14.04.1986
Efri deild: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3727 í B-deild Alþingistíðinda. (3403)

429. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Jón Sveinsson):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 789 að flytja ásamt Jóni Magnússyni alþm. frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75 frá 14. sept. 1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, svohljóðandi:

„1. gr. Við 1. tölul. E-liðar 1. mgr. 30. gr. bætist ný málsgr. er orðist svo:

Vaxtagjöld, sem eru umfram leyfilegt árlegt hámark vaxtagjalda, sbr. 121. gr., er heimilt að flytja til næsta árs framreiknað skv. ákvæðum 26. gr.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu koma til framkvæmda við álagningu tekju- og og eignarskatts á árinu 1986 vegna tekna ársins 1985 og eigna í lok þess árs.“

Í grg. með frv. segir m.a.:

„Í áliti milliþinganefndar um húsnæðismál frá 7. des. s.l. var lagt til m.a. að hámark verðtryggingar og vaxtafrádráttar verði endurskoðað til hækkunar. Í frv. ríkisstj. um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, sem lagt var fram á Alþingi stuttu síðar og samþykkt þann 20. des. s.l., var tekið tillit til annarra ábendinga milliþinganefndarinnar. Á vaxtafrádrættinum var hins vegar ekki tekið sérstaklega, enda tíminn skammur til endurskoðunar laganna og um nokkuð yfirgripsmikið mál að ræða. Það hámark sem hér um ræðir er á skattárinu 1986 vegna tekna ársins 1985 216 757 kr. hjá einstaklingum og 433 514 hjá hjónum.

Í grg. með áðurnefndu frv. ríkisstj. sagði m.a.: „Skv. upplýsingum ríkisskattstjóra nutu 16 669 framteljendur vaxtafrádráttar við álagningu 1985. Að meðaltali nam frádráttur þessi 97 554 kr. hjá hjónum og 70 669 kr. hjá einstaklingum. Tiltölulega mjög fáir verða fyrir skerðingu vegna hámarksins, en þeir sem verða fyrir henni eru að jafnaði tekjuháir. Því þykir ekki nauðsynlegt að svo stöddu að leggja til að umrætt hámark vaxtafrádráttar verði hækkað.“

Rétt er að tiltölulega fáir verða fyrir þeirri skerðingu sem hér um ræðir. Er hins vegar dregin í efa sú staðhæfing að skerðingin bitni að jafnaði á tekjuháum. Að mati flm. skiptir skerðingin verulegu máli fyrir þá sem hana verða að þola sem eru oft einmitt þeir sem lent hafa í miklum greiðsluerfiðleikum og jafnvel greiðsluþroti í sumum tilvikum. Þykir ekki sanngjarnt gagnvart slíkum aðilum að tugir eða jafnvel hundruð þúsunda falli niður sem ónýttur vaxtafrádráttur eins og núgildandi lög gera ráð fyrir. Miðar tillagan að leiðréttingu þessa án þess þó að hækka vaxtafrádráttinn árlega. Heimilaður er í staðinn flutningur þess sem ónýtt er til næsta árs framreiknað með verðbreytingarstuðli skv. 26. gr. núgildandi skattalaga.

Tiltölulega fáir lenda í þeirri skerðingu sem nefnd hefur verið, eins og fyrr segir, og því tekjutap ríkissjóðs vegna þessara breytinga mjög óverulegt. Breytingin er hins vegar réttlætismál þeirra sem fyrir skerðingunni verða.“

Til glöggvunar er með þessu frv. sérstakt fskj. þar sem rakin eru tvö tilvik sem fjalla um það mál sem hér um ræðir. Þar kemur m.a. glöggt í ljós hversu miklum fjárupphæðum það getur numið sem niður fellur hjá einstaklingum og hjónum.

Í fyrra tilvikinu sem rakið er á fskj. falla niður sem ónýttur vaxtafrádráttur 204 332 kr. og í síðara tilvikinu 617 668 kr. Rétt er að geta þess í þessu sambandi að á grundvelli úrskurðar ríkisskattanefndar frá 30. des. 1983, úrskurði nr. 799, er heimilað að telja áfallnar verðbætur með vaxtagjöldum við sölu eigna hvort heldur um er að ræða almenna sölu eða nauðungarsölu á uppboði. Í slíkum tilvikum er einkum algengt að upp fyrir hámarksvaxtafrádráttinn sé einmitt farið. Í slíkum tilvikum er alls ekki sanngjarnt að einmitt þeir sem í mesta vandanum eru hverju sinni vegna húsnæðiskaupa eða húsnæðisbyggingar tapi tugum eða hundruðum þús. kr. Því er frv. flutt.

Um greinarnar sem slíkar vísast til athugasemda sem fylgja því frv. sem um er fjallað. Sérstök athygli er þó vakin á því að frv. gerir ráð fyrir að ónýttur vaxtafrádráttur frá 1984 nýtist við álagningu 1986 þar sem lögin öðlast þegar gildi.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv. sérstaklega, en ég ítreka að það er réttlætismál þeirra sem fyrst og fremst hafa lent í verulegum greiðsluerfiðleikum og bera þess vegna mjög mikla vaxtabyrði og verðbætur vegna lána sinna.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til fjh.- og viðskn. og 2. umr.