11.04.1986
Neðri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3685 í B-deild Alþingistíðinda. (3373)

301. mál, dagvistarheimili fyrir börn

Flm. (Kristín S. Kvaran):

Herra forseti. Aðeins vegna þeirra orða sem hv. 7. landsk. þm. lét falla hér varðandi þetta frv. Hún tók til að þau börn, sem dvalist hefðu á dagvistarheimilunum, hefðu átt kost á góðu uppeldi og taldi það jafnframt vera þeim til mikils hagræðis þegar þau kæmu í skólann. Nú er svo komið á dagvistarheimilunum mörgum hverjum að það er alls ekki orðið augljóst hvort börnin eiga kost á góðu uppeldi. Það er vegna þess að starfsfólk helst alls ekki við lengur á þessum stöðum. Það hefur virkilega staðið starfseminni fyrir þrifum að þangað fæst ekki starfsfólk.

Það er augljóst af frumvarpsgreinunum að fyrst og fremst er gert ráð fyrir að það sé verið að mennta starfsfólk til aðstoðar fóstrum á dagvistarheimilum, ekki í stað fóstra í afleysingarstörf. En þegar ekki fæst starfsfólk með framangreinda menntun, sem tekin er til í frvgr., þá sé heimilt að ráða fólk með fósturliðamenntun í störfin. Það teljum við þó vera spor fram á við, flm., að ráðið sé fólk með einhverja menntun, þ.e. fullgilda fósturliðamenntun, til aðstoðar fóstrum í stað þess að þar sé alfarið ófaglært starfsfólk.

Vonandi eykst skilningurinn á mikilvægum störfum og jafnframt lélegum kjörum fóstra, sagði hv. 7. landsk. þm. En ég spyr: Hvað á að gera á meðan? Hér erum við einungis að tala um að mennta starfsfólk sem verði fullgild starfsstétt. En hv. 7. landsk. þm. talaði einungis um að hér yrði til annars flokks stétt og að það yrði um að ræða stéttaskiptingu á dagvistarheimilunum.

Ég spyr: Hvernig er ástandið í dag? Það er alfarið ófaglært starfsfólk sem vinnur þar meðfram og til aðstoðar fóstrum og stundum í staðinn fyrir þær. Ég hef ekki getað tekið eftir því og hef ég þó unnið mikið á þessum stöðum að þar væri um neina stéttaskiptingu að ræða og á ég ekki von á því að svo yrði þrátt fyrir að þar yrði um að ræða stétt sem gæti vonandi gætt hags síns í eigin stéttarfélagi.

Einkarekstur tók hv. 7. landsk. þm. til og taldi að þetta frv., ef að lögum yrði, gæti leitt það af sér að hér mundi koma til einkarekstur dagvistarheimila þar sem ríkir aðilar gætu keypt hærra launaðar fóstrur til starfa á meðan eftir sætu ríkisreknu dagvistarheimilin með fósturliða og ómenntað starfsfólk.

Hvernig er staðan í dag? Það er ekkert sem stöðvar það í dag að hér séu einkarekin dagvistarheimili með yfirborguðum fóstrum. Eini munurinn væri sá að eftir sætu ríkisreknu dagvistarheimilin þá alfarið með ómenntað starfsfólk.

Ég verð að segja að ég tel ekki að hv. þm. Kvennalistans séu með því að hafna þátttöku í flutningi þessa frv. og með því að tala gegn því að hugsa um hag barna -síst af öllu - og ekki þess fólks sem kæmi hugsanlega til með að afla sér þessarar menntunar og öðlast við það réttindi. Ég tel þetta einungis vera skammsýni. Ef þeim finnst svo voðalegt að það sé verið að mennta og þjálfa fósturliða til starfa, hvað þá með lögin eins og þau eru í dag? Þar stendur, með leyfi herra forseta:

„Heimilt er með samþykki ráðuneytisins að víkja frá þessu ákvæði sé þess enginn kostur að fá fólk með framangreinda menntun til starfs.“

Þar er leyfilegt að víkja frá ákvæðinu og ráða ófaglært starfsfólk til starfa, fólk með enga menntun. Þess vegna spyr ég: Um hvað og um hverja er það fólk að hugsa sem svona talar? Ég tel að það sé ekki að hugsa um börnin.

Það ber enn frekar að taka það til að heil starfsstétt hefur þegar verið menntuð með sambærilegu lagaákvæði og hér er lagt til, eða sjúkraliðar. Ég spyr: Vilja hv. þm. Kvennalistans halda því fram að þar sé um að ræða óæðri starfsstétt eða annars flokks starfsstétt eins og kom fram í orðum hv. 7. landsk. þm. varðandi fósturliða?