11.04.1986
Neðri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3675 í B-deild Alþingistíðinda. (3361)

431. mál, Rannsóknadeild fiskisjúkdóma

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. þar sem því verður væntanlega vísað til þeirrar nefndar sem ég á sæti í, en út af ummælum hv. síðasta ræðumanns vil ég benda honum á að það er annað frv. sem er hér á dagskrá og er til 3. umr., frv. til laga um breytingu á lögum nr. 18 1987, um veð. Þetta frv. er einnig samið af þessari nefnd þannig að það er alls ekki eina frv. sem nefndin hefur látið frá sér fara um þessi málefni. Það hefur mikla þýðingu að frá því sé gengið nú og verður gert. Frv. um veð er líka frá nefndinni.

Ég verð að upplýsa að það hefur ekki orðið töf á frv. um rannsóknadeild fisksjúkdóma í nefndinni. Það er miklu frekar að það hafi aðrir tafið fyrir því að hægt væri að leggja það fram. En um það ætla ég ekki að fjalla.

Ég legg mikla áherslu á að allt verði gert sem hægt er til að koma því í gegn. Það hefur fengið mjög mikla umfjöllun áður en það kemur hingað. Það mun létta nefndinni að komast að niðurstöðu. Ég vona að nefndin nái samstöðu um afgreiðslu á þessu máli.

Ég sé ekki ástæðu tímans vegna að ræða þessi mál mikið frekar, en ég fullyrði að bæði þessi frv., sem nefndin hefur samið og eru hér á dagskrá, eru afskaplega þýðingarmikil fyrir þessa atvinnugrein og geta ráðið úrslitum um hvernig til tekst.