14.04.1986
Efri deild: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3718 í B-deild Alþingistíðinda. (3388)

260. mál, samningsgerð, umboð og ógildir löggerningar

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Hv. fjh.- og viðskn. hefur rætt mál þetta allítarlega og fengið á sinn fund ýmsa umsagnaraðila. Þar að auki komu greinargerð og athugasemdir frá dr. Páli Sigurðssyni. Að vel athuguðu máli telur nefndin að eðlilegt sé að samþykkja frv. þetta. Það hafa gefið góða raun svipaðar reglur sem hafa gilt í nágrannalöndum og ekki ástæða til að mati nefndarinnar eftir þessa ítarlegu skoðun að ætla annað en svo muni einnig fara hér. Hinu er ekki að leyna að það er nokkur ágreiningur í röðum lögfræðinga um þetta efni, en ég hygg að stuðningur við það sé yfirgnæfandi og a.m.k. ætti að vera áhættulaust að láta reyna á framkvæmd laganna. Það er þá auðvitað hægt að gera breytingu aftur síðar ef svo kynni að fara að eitthvað væri hér of frjálslega með farið. En það er ekki mat okkar nefndarmanna heldur þvert á móti að lögfesta beri þetta frv.