14.04.1986
Neðri deild: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3756 í B-deild Alþingistíðinda. (3447)

368. mál, selveiðar við Ísland

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég gagnrýndi það mjög í 1. umr. um þetta mál að það skyldi lagt fram svo seint á þessu þingi, mál sem mjög deildar meiningar eru um. Á frv. voru vissulega gerðar breytingar til bóta á milli þinga, en þær eru ekki meiri en svo að enn er um það mikill ágreiningur.

Hv. sjútvn. taldi þó ekki ástæðu til mikillar umfjöllunar og afgreiddi málið frá sér á mjög skömmum tíma. Með tilliti til allra aðstæðna og raka í þessu máli leyfi ég mér að átelja þau vinnubrögð og tel þau ekki til þess fallin að stuðla að afgreiðslu þessa frv. nú fyrir þinglok, enda væri eðlilegast að fresta því enn einu sinni og freista þess að ná sæmilegum friði um það því að allir eru sammála um að setja þurfi lög um selveiðar.

Þetta frv., 368. mál Nd., skapar að mínu viti meiri vanda en það leysir, ef að lögum verður, þar sem sum atriði þess eru að margra dómi til þess fallin að framlengja og löghelga umdeildar aðgerðir svokallaðrar hringormanefndar. Það hefur margsinnis komið fram í umræðum um frv. að þeir sem styðja það af mestu kappi telja það fela í sér lausn hringormavandans svokallaða. Það er að mínu viti rangt. Það er engan veginn sannað að beint samband sé á milli selafjölda og fjölda hringorma. Meira að segja telja margir af okkar færustu vísindamönnum sannað að svo sé ekki. Þessi forsenda hvílir því á veikum vísindalegum grunni. Hún er ekki studd fræðilegum rökum og réttlætir ekki að efna til handahófskenndra aðgerða til fækkunar á sel.

Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, vitna í umsögn um þetta frv. frá Arnþóri Garðarssyni sem hljóðar svo: „Frv. þetta felur í sér að öll málefni er selveiðar varða eru færð til sjútvrn. sem að vísu er gert að hafa samvinnu við landbrn. um framkvæmd, sbr. 3. gr., og auk þess samráð við Náttúruverndarráð, Hafrannsóknastofnun, Fiskifélagið og Búnaðarfélagið. Þetta meginatriði frv. gæti virst meinlaust, en er að margra dómi til þess fallið að framlengja og löghelga ýmsar umdeildar aðgerðir svonefndrar hringormanefndar, sbr. hjálagða ritfregn, Náttúrufræðingurinn, 35. árgangur, bls. 46-48, 1985, um ritið Selir og hringormar sem Landvernd gaf út, en ritfregnin kom nýlega við sögu á Alþingi í umræðum um selveiðifrv. Það skal fúslega viðurkennt að ýmis atriði, sem þar er vakin athygli á og varða umhverfisvernd og starfsaðferðir, eru í eðli sínu huglæg og verður hver að meta þau fyrir sig.

Í upphafi ræðu sjútvrh., er hann flutti frv. til laga um selveiðar við Ísland í Nd. 2. apríl 1986, kom fram að tilgangur lagafrv. er að leysa hringormavandamálið, en hann segir orðrétt:

„Hringormur er sífellt vaxandi vandi í sjávarútvegi og brýnt að þetta mál verði afgreitt hið fyrsta.“

Sú skoðun ýmissa alþm. að auknar selveiðar leiði til þess að minna verði um hringorm og jafnvel til þess að kaup fiskvinnslufólks hækki kemur og berlega fram í umræðum um frv. Því miður eru þessar hugmyndir ekki studdar neinum marktækum mælingum eða rannsóknum og þar að auki bendir ekkert til þess að þær fái staðist fræðilega.

Ég tel skylt að vekja athygli á því að líffræði hringorms og samband hans við hýsla sína, sem eru selir, þorskur og krabbadýr, er langt frá því að vera nægilega vel þekkt til þess að hægt sé að benda ákveðið á hagkvæmar vistfræðilegar aðferðir til þess að draga úr hringormavandanum. Til þess að leysa þann vanda virðist miklu líklegra til árangurs að reyna að bæta aðferðir við að hreinsa orma úr fiski. Menn verða að gera sér ljóst að hér getur verið um kostnaðarsamar og tímafrekar undirstöðurannsóknir að ræða sem vinna þarf án óeðlilegs þrýstings hagsmunasamtaka. Full ástæða er til að vara við markvissum aðgerðum, eins og svonefndri fækkun sela, sem hafa einungis kostnað í för með sér“.

Ég les þetta upp hér, herra forseti, þar sem þetta styður nákvæmlega það sem ég sagði við 1. umr. um þetta mál, en þar minnti ég á þær rannsóknir og tilraunir sem verið er að gera til að efla og finna nýjar aðferðir við leit að hringormi í fiski og tína hann úr fiskinum og hvatti til þess að í það væri meira lagt þar sem það mundi leiða frekar til árangurs en sú leið sem hér er verið að fara.

Það mætti vafalaust vitna í margar aðrar álitsgerðir sem hafa borist um þetta mál og sanna hversu skiptar skoðanir eru um það, en ég ætla ekki að taka allt of mikinn tíma af þessum fundi í það. En þetta er meginástæðan fyrir því að ég er andvíg þessu frv. eins og það er nú. Auk þess er svo með þessu frv., ef það verður að lögum, gengið mjög verulega á rétt hlunnindabænda án þess að þeim séu ætlaðar nokkrar bætur fyrir. Selveiðar hafa lengi fylgt bújörðum og talist búgrein og telja margir að vænlegasti kosturinn til að halda selastofninum í jafnvægi sé einmitt að hann sé nýttur á hefðbundinn hátt svo sem verið hefur.

Við höfum nýlega fengið erindi frá Samtökum áhugamanna um selveiðihlunnindi, sem eru nýstofnuð samtök, stofnuð 13. apríl, þ.e. í gær, og ég ætla að leyfa mér að lesa það upp. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Á stofnfundi samtakanna 13. apríl urðu snarpar umræður um selveiðimál og lagafrv. það sem nú liggur fyrir á Alþingi. Í umræðum og fundarályktun kom m.a. þetta fram:

Selalátur hafa fylgt bújörðum frá upphafi, verið nytjuð af ábúendum þeirra og selveiðar jafnan talist búgrein. Hefðbundnar nytjar þeirra eru vænlegasti kosturinn til að halda selastofnunum í jafnvægi og hafa af þeim gagn. Til skamms tíma voru landselskópaskinn verðmæt grávara. Ástæða er til að ætla að svo verði aftur þegar menn hafa áttað sig á að lokun skinnamarkaðarins hefur ekki leitt til friðunar heldur ofsókna.

Bent hefur verið á að fækkun sela leysir ekki hringormavanda fiskiðnaðarins og óvíst hve mikið hún dregur úr honum. Kenningar um að fækkun sela mundi auka fiskafla á Íslandsmiðum að ráði hafa náttúrufræðingar talið fjarstæðu og fært rök að.

Á fundinum kom fram hörð gagnrýni á hringormanefnd og veiðiaðferðir sem gripið hefur verið til undanfarið. Má telja víst að selalátrum og verðmætum landnytjum hafi verið stórspillt sums staðar af þeim sökum. Ágreiningslaust er þó að nýta megi sel í loðdýrafóður og fækka útsel, enda sé þá farið eftir ströngum reglum um verndun látra.

Frv. um selveiðar, sem nú liggur fyrir Alþingi, hlaut harða dóma á fundinum. Það er talið fela í sér fulla hættu á að selveiðihlunnindi verði tekin af bændum í reynd og selalátrum spillt sem jafngildir stórfelldri eignaupptöku. Fundurinn taldi fulla þörf á heildarlöggjöf um sel og selveiðar sem tæki fullt tillit til verndunarsjónarmiða og skynsamlegrar nýtingar selastofnanna. Mikið skortir á að frv. gegni því hlutverki og er það viðurkennt af mönnum sem studdu það áður, en hafa skipt um skoðun eftir að hafa kynnt sér öll sjónarmið.

Samtök áhugamanna um selveiðihlunnindi krefjast þess að frv. verði ekki lögfest í núverandi mynd heldur verði málið tekið upp að nýju og þá haft fullt samráð við bændur og aðra hagsmunaaðila.“

Á fund sjútvn. skilst mér að hafi komið aðeins einn aðili þegar málið var til umfjöllunar í þeirri nefnd, en það var Anna Guðrún Þórhallsdóttir hlunnindaráðunautur. Hún hafði raunar einnig samband við þingflokk Kvennalistans og við fengum þá umsögn sem hún lét nefndinni í té. Ég hef ekki hlustað á allar umræður þegar þetta var til 2. umr., en ég tel rétt að hér komi fram nokkuð af því sem lesa má hennar umsögn og þá sérstaklega þar sem talað er um rétt landeigenda til látra sinna sem ég ætla að vitna hér orðrétt til, með leyfi forseta:

„Réttur landeigenda til látra sinna er með elstu ákvæðum íslenskra laga. Í tilskipun um veiði á Íslandi frá 1849, 15. gr., sem enn er í gildi, er ákvæði um friðlýsingu og friðhelgi látra og bann við selaskotum. Í ákvæðum þessum er bann við skotveiðum um hálfa danska mílu út frá látrum eða 3,7 km. Þetta bann er ítrekað árið 1855 þegar með konungsbréfi öll skotveiði er bönnuð á Breiðafjarðarsvæðinu. Bann við skotveiðum er síðan lögfest árið 1925 og eru þau lög enn í gildi. Ástæður tilgreindra ákvæða eru öllum augljósar er til þekkja. Selur í látrum er mjög viðkvæmur fyrir utanaðkomandi truflunum. Skotsvæði í nálægð látra hrekur selinn úr látri og hefur í för með sér eyðileggingu þeirra þar eð hann í mörgum tilvikum snýr ekki aftur.

Í frv. því sem nú liggur fyrir Alþingi er friðhelgi látra skert verulega með því að færa friðhelgina úr hálfri danskri mílu eða 3,7 km í 115 m netalög. Ljóst má vera þeim er um málið hugsa að með skerðingu þessari er réttur landeigenda til látra sinna í raun að engu gerður.

Með 2. málsgr. 4. gr. til laga um selveiðar við Ísland er í reynd verið að taka selveiðihlunnindi frá landeigendum. Undirrituð bendir á að selveiðihlunnindi sem og önnur hlunnindi eru tekin með í fasteignamati og skattskyld. Selveiðihlunnindi eru því samkvæmt lögum verðmæti og eign landeiganda.

Bent skal sérstaklega á dóm Hæstaréttar frá 17. nóv. 1967 þar sem selveiðinytjar eru talin eign sem varin er af 67. gr. stjórnarskrárinnar. Með skerðingarákvæðum 4. gr. frv. til laga um selveiðar við Ísland er því í raun gengið á eignarrétt landeiganda á selveiðinytjum sínum.

Í lögum um lax- og silungsveiði er að finna ákvæði um að fullar bætur skuli koma fyrir þegar, vegna hagsmunaárekstra, bændur missi selveiðinytjar sínar. Friðlýsing látra, sbr. 5. gr. tilskipunar um veiði á Íslandi frá 1849, er ekki talin nauðsynleg til að til bóta komi samkvæmt fyrrnefndum dómi Hæstaréttar frá 17. nóv. 1967.

Á undanförnum árum hafa fjölmargir bændur og landeigendur mátt líða skerðingu og jafnvel fullan missi selveiðihlunninda sinna vegna hagsmunaárekstra við sjávarútveginn án þess að fá nokkrar bætur fyrir. Í frv. til laga um selveiðar við Ísland eru engin ákvæði um bótagreiðslur til landeiganda vegna missis selveiðinytja sem orsakast af hagsmunaárekstrum við sjávarútveginn.

Með hliðsjón af 85. gr. laga um lax- og silungsveiði verður að teljast eðlilegt og sanngjarnt að slíkt ákvæði væri að finna í framangreindu frv. Á undanförnum mánuðum hefur mjög verið þrengt að bændum og eiga margir hverjir í vök að verjast við að halda búum sínum og búsetu.

Hlunnindi ýmiss konar skipta því bændur mun meira máli nú en verið hefur og hefur áhugi þeirra á nýtingu hlunninda sinna aukist verulega á undanförnum mánuðum. Selskinn hafa ekki verið í háu verði á undanförnum árum, en ýmislegt bendir nú til að það sé að breytast og markaðir að opnast að nýju. Með þau verðmæti í huga, sem lágu og geta legið í hefðbundnum nytjum af sel, er enn mikilvægara að halda rétt og skynsamlega á málum.

Með skerðingarákvæðum á rétt landeigenda til látra sinna er mikil hætta á að landeigendur missi sín selveiðihlunnindi í hendur utanaðkomandi skotmanna sem hvorki hafa til að bera áhuga né þekkingu á verkun skinnanna.

Á undanförnum tveimur árum hefur verið bent á fjölmörg atriði í frv. til laga um selveiðar við Ísland er betur mættu fara. Hér að framan hefur verið bent á enn eitt atriði sem að dómi undirritaðrar hefur ekki komið nógu skýrt fram áður.

Nauðsynlegt er að koma á heildarlöggjöf um sel og selveiðar sem og aðrar veiðar á Íslandi. Hins vegar verður ekki séð að frv. það sem hér er fjallað um leysi meiri vanda en það skapar, svo marga vankanta sem á því er að finna. Staldra verður við og bæta úr áður en lengra er haldið.“

Herra forseti. Ég vil svo að lokum vitna í grg. Náttúruverndarráðs um hringorma og seli frá því í janúar 1984 þar sem segir svo:

„Náttúruverndarráð vill ítreka þá skoðun sína að brýna nauðsyn ber til að sett verði hið fyrsta lög um selveiðar við Ísland er tryggi fullnægjandi stjórnun þessara veiða. Ráðið telur rétt í því sambandi að sjútvrn. hafi yfirumsjón mála er selveiðar varða. Þá er eðlilegt að Hafrannsóknastofnun annist rannsóknir á selum að öðru jöfnu en fylgist að öðrum kosti náið með rannsóknum er aðrir kunna að hafa með höndum. Hyggilegt væri að koma á fót sérstakri nefnd er væri til aðstoðar sjútvrn. um allt er varðar stjórnun og skipulag selveiða, en í slíkri nefnd ættu m.a. að sitja fulltrúar Náttúruverndarráðs, Hafrannsóknastofnunar og hagsmunaaðila.

Ofangreint fyrirkomulag mundi stuðla að því að selveiðar yrðu undir ströngu eftirliti. Jafnframt tryggði það ítarlega umfjöllun um þessi mál, bæði frá fræðilegu sjónarmiði og frá sjónarmiði náttúruverndar, en á hvort tveggja hefur verulega skort frá því að hringormanefnd hóf afskipti sín af selveiðum.

Náttúruverndarráð vill að lokum taka það fram að það er að sjálfsögðu ekki andvígt skynsamlegri nýtingu sela hér við land. Hins vegar vill ráðið enn vara við ótímabærum og hæpnum aðgerðum til fækkunar sela. Eins og fram hefur komið hér að framan er þörf miklu meiri rannsókna á fjölmörgum atriðum er snerta hringormavandamálið. Þegar haft er í huga hversu gífurlegir hagsmunir eru hér í húfi verður það og að teljast nauðsynlegt að veita miklu fjármagni til hnitmiðaðra rannsókna.“

Ég tel ekki að þrautreynt sé hvort hægt er að ná samkomulagi allra þeirra sem láta sig þessi mál varða og tel farsælast að fresta þessu máli enn einu sinni og reyna að ná friði um þetta mál.