14.04.1986
Efri deild: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3732 í B-deild Alþingistíðinda. (3411)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir frv. sem hér liggur fyrir, frv. um sveitarstjórnarmál, og litið á umsagnir. Ég hafði ekki aðstöðu til að setja fram nál., enda er ég ekki í félmn., en ég átti kost á því að sitja einn fund nefndarinnar.

Þar kom fram hjá aðalhöfundi frv. að það væri vitanlega klúður og vandræðalegt á allan hátt og hafði um það hin verstu orð. Það kom og fram hjá þeim sýslumönnum sem komu á fundinn að þeir áttuðu sig ekki á því hvað átt var við með svokölluðum héraðsnefndum og lögðu fram ýmsar spurningar varðandi þá þætti, hvernig ætti að fara með eignir sýslunefnda og annað í þeim dúr. Það var náttúrlega lítið um svör. Það virðist sem hugmyndir um héraðsnefndir séu mjög á reiki, menn viti ekki hvað sé verið að setja á stofn og ástandið breytist miklu minna en ætlað hefði verið.

Það er líka atriði í frv. sem menn hafa mjög gagnrýnt, einkum við Alþýðuflokksmenn, að sveitarfélög sem aðeins hafa 50 íbúa skuli verða að sameina öðrum sveitarfélögum. Við teljum að þessi tala hefði á!t að vera miklu hærri og reyndar er það svo að í umsögnum um frv. kemur fram að hin ýmsu sveitarfélög telja að svo eigi að vera. Ástæðan fyrir því er sú að sveitarfélög sem eru með mjög fáa íbúa, allt niður í 400 manns, hafa varla aðstöðu til þess að lifa sem sjálfstæð sveitarfélög teknanna vegna. Við teljum að lágmarksíbúatala sveitarfélags ætti að vera 400 íbúar eins og var í frv. áður. Það mætti jafnvel gjarnan hækka.

Í umsögninni frá bæjarstjórn Hafnarfjarðar segir: „Bæjarstjórn Hafnarfjarðar telur að sveitarfélag, sem aðeins telur 50 íbúa, sé allt of fámennt til að standa undir lögboðnum verkefnum og bendir jafnframt á að aukning íbúafjölda í sveitarfélagi eykur sjálfstæði þess. Því leggur bæjarstjórn til að tala þessi verði ákveðin 1500-2000. Hins vegar gerir bæjarstjórn sér ljóst að verið getur að sveitarfélag geti alls ekki náð þessum íbúafjölda, t.d. af landfræðilegum eða félagslegum ástæðum og þyrfti í þeim tilvikum að gera ráð fyrir undantekningum.“

Á þessu sjáum við tóninn sem þarna ríkir og ég sé það í fleiri umsögnum að þessi tónn er einnig þar fyrir hendi.

Þá segir í umsögn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, með leyfi forseta:

„Stjórn samtakanna telur að ýmsar lagfæringar þurfi að gera á frv. til nýrra sveitarstjórnarlaga áður en það verði afgreitt. Þær hugmyndir um þriðja stjórnsýslustigið sem komu fram í frv., þ.e. svokallaðar héraðsnefndir, eru ekki fullmótaðar og vafasamt hvort þær eigi þar heima. Eðlilegra sé að fjalla sérstaklega um hugsanlegt þriðja stjórnsýslustig og skiptingu landsins í héruð eða fylki með sjálfstæðu lagafrumvarpi, enda muni þurfa breytingar á stjórnarskrá Íslands ef ýmsar þær hugmyndir sem menn gera sér um þriðja stjórnsýslustigið eigi að ná fram að ganga.“

Þá er eitt atriði sem ástæða er til að gefa gaum og ég minntist reyndar á við 1. umr. Í umsögn sýslunefndar Skagafjarðarsýslu og sveitarstjórna allra 14 hreppa Skagafjarðarsýslu segir t.d. almennt: „Í sambandi við ákvörðun um hver séu verkefni sveitarfélaga er ljóst að tekjustofnar sveitarfélaganna eru meginforsendan. Nauðsynlegt er því að ákvæðin um tekjustofna sveitarfélaga og sýslufélaga séu tekin upp í frumvarpi að sveitarstjórnarlögunum eða frumvarp um það atriði liggi fyrir samhliða.“

Ég tel að þetta sé mjög nauðsynlegt og frv. um tekjustofna hefði átt að liggja fyrir samhliða því frv. sem við ræðum um nú. Það er ekki vafi á því að eitt meginmarkmiðið með endurskoðun sveitarstjórnarlaga, sem hófst á árinu 1981, var að vinna að eflingu og stækkun sveitarfélaga. En það er forsenda þess að þeim sé fært að takast á við fleiri og stærri verkefni og unnt sé að auka sjálfsstjórn þeirra og fela þeim sem víðtækast ákvörðunar- og fjármálavald.

Alþfl. telur brýnt að gerð verði róttæk uppstokkun á stjórnkerfi sveitarstjórnarmála með nýskipan byggðamála. Í þeim tillögum sem Alþfl. hefur sett fram segir í fyrsta lagi að lögboðin verði stækkun sveitarfélaganna með nýjum ákvæðum um lágmarksíbúafjölda þeirra. Lágmarksíbúafjöldi í sveitarfélagi verði 400 nema í algjörum undantekningartilvikum þegar landfræðileg sérstaða kallar á aðra skipan.

Í öðru lagi höfum við lagt til að félmrh. skipi nefnd til að gera tillögur um skipan nýrra stjórnsýslueininga á héraðsgrundvelli og frv. þar að lútandi verði lagt fyrir Alþingi veturinn 1988-1989. Við það skuli miðað að stjórn héraðanna verði kjörin beint af atkvæðisbærum íbúum þeirra, að þau hafi sjálfstæða tekjustofna og verkefni, sem nú eru í höndum ríkis og sveitarfélaga, verði færð til héraðsstjórnanna. Skýr verka- og tekjuskipting liggi á milli stjórnsýslustiga og tryggt að saman fari ákvörðunarvald og framkvæmd og fjárhagsleg ábyrgð.

Eitt er það sem ég tel að mætti einnig koma fram í nýjum sveitarstjórnarlögum og það er ákvæði um að hjá stofnunum eða fyrirtækjum, sem bæirnir eða sveitarfélögin reki, stofnunum sem hafa fjölda manns í vinnu, verði komið á svokölluðu atvinnulýðræði eða vísi að því. Ég veit um dæmi þess, sem er allt að 20 ára gamalt, suður í Keflavík, en þar eru rekin nokkur slík fyrirtæki. Þar er það skylda að fulltrúar starfsmanna eigi sæti í stjórnum þessara fyrirtækja. Ég bendi á að einmitt þessi skipan hefur aukið mjög frið innan stofnunarinnar, milli starfsmanna og stjórnenda fyrirtækjanna og bæjarfélagsins, og ég tel að ef við ætlum að horfa fram á við sé nauðsynlegt að koma slíku ákvæði í frv.

Það frv. sem liggur nú fyrir Ed. er á margan hátt verra en það var í upphafi. Vissulega eru gerðar ýmsar tæknilegar breytingar til bóta og ber að meta það. En ég tel að það frv. sem hér liggur fyrir sé það gallað að ekki sé fært að samþykkja það. Eina ákvæðið sem virkilega knýr á um lagasetningu nú er 18 ára kosningaaldur og kjörgengi en auðvitað er hægt að samþykkja sérstök lög um það og þá um leið um þann kjördag sem væntanlegur er til sveitarstjórnarkosninga.

Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með þetta frv., einkum af því að ég veit að félmrh. þekkir mjög til sveitarstjórnarmála og hefði þess vegna getað fengið samþykkt mun betra frv. Ég tel að þeir sem að þessu hafa unnið, margir hverjir, hafi lítið komið nálægt sveitarstjórnarmálum og því sé frv. ekki meira að vöxtum eða betra eða horfi meir til framfarasóknar en greinilegt er.

Ég tel ástæðulaust að fara fleiri orðum um þetta mál en legg áherslu á það að margar efasemdir eru uppi hjá þeim fjölmörgu sem við sveitarstjórnarmálin fást. Við í Alþfl. teljum að það hefði mátt ganga mun lengra og við viljum gjarnan vita hvaða hlutverki héraðsnefndirnar eigi að gegna, hvernig eigi að fara með skuldaskil, hvernig eigi að móta þriðja stjórnsýslustigið þannig að vit sé í. Í raun er gert ráð fyrir sáralítilli breytingu í þessum efnum og þá á ég við það ástand sem ríkir varðandi landshlutasamtök. Það þurfa að vera til ákvæði um það hvernig með þau skuli fara og líka það að minni hlutar í svokölluðum héraðsnefndum fái að njóta sín. Í dag hafa landshlutasamtökin byggst upp af samþykktum sveitarstjórna og þá yfirleitt meiri hluta þeirra sveitarstjórna sem fyrir hendi eru hverju sinni. Svokallaður minni hluti er varla til, þ.e. áhrif hans eru varla til, og á honum er gengið eins og mögulegt er í mörgum tilvikum.

Ég endurtek að ég lýsi vonbrigðum mínum með þetta frv. Ég tel að það hefði mátt ganga mun lengra, það sé gallað og því sé óeðlilegt að samþykkja það nú. Það mætti hins vegar taka nokkur atriði út úr og samþykkja þau, eins og varðandi kosningaaldurinn, kosningadagana, en bíða með samþykkt frv. að öðru leyti þar til gerðar hafa verið á því gagngerar endurbætur sem miða til framfara en ekki aðeins til tæknilegra breytinga.