05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

57. mál, fangelsismál

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Það er greinilegt af svörum hæstv. ráðh. að hann lítur svo á, og má segja kannske réttilega, að það sé Alþingi sem beri ábyrgð á störfum þessarar nefndar og því ætti ég að beina fsp. minni til hæstv. forseta Sþ. um það hvað liði störfum nefndarinnar. Hitt er hins vegar ljóst að formaður nefndarinnar er frá dómsmrn. og ég hafði vænst þess að í tengslum við það hefði ráðuneytið nokkra forustu og forgöngu um það að að þessu nefndarstarfi væri eðlilega unnið.

Ég dreg ekki í efa að nefndin hafi unnið að þessu starfi - og veit það reyndar. Ég veit að þetta er ekki auðleyst mál og það þarf úrbætur í margri grein. Ég hefði vænst þess kannske fyrst og síðast að áfangatillögum yrði skilað hér inn í Alþingi um þennan viðkvæma og margslungna málaflokk.

Ég skal ekki hafa um þetta mörg orð nú, en ég treysti samt sem áður hæstv. ráðh., sem skipar formann nefndarinnar, til að sjá svo um að nefndin skili ákveðnum áfangatillögum - og beini þá þeim tilmælum til hæstv. forseta Sþ. að til þess verði séð, ef það er alfarið ljóst að ábyrgðin er á höndum Alþingis - skili af sér áfangatillögum í þessu efni, geri grein fyrir því hvernig að er unnið.

Við vitum að hér er málaflokkur sem vissulega þarf úrbóta og endurskoðunar við. Það er margt sem kemur þar til sem var í umræðunni 1982. Þar var minnst á hið seinvirka dómskerfi okkar og afleiðingar þess. Jafnvel svo að við liggur að önnur persóna, a.m.k. önnur manngerð, er dæmd en sú sem afbrotið framdi. Það var rætt um spurninguna um betrun. Þar er að vísu margt gert, en miklu fleira ógert. Þar var rætt um viðskipti dæmdra aðila og ráðuneytis og um það mun ég þá spyrjast fyrir sérstaklega, ef þess gerist þörf, og kannske fyrst og síðast hverjir möguleikar þeirra sem hefðu þurft að afplána fangelsisvist væru á því að fara út í lífið á ný með eðlilegum hætti. Að þessu öllu vona ég að nefndin sé að vinna, skili tillögum sem fyrst, en vænti þess og vona að hæstv. ráðh. verði ekki skotaskuld úr því að fá upplýsingar hjá formanni nefndarinnar, sem hann skipaði, um það hvernig þessu nefndarstarfi er háttað nú.