17.10.1985
Sameinað þing: 4. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Ragnar Arnalds:

Herra forseti, góðir hlustendur. Hæstv. forsrh. sagði hér m.a. áðan að ríkisstj. hefði náð miklum árangri. Ég skal fúslega viðurkenna að á einu sviði hefur ríkisstj. náð ótrúlegum árangri. Henni hefur tekist það ætlunarverk sitt að lækka kaupmátt launa um fjórðung. Því miður hefur henni heppnast að keyra launakjör langt niður fyrir það lífskjarastig sem verið hefur hér á landi í einn og hálfan áratug. Þetta var ætlun þeirra og þetta hefur þeim tekist.

Í krafti gerræðisins að viðhalda verðtryggingu á öllum sviðum nema í launamálum - í krafti ósvífninnar að láta hvers konar efnahagsstærðir æða stöðugt upp á við, vöruverð og vexti, skatta og skuldir eða gengi á erlendum gjaldeyri, meðan launin liggja eftir óverðtryggð - í krafti þessarar dæmalausu svikamyllu hefur þeim veist með ólíkindum auðvelt að gera ávinninga kjarasamninga að engu fljótlega eftir að þeir hafa verið gerðir.

Gengisfellingin mikla í kjölfar kjarasamninga fyrir rúmu ári var tvímælalaust hefndaraðgerð. Ríkisstj. felldi gengið miklu harkalegar og miklu fyrr en unnt var að rökstyðja með efnahagslegum rökum. Þetta var pólitísk aðgerð beinlínis gerð í þeim tilgangi að hefna sín á samtökum launamanna og reyna að læða því inn hjá fólki að kjarabarátta borgi sig ekki.

Það verður líka að viðurkenna í fullri hreinskilni að þessi pólitíska hefndaraðgerð náði að vissu leyti tilgangi sínum. Launafólk hefur mætt þessum árásum á kjör sín með ótrúlegu jafnaðargeði og veitt ríkisstj. fullan starfsfrið í tvö ár til að viðhalda einhverri mestu kjaraskerðingu sem verkalýðshreyfing á Vesturlöndum hefur orðið að þola seinustu áratugi.

Hitt er svo allt annað mál hvenær þolinmæði fólks er endanlega þrotin. Býsna margir hafa trúað því og treyst að fórnir almennings mundu skila nokkrum árangri í efnahagsmálum og verða þjóðarheildinni til gagns. En nú er sú von brostin. Eða hvernig hefur til tekist á öðrum sviðum efnahagsmála? Öllum er ljóst að miklar fórnir almennings hafa ekki orðið til að eyða verðbólgunni. Hún er áfram mjög mikil, eða 30-40% miðað við 50-60% að meðaltali í tíð seinustu stjórnar. Það er bitamunur en ekki fjár og breytir engu.

Þrátt fyrir mikinn samdrátt og sparnað á flestum heimilum svo að víða jaðrar við neyðarástand er heildarstaða þjóðarinnar út á við engu betri en áður var. Þó hafa þjóðartekjur stóraukist seinustu tvö árin. Fyrir tveimur árum var heildarafli landsmanna um 840 þúsund tonn en verður 1540 þúsund tonn á þessu ári skv. opinberri spá. Aukningin í tonnum er rúm 80%. Á sama tíma versna lífskjör almennings um fjórðung og erlend lán í hlutfalli við þjóðartekjur aukast um nálægt 30%. Þar á ofan bætist að ríkissjóður, sameignarsjóður landsmanna, er rekinn með bullandi halla, meiri en dæmi eru áður til um.

Hvað veldur þessum ósköpum? Er ekki tími til kominn að stuðningsmenn þessarar stjórnar fari að hugsa sinn gang? Eða hvað veldur því að allt hefur mistekist hjá þessari stjórn nema þetta eina, að lækka launin um fjórðung?

Forsætisráðherra gerði litla tilraun hér áðan til að svara þessari spurningu. Hann unir glaður við sitt. En Sjálfstfl. hafði svarið á reiðum höndum þegar í seinustu viku. Skýringin var fundin: Veslings ráðherrarnir voru í vitlausum stólum! Það var meinið.

Síðan var skipt um stóla. Og formaðurinn, sem fann upp þetta merkilega bjargráð, krækti sér í einn stól í leiðinni. En eftir situr þjóðin og spyr: Voru það mennirnir í stólunum sem brugðust eða var það kannske stefnan?

Staðreyndin er sú, burt séð frá öllum stólum, að núverandi stjórnarsamstarf var byggt á mjög hægri sinnaðri stefnu frá upphafi. Ríkisstj. var mynduð utan um þá gamalkunnu trúarkreddu hægri manna að veruleg kauplækkun sé allra meina bót. Vinnuaflið var lækkað í verði en verðlag á fjármagni hækkað verulega með háum vöxtum og sí hækkandi lánskjaravísutölu.

Í kjölfar þessa hafa miklir fjármagnsstraumar átt sér stað. Með kjaraskerðingu hafa nokkrar þúsundir milljóna króna streymt frá launafólki til atvinnurekenda. Með okurvöxtum hefur önnur eins upphæð runnið frá skuldurum til fjármagnseigenda og með skattaívilnunum hafa enn aðrar milljónaþúsundir streymt frá almennum skattgreiðendum til stórfyrirtækja og hlutabréfaeigenda.

Það er þessi stefna sem á sök á því að fórnin, sem almenningur færir, bætir ekki hag þjóðarbúsins í einu eða neinu. Það er þessi stefna, að verðfella vinnuaflið en upphefja fjármagnið, sem veldur því að lífskjör almennings versna stórum á sama tíma og þjóðartekjur aukast. Það er einmitt trúin á það að kauplækkun sé allra meina bót sem er kjarninn í þessari háskalegu hægri kreddu - því að kredda er það. Að vísu er undirrótin hjá þeim þrönga hópi manna sem hagnast persónulega á slíkri stefnu. En hinir eru þó miklu fleiri sem ekki hafa fjárhagslegan hag af þessari kreddu en trúa þó á hana í blindni.

Einu sinni var það talin örugg lækning við öllum meinum að taka mönnum blóð. Þetta var útbreidd trúarkredda skottulækna, að láta sjúklingum blæða og blæða. Og þessu trúðu milljónir manna. Íhaldsstefna ríkisstj. er sama eðlis. Hún gengur einmitt út á að skera og taka mönnum blóð. Hún sér til þess að þeir fitna sem fjármagninu ráða. En hún ber dauðann í sér.

Sannarlega er það háskaleg þróun að íslenskur atvinnurekstur venji sig við að greiða helmingi lægri laun en gert er í nálægum löndum. Ekki hvetur það til hagræðingar þegar vinnuafl er vanmetið og ekki stuðlar það að arðbærum rekstri fyrir þjóðarbúið.

Eins er það skuggaleg þróun þegar launamismunur fer ört vaxandi eins og nú er, af því að alinennum launum er haldið niðri en aukagreiðslur og yfirborganir stóraukast.

Það er háskaleg öfugþróun að íbúðarbyggingar skuli vera að stöðvast víða um land af völdum stjórnarstefnunnar af því að fólk þorir ekki að eiga það á hættu að lánin, sem það tekur til að byggja fyrir, verði fljótlega hærri en söluandvirði íbúðanna, eins og þúsundir dæma eru um víðs vegar um land í tíð þessarar stjórnar.

Það er líka mikil hætta á ferðum þegar þannig er stjórnað að meginuppspretta gjaldeyrisöflunar, sjávarútvegurinn, er vanræktur og verður undir í samkeppni við verslun og viðskipti sem blómstra sem aldrei fyrr. Eða svo vitnað sé til leiðara Morgunblaðsins í gær:

„Mikill fólksflótti er brostinn á úr fiskvinnslu og frá fiskvinnsluplássum. Fyrirtæki í sjávarútvegi verða alltaf verr undir það búin að tæknivæðast ... Hætta er á staðbundnu og síðar almennu atvinnuleysi ef sjávarútvegsfyrirtæki stöðvast.“

Þetta er ekki hrakspá stjórnarandstæðinga. Takið eftir því. Þetta er viðvörun manna úr innsta hring Sjálfstfl. sem óttast hvert stefnir undir þessari stjórn. Því hvað veldur þessum flótta fólks og fjármagns úr sjávarútveginum? Fyrst og fremst röng stjórnarstefna og rangar áherslur í efnahagsmálum. Aðbúnaður fólks í fiskvinnslu er áberandi lélegur og launakjör slík að flótti hlaut að verða úr þessari undirstöðugrein. Fjármagnskostnaður er sligandi þungur og í engu samræmi við arðsemismöguleika.

En í verslun og viðskiptum er allt annað upp á teningnum. Í nýja miðbænum í Reykjavík er verið að byggja verslunarhús sem þekur 11 000 fermetra svæði eða jafnstórt svæði og hundrað meðalíbúðir. Það er gömul sorgarsaga að forsvarsmenn viðskipta og verslunar hafa löngum átt meiri ítök í valdakerfi landsins en nokkur annar hagsmunahópur. Offjárfesting á þessu sviði, sem nemur þúsundum milljóna króna, hefur skilað þjóðarbúinu sáralitlum arði. Rándýrt bankakerfi og margfalt olíudreifingarkerfi eru einmitt dæmi sem endurspegla ofvöxtinn í viðskiptum og þjónustu. Í tíð núverandi stjórnar hefur þessi vanskapnaður efnahagslífsins magnast verulega enda hefur ríkisstj. markvisst unnið að því að gefa gróðaöflum lausan tauminn í nafni frjálshyggjunnar.

Útlán bankakerfisins eru talandi dæmi um þessa óheillaþróun. Á einu ári, frá því í ágúst í fyrra til ágústmánaðar í ár, hefur útlánaaukning án afurðalána numið tæpum 1000 millj. kr. til sjávarútvegs en 2300 millj. til verslunar á sama tíma.

Gróðinn í þjóðfélaginu liggur sem sagt fyrst og fremst í eyðslunni, þar sem aflafé þjóðarinnar er eytt, en tapreksturinn er í framleiðslunni. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart hve seint og illa gengur undir núverandi stjórn að efla atvinnulíf og stuðla að nýsköpun. Arðbærar atvinnugreinar þróast ekki með eðlilegum hraða miðað við það sem er í nálægum löndum. Því blasir við sú dapurlega staðreynd að Íslendingar eru ekki að vinna sig út úr vandanum um þessar mundir. Frumkvæði og forusta ríkisstj. um eflingu atvinnulífs er varla sjáanleg á neinu sviði. Ekki er verið að byggja nein ný iðnfyrirtæki hvorki stór né smá fyrir forgöngu þessarar ríkisstj.

Ríkisstj. virðist einkum treysta á að erlendir auðmenn standi fyrir nýsköpun íslensks atvinnulífs og fjárfesti hér í „Singapore norðursins“, eins og Sverrir Hermannsson kallaði land okkar fyrir nokkrum árum þegar hann bauð ódýra orku og ódýrt vinnuafl Íslendinga til sölu á erlendum mörkuðum. Vonin um nýja álbræðslu útlendinga í Straumsvík er meginskýringin á því að Landsvirkjun hefur haldið uppi framkvæmdum af fullum þunga bæði norðan og sunnan heiða þótt löngu sé orðið ljóst af breyttum orkuspám að Íslendingar hafa ekki þörf fyrir þessa orku í bráð og ekki jafnfljótt og áður var talið.

Við Alþýðubandalagsmenn höfum ítrekað varað við þessum vanhugsuðu offjárfestingum við afgreiðslu lánsfjáráætlunar tvö undanfarin ár og það sama á við um stjórnarandstöðuna í heild. En ákafi stjórnarliðsins í erlenda stóriðju, sem aldrei mun þó greiða kostnaðarverð fyrir orkuna, veldur því að nú sitjum við uppi með miklar fjárfestingar í orkumannvirkjum sem ekki munu skila arði fyrr en að löngum tíma liðnum.

Öfugþróun íslenskra efnahagsmála stafar ekki af því hvaða íhaldsmaður sat í hvaða stól. Þjóðin þarf nýja stjórnarstefnu, ekki stólaskipti. Lykilatriði umskipta í efnahags- og atvinnumálum er breytt stefna í fjárfestingu, útlánum og vaxtamálum. Lánsfé er takmarkað og verður það áfram. Heildarfjárfestingu landsmanna verður því að stýra af einhverju viti. Marka þarf hóflega vaxtastefnu og stöðva það hömlulausa vaxtaokur, sem nú viðgengst, án þess að vextir verði þar með neikvæðir.

Hæfilegt vaxtastig hefur löngum verið talið þegar fjármagn tvöfaldar raungildi sitt á 20-30 árum. Nú er hins vegar orðið algengt það vaxtastig á verðbréfamarkaði sem hundraðfaldar fjármagn á 30 árum. Slík er breytingin í vaxtamálum á skömmum tíma. Sá sem á 10 millj. kr. og ávaxtar þær á almennum markaði fær nú fimmföld daglaun verkamanna í vexti á ári. Allar þessar tekjur eru skattfrjálsar. Ég spyr: Er nokkur minnsta vitglóra í þvílíku kerfi?

Það er brýnasta viðfangsefni íslenskra efnahagsmála að hækka launin verulega og lækka vextina. Lægri fjármagnskostnaður mun auðvelda fyrirtækjum um land allt að greiða hærri laun. Verulegar umbætur þarf að gera á skattakerfinu. Háar tekjur og miklar eignir á að skattleggja meira en hlífa lægri tekjum. Atvinnureksturinn í landinu verður að greiða eðlilegan hluta af sameiginlegum þörfum landsmanna þegar hagnaður er. Núv. ríkisstj. hefur sett svo margar glufur og smugur á gildandi skattalög með ýmiss konar frádráttarheimildum og óhóflegum afskriftum að nú orðið telst til undantekninga að fyrirtæki borgi tekjuskatt. Þetta er meginástæðan fyrir hinu mikla gati í fjárlagadæminu sem ríkisstj. ætlar nú að fylla í með nýjum sköttum á almenning að fjárhæð upp á 1,5 milljarð kr.

Menn fengu prýðilegt sýnishorn fyrir skemmstu af þessu makalausa skattakerfi núv. ríkisstj. þegar fjmrh. seldi hlutabréf ríkisins í Flugleiðum. Bréfin fóru fyrir væna fúlgu, enda mikilvæg eign sem greitt var fullt verð fyrir á sínum tíma og var m.a. tilkomin í tengslum við ábyrgðir og áhættu ríkissjóðs af miklum rekstrarlánum til félagsins auk þess sem ríkið veitti Flugleiðum stórfellda styrki. En hvað fær svo ríkissjóður í sinn hlut við sölu bréfanna? Svarið er: Minna en ekki neitt fyrstu árin, því að skattafrádrátturinn hjá kaupendum verður hærri en greiðslurnar fyrir bréfin.

Annað sýnishorn fengu menn nýlega frá húsnæðismálastjórn við úttekt á framtöldum tekjum húsbyggjenda og kaupenda. Í ljós kom að sjálfstæðir atvinnurekendur reyndust hafa miklu lægri tekjur en einstæðar mæður sem sjálfsagt eru þó margar í þjónustu þeirra.

Ég er ekki með þessum orðum að útiloka skattafslátt til fyrirtækja vegna fjárfestinga sem sannanlega skila þjóðinni einhverju með aukinni framleiðslu, með rannsóknar- og þróunarstarfi eða með bættri aðbúð starfsfólks. En gildandi reglur eru bæði hóflausar og siðlausar gagnvart öðrum skattgreiðendum sem ekki eru í atvinnurekstri.

Sem fyrst þarf að taka upp staðgreiðslukerfi skatta. Það væri þegar komið á ef Alþingi hefði borið gæfu til að samþykkja frv. þess efnis sem seinasta stjórn flutti.

Aftur á móti hlýt ég að vara mjög við virðisaukaskattinum sem bæði kostar margfalda skriffinnsku á við gildandi kerfi og er auk þess mjög óhagstæður fyrir launafólk. Það má ekki gerast að söluskattur eða nokkur samsvarandi skattur verði lagður aftur á matvörur. Það yrði mikill kostnaðarauki fyrir neytendur. einkum barnmargar fjölskyldur, og auk þess sérstakt áfall fyrir íslenskan landbúnað og er þar síst á bætandi.

En ríkisstj. leggur ekki aðeins nýja skatta á almenning til að fylla upp í fjárlagagötin sem hún sjálf hefur búið til. Félagslegar framkvæmdir eru skornar niður í stórum stíl. Skv. fjárlagafrv. er samanlögð fjárhæð til byggingar heilsugæslustöðva, dagvistunarheimila, grunnskóla og hafna aðeins rúmar 300 millj. kr. Það er meira en helmingi lægri upphæð að raungildi en gekk til þessara mála í seinustu stjórn. Reyndar eru þessar 300 millj. kr. nokkurn veginn sama upphæð og rennur til byggingar nýrrar flugstöðvar. Þarna sjá menn forgangsröðun hægri stjórnar í hnotskurn. Flugstöðin fær ekki þetta fé frá íslenskum skattgreiðendum vegna þess að Íslendingum bráðliggi á þessari byggingu umfram allt annað. Flugstöðin er hernaðarmannvirki öðrum þræði eins og flestir vita. Bandaríkjaher áskilur sér rétt til að nota þetta hús ef þörf krefur að eigin mati. Flugstöðin er liður í stórauknum hernaðarframkvæmdum Bandaríkjamanna hér á landi í samræmi við stjórnarstefnuna og undir forustu Geirs Hallgrímssonar sem reyndar nýtur þvílíks dálætis hjá yfirboðurum sínum í Washington að hann var nýlega útnefndur heiðursforseti NATO.

Undanfarna mánuði höfum við Alþýðubandalagsmenn unnið mikið starf að stefnumótun í atvinnumálum. Það er sannfæring okkar að unnt væri að stórauka framleiðslu þjóðarinnar ef gengið væri í það af krafti að efla atvinnulíf með skipulögðum hætti. Við höfum fjallað ítarlega um hvernig bæta mætti samkeppnisaðstöðu íslensks iðnaðar á heimamarkaði, nýta betur sjávarafla og örva nýsköpun, t.d. í upplýsingatækni, rafeindatækni, fiskeldi og líftækni. Þessu starfi höldum við áfram af fullum krafti næstu mánuði, m.a. á komandi landsfundi.

Við vitum að unnt er og óhjákvæmilegt að auka kaupmátt launa verulega á næstu árum, en til þess þarf aðra og skynsamlegri stjórnarstefnu en nú er fylgt. En hvað boðar ríkisstjórnin næstu þrjú ár samkvæmt nýrri þjóðhagsáætlun? Hún boðar óbreytt lífskjör næstu árin - gefur að vísu undir fótinn með 1,5% kaupmáttaraukningu. Stórfelld kjaraskerðing frá sumrinu 1983, sem margir trúðu þá að væri tímabundin uppákoma meðan verðbólgan væri að minnka, á sem sagt að standa áfram í þrjú ár í viðbót ef þessir menn fá að ráða. Það eru miklir glópar sem ímynda sér að fólkið í landinu uni við óbreytt kjör næstu þrjú ár. Þjóðin hefur kynnst leiftursókn Verslunarráðsins og auðhyggju hægri stefnunnar, þessu kalda kerfi gróðans sem engan vanda hefur leyst, aðeins aukið á ójöfnuð milli manna og stétta, og fólk hefur þegar fengið nóg af svo góðu.

Herra forseti. Fyrir rúmri einni öld voru fámennisstjórnir við völd í okkar heimshluta undir forustu valdamikilla konunga, studdar af forréttindahópum og íhaldsöflum síns tíma. Nú er öldin önnur. Við Íslendingar búum við lýðræði með skoðanafrelsi og almennum kosningarrétti eins og flestar nálægar þjóðir og okkur þykir jafnvel furðulegt að fólk skyldi una úreltum þjóðfélagsháttum svo lengi. Þó er þróun þjóðfélagsins í átt til lýðræðis og jafnréttis alls ekki á enda runnin. Enn vantar mikið á að við verði unað. Leifar ójafnaðar blasa hvarvetna við augum í ýmsum myndum. Áreiðanlega kemur þó að því að þessum leifum ólýðræðislegra stjórnarhátta verður varpað á ruslahaug sögunnar. Fyrr en síðar mun það þykja með ólíkindum að til hafi verið stjórnmálaöfl í lok 20. aldar sem gerðu allt sem þau gátu til að auka bilið milli ríkra og fátækra og ætluðust til þess að fjármagnið réði meira en mennirnir.

Fjármagnið er verkfæri í höndum okkar. Það má aldrei deila né drottna. Vinnan skapar verðmætin, hugur okkar og hönd. Í anda þeirra sanninda verður að auka andvirði vinnunnar en meta auðmagnið minna. - Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.