14.04.1986
Efri deild: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3723 í B-deild Alþingistíðinda. (3397)

275. mál, öryggi á vinnustöðum

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 46 frá 28. maí 1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, þskj. 510.

Lögin nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, tóku gildi þann 1. jan. 1981. Fimm ár voru því liðin frá gildistöku þeirra um síðustu áramót. 5. tölul. bráðabirgðaákvæða laganna hljóðar svo:

„Lög þessi skal endurskoða í samráði við aðila vinnumarkaðarins og stjórn Vinnueftirlits ríkisins eigi síðar en fimm árum eftir gildistöku þeirra.“

Þann 1. ágúst 1985 skipaði félmrh., að höfðu samráði við stjórn Vinnueftirlits ríkisins, nefnd fjögurra manna til að gera tillögur um endurskoðun laganna. Í nefndinni áttu sæti eftirtaldir: Hallgrímur Dalberg ráðuneytisstjóri, formaður, Þórarinn V. Þórarinsson, aðstoðarframkvæmdastjóri VSÍ, Guðjón Jónsson, formaður Málm- og skipasmiðasambands Íslands, og Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlits ríkisins. Nefndin var skipuð án tilnefningar.

Meginniðurstaða nefndarinnar var sú að ekki væri ástæða til að breyta ákvæðum laganna enn sem komið er og leggur hún til að endurskoðun þeirra verði frestað um fimm ár og 5. tölul. bráðabirgðaákvæðis þeirra breytt í samræmi við það.

Meginástæður þessarar niðurstöðu voru eftirfarandi: Samstaða er í nefndinni um markmið laganna eins og þeim er lýst í 1. gr. þeirra.

Ábyrgt samstarf hefur verið með aðilum vinnumarkaðarins og ríkisvaldinu í stjórn Vinnueftirlits ríkisins um framkvæmd laganna.

Nefndin taldi það stjórnarfarslega fyrirkomulag sem nú er á þessum málum heppilegt og leiða til lítillar skörunar við aðra málaflokka.

Eðlilegt sé að öll málefni sem löggjöf fjallar um á sviði aðbúnaðar, hollustuhátta og öryggis á vinnustöðum myndi sjálfstæðan málaflokk undir sameiginlegri stjórn aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins og undir yfirstjórn félmrn. er fer með málefni vinnumarkaðarins.

Lögin eru mjög viðamikil og óhjákvæmilegt að langan tíma taki að koma þeim til framkvæmda og byggja upp þá starfsemi sem þau gera ráð fyrir. Ekki hefur fengist nægilega löng reynsla af framkvæmd þeirra og sum ákvæði þeirra hafa enn ekki komið til framkvæmda.

Þau vandkvæði og álitamál sem upp hafa komið frá því að lögin tóku gildi taldi nefndin að unnt væri að leysa við framkvæmd þeirra að mestu leyti.

Nefndin tók saman ítarlega skýrslu um þá reynslu sem fengist hefur af framkvæmd laga nr. 46/1980 fram til þessa og um starfsemi Vinnueftirlits ríkisins. Er hana að finna í athugasemdum við frv.

Í skýrslunni setur nefndin einnig fram ábendingar um eftirtalin verkefni á sviði vinnuverndar sem hún telur brýnt að vinna að á næstu árum: Það eru varnir gegn heyrnarskemmdum, aðgerðir til að koma í veg fyrir heilsutjón af völdum lífrænna leysiefna, varúðaraðgerðir vegna notkunar eiturefna og hættulegra efna á vinnustöðum, endurbætur á gagnagrunni vinnuverndarstarfsins, aukin starfsemi á sviði iðjufræði og aukin fræðslustarfsemi á sviði vinnuverndar.

Við umfjöllun um lagasetninguna á Alþingi kom fram gagnrýni á að lögin skyldu ná til landbúnaðar og var sett í þau bráðabirgðaákvæði við setningu sérstakrar reglugerðar um framkvæmd laganna í þeirri grein. Slík reglugerð var sett í júní 1981 og samkvæmt henni var sérstök stjórn sett á laggirnar til að annast þessi mál í landbúnaði með aðild Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands. Mjög gott samstarf hefur tekist í þessari stjórn um framkvæmd eftirlits, fræðslustarfs og aðra fyrirbyggjandi starfsemi.

Stofnunin Vinnueftirlit ríkisins stendur að öllu leyti undir sér með iðgjöldum sem vinnuveitendur greiða og með tekjum samkvæmt gjaldskrá. Hún fær því enga fjárveitingu úr ríkissjóði á fjárlögum. Ábyrgt samstarf er í stjórn Vinnueftirlitsins við undirbúning reglna sem kveða á um kröfur til vinnuveitenda og starfsmanna um öryggi, hollustuhætti og aðbúnað. Allar slíkar reglur hafa fram til þessa verið afgreiddar með samhljóða samkomulagi og er mikil undirbúningsvinna lögð af mörkum til að svo megi takast.

Sem dæmi má taka nýjar reglur um hávaðavarnir sem voru fjögur ár í smíðum. Þær miða að því að koma í veg fyrir heyrnarskemmdir, en með sem allra hagkvæmustum hætti því að hér er um kostnaðarsamar ráðstafanir að ræða. Vinnueftirlitið er alls ekki eftirlitsstofnun eingöngu heldur annast hún einnig umfangsmikið fræðslu- og leiðbeiningarstarf sem miðar að því að gera mönnum kleift að annast þessi mál sem mest innan vinnustaðanna sjálfra í samstarfi vinnuveitenda og starfsmanna. Sem dæmi má taka að nýverið gaf stofnunin út rúmlega 130 bls. handbók um hávaðavarnir til að auðvelda fyrirtækjum úrbætur á þessu sviði.

Vinnueftirlitið annast ýmiss konar bráðnauðsynlegt tæknilegt eftirlit í nútímaþjóðfélagi, svo sem með tækjum sem sprengihætta stafar af, lyftibúnaði, fólkslyftum, skíðalyftum, farandvinnuvélum, sprengihættu við losun og lestun olíuskipa og vinnu við eldsneytistanka, innflutningi og framleiðslu hættulegra véla o.fl. Eðlilegt er að hér sé um sérstakan málaflokk að ræða vegna hinna sterku stjórnunartengsla við aðila vinnumarkaðarins sem eru forsenda þess að árangur náist.

Ýmsir þættir starfsemi Vinnueftirlits ríkisins hafa verið endurskipulagðir að undanförnu með það fyrir augum að gera starfið markvissara og árangursríkara. Þannig tók nýtt starfsskipulag við eftirlitsdeild stofnunarinnar gildi um síðustu áramót.

Umfangsmikil tölvuvæðing starfseminnar stendur yfir og unnið er að því að taka upp verkefnaskipulag við sem flesta þætti starfseminnar.

Náið og gott samstarf hefur tekist við heilbrrn. og Hollustuvernd ríkisins um þau mál sem krefjast samstarfs þessara aðila. Sérstök ákvæði eru í lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit um samráðsnefnd forstjóra þeirra stofnana sem fara með ýmiss konar eftirlit til að koma í veg fyrir skörun og stuðla að eðlilegu samstarfi. Enn fremur starfar sérstök samstarfsnefnd um framkvæmd eftirlits með eiturefnum og hættulegum efnum.

Vinnueftirlitið hefur auk þess samstarf við ýmsar aðrar stofnanir, svo sem Iðntæknistofnun.

Hér er um grundvallarréttindi hins vinnandi manns að ræða. Löggjöfin er í samræmi við viðhorf sem hlotið hafa alþjóðlega viðurkenningu, m.a. í samþykktum ILO. Hvatinn að baki hennar er virðing fyrir hinum vinnandi manni sem skapar auðæfi þjóðfélagsins með starfi sínu. Hann á rétt á að njóta sérstakrar verndar gegn slysum og sjúkdómum, sem tengjast starfi hans, og að honum ber að búa vel á vinnustað. Hann á rétt á að njóta fræðslu um hugsanlegar hættur í vinnuumhverfinu og hann á að geta leitað fulltingis hlutlauss aðila ef hann æskir upplýsinga eða telur á hlut sinn gert í þessum málum. Vinnuslys þarf að rannsaka gaumgæfilega, bæði í fyrirbyggjandi tilgangi og til að réttur hins slasaða verði ekki fyrir borð borinn.

Það er einnig mikilvægt fyrir vinnuveitendur að þessi mál séu í föstum skorðum og þeir geti leitað ráðgjafar hjá stofnun sem hefur reynslu og þekkingu á þessum málum sem m.a. byggir á rannsókn raunverulegra atvika. Vinnuslys og atvinnusjúkdómar leiða til truflana á starfsemi og vinnutaps vegna fjarvista. Slæm vinnuaðstaða getur hæglega leitt til lakari afkasta starfsmanna og óánægju þeirra. Séu þessi mál ekki í föstum farvegi og um þau annast á þann veg að njóti trausts beggja aðila er hætta á óróa á vinnumarkaði sem jafnvel getur leitt til staðbundinna verkfalla.

Ríkið hefur einnig hagsmuna að gæta í þessum málum. Hér er um fyrirbyggjandi starfsemi að ræða sem miðar að því að fækka slysum og sjúkdómum og auka vellíðan manna á vinnustað. Náist árangur með starfinu dregur hann úr kostnaði við heilbrigðisþjónustu og tryggingar og stuðlar að aukinni framleiðni í atvinnulífinu.

Það er mikil áhersla lögð á af hálfu fulltrúa launþega, að a.m.k. fimm ár verði til næstu endurskoðunar svo að ráðrúm gefist til að vinna á næstu árum af fullum krafti að því að koma ýmsum ákvæðum til framkvæmda. Verði tímabilið styttra, t.d. tvö ár, þarf að fara að huga að endurskoðuninni fljótlega, en þá getur orðið erfitt að ná fram framkvæmd á því sem til endurskoðunar er. Virðulegi forseti. Ég vil geta þess að ég tel mikla nauðsyn bera til að afgreiða þetta frv. á þessu þingi. Það hlaut samhljóða og fljóta afgreiðslu í hv. Nd. og ég vænti þess að hv. Ed. afgreiði þetta mál einnig þannig.

Ég legg til að að þessari umræðu lokinni verði því vísað til 2. umr. og hv. félmn.