég hygg, herra forseti, að Verðlagsstofnun geti gert slíkar breytingar innan ramma gildandi verðlagslöggjafar. Það þarf því ekki lagabreytingar til. En ég kem því hér á framfæri sem skoðun minni að ég teldi rétt, ekki síst nú í tengslum við þá miklu umræðu sem fer fram um verðgæslu og virkt verðlagseftirlit, að að þessum málum yrði einnig hugað. Það mundi tvímælalaust veita aðhald að vöruverðshækkunum ef seljendum vöru væri gert skylt að tilkynna það með þeim hætti sem hér eru gerðar tillögur um. Nú geri ég ráð fyrir því að ýmsir þykist sjá annmarka á framkvæmd slíkra reglna og reyni jafnvel að finna þessu frv. það til foráttu að það gæti haft einhvern kostnað í för með sér fyrir seljendur vöru og þjónustu. En ég leyfi mér þá aftur, herra forseti, að minna á að í öllu falli virðist það ekki valda neinum erfiðleikum að tilkynna um verðbreytingar þegar þær eru niður á við og seljendur hafa ástæðu til að ætla að þær muni örva hjá þeim viðskiptin. Þá virðist það ekki standa í vegi fyrir þeim að koma því á framfæri.

Ég minni einnig aftur á þá margvíslegu nýju tækni sem við höfum nú yfir að ráða og ætti að gera það tiltölulega einfalt að koma upp slíkum upplýsingatöflum. Þær gætu hvort sem heldur er verið rafvæddar, tölvuvæddar á stafrænu formi eða að einhverju leyti handfærðar. Allir kannast við slík upplýsingaskilti og slíkar upplýsingatöflur frá ýmsum stöðum, t.a.m. flughöfnum þar sem jafnvel fleiri þúsund flugför fara um á hverjum einasta sólarhring og stanslaust er tilkynnt um breytingar, um brottför og komu á skiltum sem breytast nokkurn veginn jafnhratt og auga nemur. Þar er um að ræða mjög miklar breytingar og örar færslur sem nútímatækni hefur gert tiltölulega einfaldar.

Það væri einnig hugsanlegt að Verðlagsstofnun, sbr. síðustu málsgr. 1. gr., setti um það sérstakar reglur í hvaða tilfellum slíkar færslur skyldu eiga sér stað og gæfi ákveðið svigrúm, t.a.m. heimilaði að sleppt yrði að tilkynna verðbreytingar ef þær væru innan tiltekinna marka eða heimilaði að einungis almennustu vöruflokkar lytu þessum reglum. Til þess er ættast í þessu frv. að Verðlagsstofnun sinni þessu hlutverki.

2. gr. frv. er stutt. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“ Ég tel að það sé ekkert því til fyrirstöðu að þessi lög taki þegar gildi. Það væri mjög þýðingarmikið ef þessi lög og ýmsar slíkar ráðstafanir gætu komið til framkvæmda sem allra fyrst, m.a. í tengslum við þá kjarasamninga sem nýlega hafa verið gerðir og byggja að verulegu leyti á því að halda niðri verðhækkunum eins og kunnugt er og óþarft er að rekja hér frekar.

Burtséð frá því tel ég þó að þetta frv. eigi erindi sem slíkt og þjóni tilgangi á hvaða tíma sem það næði fram að ganga. Ég hef borið þetta undir menn sem kunnugir eru verðlagseftirliti, sömuleiðis, herra forseti, undir menn úr viðskiptalífinu. Þótt menn séu eðli málsins samkvæmt misjafnlega spenntir fyrir því að slíkar reglur taki gildi hafa menn ekki séð neitt því til fyrirstöðu, hvorki tæknilega né efnislega, að slíkar ráðstafanir mættu ná fram að ganga.

Herra forseti. Ég mun þá ekki hafa þessa framsöguræðu mína lengri, en legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. þetta sent til virðulegrar fjh.- og viðskn. deildarinnar sem eðlilegt mun teljast.