11.04.1986
Neðri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3714 í B-deild Alþingistíðinda. (3384)

368. mál, selveiðar við Ísland

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal ekki eyða miklum tíma. Ég ætla hvorki að vera langorð né skemmtileg eins og menn hafa skipst á um að vera hér í dag. Hins vegar tel ég fulla ástæðu til þess að einn þm. sem ekki á sæti í hv. sjútvn. láti sig þetta mál einhverju skipta. Því hef ég hlýtt af áhuga á allar umræður um þetta mál, kom að því nokkuð fordómalaus og ákveðin í að taka afstöðu eftir því sem mér sýndist vera skynsamlegt.

Þegar menn standa frammi fyrir slíku máli og eru ekki sérfræðingar í málinu á nokkurn hátt hlýtur sú spurning oft að vakna: Um hvað snýst þetta mál? Og ég er ekki alveg viss um eftir allar þessar umræður að ég geti fullyrt að menn séu allir á sama máli um það um hvað þetta mál snýst. Snýst það, herra forseti, um selastofninn og velferð hans, snýst það um hringorminn eða snýst það um hlunnindi jarða? Það skiptir nefnilega töluverðu um hvað málið raunverulega snýst.

Auðvitað eru þessir þættir málsins allir góðir og gildir, en þó tel ég nú hlunnindaþáttinn e.t.v. þýðingarminnstan vegna þess að það er mín skoðun að þegar ríkisstjórnir bera fram lagafrumvörp eigi þau helst að varða almannaheill. En látum það vera.

Menn hafa verið á móti þessu frv. á ýmsum forsendum. Lengi vel í umræðunni snerist talið svo til eingöngu um hinn vísindalega þátt málsins, þ.e. selastofninn sjálfan. Ég get ekki betur séð en fyrir þeim þætti málsins sé þó nokkuð vel séð í þessu frv. Ég skal ekki tefja tímann með því að fara að lesa 2. gr. frv. þar sem fram er tekið að Hafrannsóknastofnun skuli hafa þarna hönd í bagga og 3. gr. þar sem Náttúruverndarráð, Hafrannsóknastofnun, Búnaðarfélag Íslands og Fiskifélag Íslands skuli vera með í öllum ákvörðunum um friðun eða fækkun sela. Ég held þess vegna að málið sé ekki í neinni sérstakri hættu, þ.e. verndun selastofnsins, með þessu frv.

Um hringorminn getum við deilt endalaust. Ég hef lesið það merka rit Seli og hringorma og reynt að lesa það sem mér hefur borist um það mál. Ég held að ég geti fullyrt með nokkurri vissu að um þetta vita menn ekki mjög mikið. Þegar menn vita ekki voðalega mikið hvetja þeir til að málið verði rannsakað. Ég get ekki betur séð en í þessu frv. sé gert ráð fyrir vísindalegum rannsóknum. Mér er því ómögulegt að sjá að þetta sé slíkt alvörumál að það þurfi að liggja fyrir hinu háa Alþingi ár eftir ár og taka þann ómælda tíma sem það hefur tekið.

Þá erum við komin að hlunnindaréttinum og grun hef ég um að sá þáttur sé miklu sterkari í andstöðu við frv. en áhugi á umhverfismálum og lífríki jarðarinnar. Það er svo sem ekkert undarlegt kannske. Hitt er annað mál að um hlunnindi má segja ýmislegt. Það er ekki á nokkurn hátt sambærilegt að tala um lax og silung sem hlunnindi á jörð og dýrin í úthafinu. Af hverju eru ekki rauðmaginn og grásleppan hlunnindi jarða? En ég skal taka undir það með hv. þm. Ólafl Þ. Þórðarsyni að selurinn hefur um langt skeið verið talinn meðal búdýra og vitaskuld yrði að breyta lögum og sjálfri stjórnarskránni til að breyta því. En jafnvel þótt litið sé á hlunnindaþáttinn í þessu frv. sé ég ekki að þau hlunnindi séu rýrð svo hættulega að bændur landsins geti ekki við það unað.

Þá er ég komin að erindi mínu í ræðustól, en ég ætlaði að gefa hæstv. ráðh. kost á ekki að svara mér heldur vil ég biðja um álit hans. Í 4. gr. segir í 2. mgr., með leyfi forseta:

„Nú liggur land að sjó og á þá landeigandi selveiðar 115 metra á haf út frá stórstraumsfjörumáli fyrir landi sínu og eru það netlög hans.“

Ég vil nú spyrja hæstv. ráðh. hvort ekki sé hægt að leysa þetta eilífðarmál með því að óska eftir að nefndin skaði betur hvort nákvæmlega þessi mælieining er sú æskilega. Ég hallast að, án þess að ég viti allt of mikið um það, að þetta kunni e.t.v. að vera einum of stutt. Við hérna, sem ekki erum sérfræðingar í öllu því sem að þessu máli lýtur, en teljum okkur hafa ofurlítið brjóstvit og velvilja til að taka ákvörðun um mál, sem sérhverjum þm. ætti að bera skylda til að taka þátt í umræðu um á þessari stundu, hljótum að óska eftir að þær breytingar séu gerðar sem hugsanlega mættu verða til þess að málið næði fram að ganga.

Ég harma að hv. 5. þm. Austurl. skuli vera horfinn úr salnum, minn kæri flokksfélagi. Ég hefði viljað spyrja hann af hverju hann hefur ekki flutt brtt., t.d. um þetta efni. Einhvern veginn finnst mér að menn hafi skipst hér í hópa af ýmsum ástæðum, hópa sem voru frá upphafi ákveðnir í að vera á móti þessu frv. Ég held að frv. sé tilraun til að ná utan um stjórnun selveiða, og ef ég get sannfært mig og látið aðra sannfæra mig um að þetta sé frv. um stjórnun selveiða og ekkert annað er ég tilbúin til að styðja frv. Ég held að nauðsynlegt sé að koma þessari stjórnun í fastara horf. Sú stjórnun hefur engan veginn verið eins og hún hefði átt að vera. Ég treysti satt að segja sjútvrn., og þá skiptir ekki máli hverjir stjórna því, alveg eins vel og landbrn. til að annast stjórnun þessara mála og skiptir þá heldur ekki máli hverjir sitja í landbrn. hverju sinni. Ég tel að þetta mál eigi heima undir stjórn sjútvrh.

Ég skal ekki halda lengri ræðu, en ég vil beina því til hæstv. ráðh. hvort ekki sé hægt að skoða þetta atriði málsins, sem er hversu langt á haf út menn eiga rétt frá landi sínu, því að ég hef það einhvern veginn á tilfinningunni að þarna sé meira og minna hundurinn grafinn, þetta sé tilfinningamálið í þessu öllu saman. Hv. sjútvn. hlyti að geta skoðað það mál ofurlítið betur. En það er auðvitað afar erfitt að sitja heilan dag undir umræðum um svona mál, sem þingið virðist allt skiptast í hópa um, ef menn eru farsællega fjarverandi, og þyrfti að hefja alla umræðuna upp á nýtt til að koma einhverju viti fyrir menn.