05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

35. mál, kjötinnflutningur varnarliðsins

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég geri mér góðar vonir um að athugasemd mín geti orðið styttri en ræða virðulegs forseta í tengslum við þessa sömu athugasemd.

Ég vildi vekja á því athygli, sem mér finnst ekki hafa komið fram hér, að þetta mál snýst ekki bara um lög, ekki bara um hallæri, ekki bara um skömm og blett, heldur einnig um sjúkdómavarnir. Fyrir liggur álit færustu sérfræðinga þjóðarinnar á því að hér sé um stórhættulega hluti að ræða, þar sem er eftirlitslaus innflutningur á hrámeti inn í landið, jafnvel frá svæðum þar sem sjúkdómar á borð við gin- og klaufaveiki geisa eða hafa geisað einhvern tíma fyrir stuttu síðan.

Það er greinilegt að hæstv. ríkisstj. hefur ekki neina stefnu í þessu máli. Hún leitar á náðir lögfræðinga sem eru ekki sérfræðingar í sjúkdómavörnum og vita ekkert um gin- og klaufaveiki. Ég held að hæstv. ríkisstj. og hæstv. forsrh. væri nær að hlýða áliti færustu sérfræðinga okkar á því sviði og banna þennan innflutning. Ég vil svo að lokum gera orð hæstv. núv. iðnrh. að mínum um skömmina og um blettinn.