11.04.1986
Neðri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3710 í B-deild Alþingistíðinda. (3383)

368. mál, selveiðar við Ísland

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu fjallar um selveiðar við Ísland. Það fyrsta sem hefur valdið ágreiningi í þessu frv. er að selveiðar eru færðar frá landbrn. til sjútvrn. Það er upplýst að selurinn syndir í sjónum og hygg ég að það þyki engum tíðindi sem hér eru að frá því sé sagt, en engu að síður er hann kenndur við landið og kallaður landselur og útselur. Ég verð að segja eins og er að ég skil ekki hvers vegna það er ekki hægt að hafa þetta undir landbrn. og hef áður lýst yfir andstöðu minni við þann þátt þessara mála.

Hitt atriðið, sem ég vil vekja athygli á, er að alþm. er ættað að virða stjórnarskrána. Þeim er ætlað að virða stjórnarskrána. Þeir eru látnir vinna eið að því að þeir vísvitandi brjóti ekki stjórnarskrána.

Nú er það svo að eignarrétturinn er friðhelgur í stjórnarskránni og aðeins heimilt að taka eign af manni með lögum þegar almannaheill krefur, enda komi þá fullar bætur til. Þetta vissu þeir mætu þm. sem sömdu lögin sem fjalla um útrýmingu á se11 Húnaósi. Með leyfi forseta vil ég lesa orðrétt þessi lög. Lögin eru frá 1937, Lög um útrýmingu sels í Húnaósi:

„1. gr. Veiðifélag Vatnsdalsár skal hafa einkarétt til að útrýma sel úr Húnaósi. Ræður stjórn félagsins mann eða menn til starfans.

2. gr. Presturinn í Steinnesi fái bætur fyrir missi heimatekna vegna selveiði í Húnaósi. Ríkissjóður greiðir bæturnar eins og þær eru metnar.“

Þarna var sú þekking til staðar á stjórnarskránni að það hvarflaði ekki að þeim að hægt væri að taka hlunnindi jarða sem eru metnar í fasteignamati, þar með komnar inn í eignarskatt manna og skattlagðar af hinu háa Alþingi, að hægt væri að taka slík hlunnindi af með almennum lögum án þess að bæta fyrir það.

Þá vil ég vekja athygli á að í 8. gr. er gert ráð fyrir að fella úr gildi lög nr. 30 frá 27. júní 1925, um selaskot á Breiðafirði og uppidráp, og lög nr. 29 13. júní 1937, um útrýmingu sels í Húnaósi sem áður var getið. Ég hygg að um leið og menn fella úr gildi lögin frá 1925 sé rétt að átta sig á því að ástæðan fyrir því að þessi lög voru sett um selaskot á Breiðafirði hefur vafalaust tengst því að þar er einnig æðarvarp á firðinum og í lögum um æðarvarp stendur að frá 15. apríl til 14. júlí eru öll skot bönnuð nær friðlýstu æðarvarpi en 2 km nema brýna nauðsyn beri til. Netalögn frá æðarvarpi er bönnuð í allt að 250 metra fjarlægð frá æðarvarpi.

Svo kemur það merkilega að bændur einir virðast hafa lesið frv. yfir en ekki þeir sem voru í nefndinni og það er slæmt því að nú vil ég biðja formann nefndarinnar og hv. 4. þm. Suðurl. að gera mér þann greiða að fletta upp í lögunum og finna út um hvað 16. gr. fjallar í tilskipun frá 20. júní 1849, um veiði á Íslandi. Um hvað skyldi þessi grein nú fjalla? Hún fjallar um vöðuselinn. Og mér er ekki grunlaust um það að hér hafi orðið prentvilla. (GSig: En hvað segir 15. gr.?) 15. gr. á að vera í fullu gildi áfram, en 16. gr., sem felld er úr gildi, er heimildargreinin til þess að hægt sé á Breiðafirði með leyfi sýslumanns að stunda netalagnir í annars manns landi og greiða hæfilega þóknun fyrir. Hvers vegna er ekki skynsamlegt að hafa þessa grein inni áfram? Hvað er það sem kemur í veg fyrir að ef einhver bóndi ekki nytjar sín hlunnindi geti veiðimaður við Breiðafjörð með heimild sýslumanns haft þar netalagnir og fengið mat á hvaða leigu hann eigi að greiða fyrir að nýta selinn? Ég vil, með leyfi forseta, lesa þessa grein. Greinin er á bls. 285 í lagasafninu og hljóðar svo:

„16. gr. Vöðuseli og annan farsel má hver maður skjóta eða veiða í nótum, hvar sem hann vill, og þó ekki nær annars manns landi en hundrað faðma tólfrætt frá stórstraumsfjörumáli þar sem nótlög eru né heldur skjóta nær eggveri eða látrum en áður segir.

Nú vill maður leggja nót af landi eða í nótlögum annars manns, þá skal hann semja þar um við þann, er veiði á, og stendur það. En ef hann synjar veiðarinnar, og sýnist óvilhöllum mönnum að hann hefði getað leyft sér að skaðlausu, eða nóteiganda þykir eigandi veiðarinnar selja of dýrt leyfi sitt, skal nóteigandi leita sýslumanns og skal hann bjóða þeim, sem veiði á, að leyfa nótlögin og nefna til menn og kveða á leiguna.

Nú leggur maður nót fyrir farsel í nótlögum annars manns og hefir ekki til leyfi þess, er veiði á, eða aðra heimild, þá veiðir hann honum. Með ábyrgð hans og upptöku nótanna skal fara eftir fyrirmælum 12. gr.

Skutulveiði er heimil hvar sem stendur, nema þar er látur eru eða nótlög. Þar sem menn eru að skutulveiði má eigi skjóta nær með byssu en svo, að óvilhöllum mönnum eigi þyki skaði að, og aldrei í vaðinn; en ef nokkur gjörir það, gjaldi 5 rbd. fyrir hvert skot.“ Þetta er skammstöfun. (GSig: Ríkisbankadalir.) Mér er ekki ljóst hvort hægt er að greiða þá nú á dögum jafnvel þótt menn væru sektaðir.

Það er þess vegna misskilningur hjá hv. 5. þm. Austurl. að það sé búið að nema úr gildi að ekki sé heimilt að skjóta í nágrenni við látur. Sú grein er í fullu gildi, það er nefnilega 15. gr., og skv. henni má ekki skjóta nær selalátrum en hálfa mílu danska sem hann fullyrti hér áðan að væru 3,7 km. Mér er hreinlega ekki ljóst hvort þeir sem sömdu þetta frv. hafa ruglast á greinum í þessari dönsku konungstilskipun og hvort þeir hafi ætlað að ráðast á 15. gr. eða hvort þeim hafi verið svo í nöp við vöðuseli eða farseli sem kemur fram í því að þeir telja að það eigi að nema 16. gr. úr gildi. Hún fjallar fyrst og fremst um heimild til veiði. Hin aftur á móti er friðunargrein. Það má vel vera að svo sé, að þeir hafi ætlað að hafa þetta eins og er talað um, og þá er það misskilningur hjá hv. 5. þm. Austurl. að það sé búið að nema úr gildi þann friðunarrétt sem áskilinn er í lögum við selalátur og þýðir að óheimilt er að skjóta nær selalátrum en 3,7 km.

Hitt atriðið, sem ég vildi vekja athygli á og ég hef áður rætt hér um, er það að ég er nokkurn veginn sammála hv. 4. þm. Suðurl. um hvernig eigi að fara að því að veiða selinn. Auðvitað er langvitlegast að veiða selinn ef hann er spakur. Það er miklu minni vinna en fæla hann fyrst með skotvopnum. Gallinn við þetta er aftur á móti sá að frv. gerir alls ekkert ráð fyrir að það verði farið eftir leikreglum hv. 4. þm. Suðurl. um veiðiaðferðir. Frv. gerir ráð fyrir að menn fái að skjóta inn um allan Breiðafjörð, inn um allt lífríki Breiðafjarðar. Og þá vaknar þessi stóra spurning: Haldið þið að það sé auðvelt, ef óheimilt er að skjóta nær æðarvarpi en í tveggja km fjarlægð og óheimilt er að skjóta nær selalátrum en í 3,7 km fjarlægð, að vera yfirvald á þessu svæði, úrskurða nákvæmlega að ekki hafi verið brotið þegar skotið var úr byssu á þessu svæði? Ég hygg að allir þm. hér inni viti að það er dálítið til af eyjum á Breiðafirði. Það hefur í það minnsta ekki verið svo slæmt ástand með landafræðiþekkingu Íslendinga til þessa að þeir gerðu sér ekki grein fyrir því. Við það bætist að þetta miðar allt út frá stórstraumsfjöru þannig að það getur verið hægara sagt en gert að átta sig á því hjá manni, sem fer inn á þetta svæði og ætlar að fara að skjóta sel, hvort hann sé í löglegri fjarlægð eða ekki frá friðuðum stöðum. Þetta er ástæðan fyrir því að til þess að hægt væri að halda og virða önnur lög sem í gildi eru þótti mönnum einsýnt að það væri skynsamlegast að loka Breiðafirði fyrir selaskotum.

Ég hef mátt þola það hér að menn hafa hvað eftir annað fullyrt að ef menn ekki vildu samþykkja þetta frv. án nokkurra breytinga væru þeir selafriðunarmenn. Hv. 4. þm. Suðurl. hefur getið þess að hann hafi verið á skipum úti á Halamiðum og ég rengi það ekki. Ég hef skotið sel og fleiri en einn og fleiri en tvo. Mér er ókunnugt um hvort hv. 4. þm. Suðurl. hefur yfir höfuð skotið sel. Hann er kannske selafriðunarmaður og vill ekki standa í því að skjóta seli. Það er ekki ágreiningsefnið hvort það eigi að stunda selveiðar við landið eða ekki. Ágreiningsefnið er aðeins það í fyrsta lagi: Menn vilja að þetta heyri undir landbrn. eins og það hefur gert allt til þessa. Í annan stað: Eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar verði virt. Í þriðja stað: Það verði staðið að því að halda selastofninum í ákveðinni stærð, ekki útrýma honum. Ég vona að allir hér inni séu þeirrar skoðunar að það eigi ekki að útrýma öllum sel við Ísland. Menn vilja halda honum í hæfilegri stærð og menn greinir á um hvernig skynsamlegast sé að fara að því að halda honum í hæfilegri stærð.

Ég er sannfærður um að með því að hagnýta sér 16. gr. í lögunum frá 1849 um tilskipanir á veiðum á Íslandi er hægt að veiða sel inn um allan Breiðafjörð með skynsamlegustu aðferð sem hægt er að nota.

Herra forseti. Mér er ljóst að stundum þróast mál á þann veg að menn gerast algerlega rökheldir. Það er ekki á dagskrá að menn hefji á ný hugsun um ákveðið mál. Þeir telja sig vera búna að finna þar allan sannleika og þeir ætta ekki að fara að hugsa málið upp á nýtt, enda getur það verið þreytandi að þurfa að standa í því að hugsa. Og því skyldu menn vera að leggja á sig slíkt erfiði? Ég verð aftur á móti að segja það eins og er að sú skotgleði sem lýsir sér í hugmyndum um hvernig menn virðast ætla að standa að þessu verki er ekki að mínu skapi og ég treysti mér ekki til að bera ábyrgð á þessari lagasetningu.

Það er hárrétt að hringormur veldur okkur miklum búsifjum í þorski og öðrum fiski .og við þurfum að komast fyrir rætur þess vanda. Vissulega er sannað að þar á selurinn hlut að máli. Hvort hann er eini sökudólgurinn er aftur á móti ósannað. Ég hygg aftur á móti að það hefði fyrir löngu verið hægt að koma málum í gegnum Alþingi Íslendinga sem tækju á þeim þætti að halda selastofninum í hæfilegri stærð. Það held ég að sé ágreiningslaust. En það er bara ekki það sem menn hafa viljað. Menn hafa óskað hér eftir heimildum sem eru svo rúmar að það er hægt að skjóta hvern einasta sel við strendur landsins ef menn telja að það sé nauðsynlegt. Og ef menn ætla ekki að hagnýta sér þessar heimildir, hvers vegna óska þeir þá eftir þeim svo rúmum?

Það er borið á okkur, sem tölum gegn þessu máli, að við tölum í einhverjum æsingi, einhverjum tilfinningahita. Ég vil alls ekki kannast við það. Ég hef reynt eins og ég hef getað að vera málefnalegur í minni umræðu. Ég hef forðast það að haga þannig máli mínu að ég hleypti mönnum hér í salnum upp eða yrði þess valdandi að þeir teldu sig þurfa að bera af sér sakir. En ég skil ekki hvers vegna menn, á þeim tímum þegar almennt er viðurkennt að menn vilja hafa hemil á dýrastofnum en ekki eyða þeim, óska þá eftir miklu rýmri heimildum en þeir ætla sér að nota ef tilgangurinn er aðeins að viðhalda ákveðnum stofni. Hitt vekur einnig undrun mína hvers vegna þeir telja að meira en aldargömul reynsla á því hvernig vitlegast er að standa að selveiðum á Breiðafirði sé ónothæf í dag og hvers vegna þeir vilja standa þannig að þessu að það er ekki aðeins hætta á því að hlunnindin varðandi selinn verði þar að engu, heldur má búast við því að æðarvarp geti orðið fyrir verulegum skaða vegna vinnubragðanna. Mér er þetta nánast óskiljanlegt og ég segi það eins og er að ég vona að þeir aðilar sem hafa ákveðið að breyta lögum á þennan hátt þurfi ekki að standa frammi fyrir því að þeir iðrist vegna þess að þegar þeir sjá hverjar afleiðingarnar verða finnist þeim að þeir hafi gert mistök sem erfitt sé að bæta fyrir.